Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 15:21:03 (2813)


[15:21]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. hans síðustu orð. Þau benda til þess að hann sé tilbúinn að hefja þann leiðangur með öðrum að endurskilgreina forsendur Evrópubandalagsins og innri markaðarins strax og hann hefur tekið gildi. Orð hans staðfesta auðvitað það sem stundum hefur verið sagt áður og ég hef

einhvern tímann sagt úr þessum ræðustól að daginn sem innri markaðurinn tekur gildi þá byrji hann að deyja. Hæstv. utanrrh. hefur orðað það svo að þetta fyrirbæri verði sjálfsagt ekki til mjög lengi. Ég held að hann hafi nefnt 10 ár í því sambandi einhvern tímann. Ég þakka hv. þm. fyrir þessa yfirlýsingu
    Hitt er einnig umhugsunarefni að fyrir nokkrum dögum var gefin út skýrsla Ríkisendurskoðunar um hvernig læknastéttin dælir út úr ríkissjóði. Hún gerir það ýmist hjá spítölunum, háskólanum eða opnar krana upp um allan Laugaveg og inni í Glæsibæ og í nýja miðbænum og Kringlunni og guð veit hvar. Það er verið að opna krana ofan úr Tryggingastofnun ríkisins fyrir lækna og það eru rosalegir peningar sem þeir eru að pumpa út úr ríkissjóði. Nú munu þeir fá hjálp. Samkvæmt því sem hv. þm. sagði áðan mun það verða svo að sérfræðingar, hvaðan sem er af hinu Evrópska efnahagssvæði, geta opnað stofur á Íslandi og byrjað að pumpa peningum út úr sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins og, ég bendi á, virðulegi forseti, að talsverður hópur af þessum læknum í Evrópu býr við mikil efni og er með gríðarlega stórar og vel tækjum búnar stofur og þá verður kannski þröngt fyrir ,,durum`` hjá fleiri kotkörlum en þeim sem eru staddir á Alþingi Íslendinga. Spurningin er sú hvort við viljum brjóta niður þessa sérfræðiþjónustu eða hvort við viljum takmarka aðganginn að sameiginlegum peningum þjóðarinnar úr ríkissjóði með einhverjum öðrum hætti.