Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 15:09:07 (2811)


[15:09]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þau svör sem veitt hafa verið og sem út af fyrir sig má segja að hjálpi til við að þróa umræðuna áfram án þess að maður segi meira um það á þessu stigi. Ég veit ekki hvort það er uppi einhver misskilningur í sambandi við málið. Ég átta mig ekki alveg á því satt best að segja þar sem málið liggur þannig að það er verið að mismuna. Þeir sem eru læknar, hjúkrunarfræðingar, sjóntækjafræðingar, sjúkraþjálfarar og eiga heima á hinu Evrópska efnahagssvæði fá eftir þessu frv. fullan rétt á Íslandi og skilyrði um íslenskukunnáttu eru ekki sett um þetta fólk. Það mundi verða brot þannig að það verða ekki sett nein sérstök skilyrði um það en annað fólk verður að sæta ákveðnum skilyrðum. Með öðrum orðum þeim svörtu og þeim gulu, sem hv. formaður heilbr.- og trn. var að tala um áðan, er mismunað. Það er verið að búa til múr í kringum lúxusklúbb yfirstéttarheimsins.
    Svarið gæti út af fyrir sig verið, það ef menn vildu, að láta annaðhvort þetta ákvæði aðeins gilda um Ísland og hafa íslenskuákvæði gagnvart öllum öðrum. Það væri hins vegar brot á þessum samningi. Hin leiðin væri sú að hafa ákvæðið mikið rýmra. Spurningin er auðvitað hvort stjórnarliðið væri tilbúið til þess að athuga það milli 2. og 3. umr. málsins að hafa þetta mikið rýmra þannig að þeir svörtu og þeir gulu og aðrir sem kunna að uppfylla fagleg skilyrði málsins að öðru leyti geti stundað lækningar, hjúkrun, sjóntækjagerð, sjúkraþjálfun eða hvað það nú er sem kveðið er á um í þessu frv. Ég hlýt því að spyrja hvort talsmenn stjórnarflokkanna séu tilbúnir til þess að rýmka ákvæði frv. frá því sem þau eru núna þannig að þetta verði opnað frá því sem gert er ráð fyrir í frv.
    Hv. 5. þm. Austurl. sagði að þessi ákvæði snertu bara ákvæði að lækningaleyfum en ekki að formlegum störfum. Það er út af fyrir sig rétt. Í fyrsta lagi snertir þetta aðeins aðgang að lækningaleyfum en í öðru þrepi snertir þetta auðvitað aðgang að opinberum störfum vegna þess að það er ljóst að það má ekki mismuna því fólki sem kemur af hinu Evrópska efnahagssvæði gangvart opinberum störfum, t.d. heilsugæslulækna, heilsugæsluhjúkrunarfræðinga eða hvað það nú er. Jafnframt er ljóst að ef um er að ræða sérfræðinga í tilteknum greinum læknisfræðinnar, þá er þetta líka aðgangur að peningum. Ég vil spyrja hv. 5. þm. Austurl. alveg nákvæmlega: Hvað með þá sem hafa sérfræðingaleyfi í læknisfræði, augnlæknar, bæklunarlæknar eða hverjir það nú eru? Munu þeir samkvæmt þessu frv., ef það verður að lögum, geta opnað stofur eins og aðrir sérfræðingar á viðkomandi sviði? Eða hvernig er farið með sérfræðingana sérstaklega í þessu frv. eins og það lítur út?
    Út af fyrir sig er nokkuð til í því að Ísland hefur að mörgu leyti verið lokað eins og hv. 5. þm.

Austurl. gat um áðan. Það er út af fyrir sig alveg rétt og það á sér ýmsar ástæður. Í fyrsta lagi má segja bara landfræðilegar ástæður. Við erum langt í burtu. Í öðru lagi menningarlegar og sögulegar ástæður sem eru þær að það er ekki mjög langt síðan við endurheimtum okkar sjálfstæði og menn hafa þess vegna goldið varhug við því að opna landið umfram ýtrustu nauðsyn á stundum. En í þriðja lagi er þetta svo vegna þess að ýmsar fagstéttir hafa búið til múr í kringum sig. Ég tel t.d. að tannlæknar, svo ég nefni dæmi, hafi komist upp með að loka sinni stétt allt of mikið. Ég tel að það hafði átt að opna þann markað meira en gert hefur verið. En hagsmunaástæður, m.a. tannlæknastéttarinnar, hafa gert það að verkum að landinu hefur verið lokað. Þannig er um fleiri sérfræðigreinar sem í nafni þekkingar en í raun á grundvelli þröngra eiginhagsmuna hafa tekið þátt í því að loka landinu. Það er út af fyrir sig slæmt og um það erum við öll sammála. En þó við séum sammála um það þá megum við auðvitað ekki láta minnimáttarkenndina ná tökum á okkur þannig að menn segi sem svo: Við skulum bara opna þetta allt upp á gátt hjá okkur af því að við erum svo opin og víðsýn og klár og ráðum við hvað sem er. Við skulum ekki verða þannig séð fórnarlömb minnimáttarkenndarinnar eins og hendir menn oft frá hinum bæjardyrunum séð sem er jafnslæmt og hitt að menn verði fórnarlömb einhvers þjóðernishroka.
    Þess vegna held ég að það vanti talsvert upp á að hér hafi hafist eðlileg umræða um Ísland og stöðu þess í umheiminum. Í staðinn hafa menn keyrt í gegn stóra erlenda samninga án þess að neinar undirstöðuumræður um grundvallaratriði hafi fengist. Og ég saknaði þess alltaf í þessum miklu umræðuflóðum um Evrópskt efnahagssvæði að menn fengust einhvern veginn ekki til að staldra við meginatriði, grundvallaratriði, eins og þyrfti að gera. Það er auðvitað alveg rétt, sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson benti á áðan, að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði er að því leytinu til alveg óvenjulegur að hann er ekki eins og gengur og gerist með samninga þannig að aðilar ýmist gefi eftir eða vinni á víxl heldur felur hann í sér ákveðin einhliða réttindi fyrir Evrópubandalagið sem getur breytt lögum og reglum og ákvæðum án þess að við fáum nokkra rönd við reist hér í þessari stofnun. Við höfum ekki sama rétt gagnvart hinum aðilunum. Við í þessari stofnun höfum ekki rétt til þess að hafa frumkvæði og segja: Hinn samningsaðilinn verður að taka það gott og gilt sem við segjum. Við höfum ekki þann rétt á sama hátt. Þess vegna er samlíkingin við flæðilínuna því miður rétt. Ég ímynda mér það að áður en langur tími líður, áður en þetta þing verður allt, ég tala nú ekki um næsta þing, muni mörgum þingmanninum þykja þröngt fyrir sínum ,,durum``, svo vitnað sé til gamalla bóka, að ég nefni nú ekki kotkarla í þessu sambandi sem er auðvitað fjarstæða að nefna þegar menn eru að tala um hina virðulegu þingmenn Alþingis Íslendinga. Ég hygg að það verði þannig að menn muni telja að það verði nokkuð þröngt fyrir þeirra ,,durum`` þegar hinir erlendu skömmtunarstjórar fara að húrra hér inn á flæðilínuna lögum, tilskipunum, reglum og reglugerðum um allt milli himins og jarðar og við sem vinnum í þessari stofnun hjá henni Salome, þ.e. hæstv. forseta Alþingis höfum ekki við að stimpla. Það eru sérkennileg örlög og sérstaklega sérkennileg örlög, verð ég að segja, að það skuli vera rætt undir dagskrármáli af því tagi sem hér er en ekki áður en því var þrælað í gegn að Íslendingar yrðu aðilar að Evrópsku efnahagssvæði.
    Ég lagði, virðulegi forseti, spurningar fyrir hv. formann heilbr.- og trn. sem ég vænti að hann geti svarað.