Fjárlög 1994

70. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 17:31:58 (3096)


[17:31]
     Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigbjörn Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frhnál. meiri hluta fjárln. um frv. til fjárlaga fyrir árið 1994.
    Fjárln. hefur nú lokið störfum fyrir 3. umr. fjárlaga fyrir 1994. Nokkrar tillögur voru dregnar til baka við 2. umr. og var fjallað um þær að nýju ásamt hefðbundnum verkefnum sem lúta að 3. umr. Vissulega hefur mikið vinnuálag fylgt störfum nefndarinnar og vil ég endurtaka þakkir mínar frá því við 2. umr. til samnefndarmanna og starfsfólks og allra þeirra aðila annarra sem hafa lagt sig fram um að greiða götu nefndarinnar. Ég vil sérstaklega geta þess að mikil vinna er fólgin í að ganga frá ýmsum afgreiðslum, skýringum og undirbúningi að prentun þingskjala og fleiru.
    Samkvæmt venju mættu fulltrúar Þjóðhagsstofnunar til viðræðna við nefndina fyrir 3. umr. og gerðu grein fyrir efnahagshorfum. Þar kom fram að allt lítur út fyrir að þróun efnahagsmála á þessu ári og horfur fyrir næsta ár séu talsvert hagstæðari en gert var ráð fyrir í þjóðhagsáætlun sem lögð var fyrir hið háa Alþingi í október sl. Undangengin tvö ár hefur álit Þjóðhagsstofnunar gengið í þveröfuga átt við það sem nú er við 3. umr., þ.e. búist hefur verið við lakari horfum í efnahagsmálum en áætlanir gerðu ráð fyrir tveimur mánuðum fyrr.
    Framvindan á því ári sem nú er liðið virðist ætla að verða nokkru hagstæðari en gert var ráð fyrir í þjóðhagsáætlun frá því í október. Þannig er talið að útflutningur vöru og þjónustu verði talsvert meiri en áætlað var, eða aukist um 3,7% að magni til miðað við 2% í þjóðhagsáætlun. Að baki þessu liggur fyrst og fremst aukinn afli og einkum utan fiskveiðilögsögunnar. Því verður landsframleiðslan meiri og viðskiptajöfnuðurinn hagstæðari en gert hafði verið ráð fyrir. Landsframleiðslan mun því aukast um 1% á árinu en ekki 0,5%. Þjóðartekjurnar dragast saman um 1,3% samanborið við 1,9% í fyrri áætlun. Þjóðarútgjöld eru talin verða óbreytt frá fyrri áætlun.
    Útlit er fyrir að viðskiptahallinn verði um 3 milljarðar sem svarar til 0,8% af landsframleiðslu. Fyrri áætlun gerði hins vegar ráð fyrir 5,5 milljarða kr. halla. Verðbólga milli

áranna 1992 og 1993 verður óbreytt eða um 4% eins og fyrri þjóðhagsáætlun gerði ráð fyrir. Kaupmáttur ráðstöfunartekna er talinn dragast saman um 5% í stað 6% áður.
    Þjóðhagsstofnun spáir að landsframleiðsla verði 2% minni á komandi ári en því sem er að líða. Þetta er 0,6% minni samdráttur en gert var ráð fyrir í þjóðhagsáætlun. Þjóðartekjur dragast saman í takt við landsframleiðslu. Reiknað er með að samdráttur þjóðarútgjalda verði um 1% minni en í þjóðhagsáætlun eða um 1,6%. Hallinn á viðskiptum við útlönd er talinn verða nokkru meiri en á þessu ári, eða um 1% af landsframleiðslu sem er þó talsvert minna en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.
    Vegna minnkandi eftirspurnar og umsvifa í þjóðarbúskapnum er talið að atvinnuleysi aukist nokkuð á milli ára og verði 5% á næsta ári sem er þó minna en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Verðbólga virðist hins vegar vera á undanhaldi og spáir Þjóðhagsstofnun 2,5% verðbólgu á árinu 1994 sem yrði minnsta verðbólga sem um getur hér á landi í þrjá áratugi og minni en í flestum helstu viðskiptalöndum okkar. Áætlað var í þjóðhagsáætlun að kaupmáttur ráðstöfunartekna drægist saman um 4%. Ný spá gerir hins vegar ráð fyrir 3,2% samdrætti.
    Í frumvarpi til fjárlaga var reiknað með að tekjur ríkissjóðs yrðu tæplega 103,5 milljarðar kr. á árinu 1994. Frá því að sú áætlun var gerð eru þjóðhagshorfur fyrir komandi ár heldur betri að mati Þjóðhagsstofnunar eins og fyrr hefur komið fram sem gæti skilað ríkissjóði um 300 millj. kr. í viðbótartekjur. Hér gætir áhrifa minni samdráttar þjóðarútgjalda en í fyrri áætlun en á móti vega minni verðlagsbreytingar. Jafnframt bendir allt til þess að tekjurnar á yfirstandandi ári verði meiri en áður var talið sem meðal annars birtist í betri innheimtu á sköttum fyrirtækja. Þessarar þróunar gætir einnig í minna mæli þó --- á næsta ári.
    Á móti vegur tvennt. Annars vegar veruleg lækkun bensínverðs á erlendum mörkuðum að undanförnu. Þetta hefur umtalsverð áhrif á vörugjaldstekjur ríkissjóðs af bensíni en þær nema nú 90% af innflutningsverðmæti og hækka væntanlega í 97% í byrjun næsta árs. Lækkun frá fjárlagafrv. nemur um 300 millj. kr. Hins vegar hafa orðið nokkrar breytingar á áformum stjórnvalda í skattamálum í tengslum við endurskoðun kjarasamninga í nóvember sl. Þar er þó fyrst og fremst um að ræða tilfærslu milli tekjustofna. Þannig var horfið frá áformum um álagningu sérstaks 0,5% tryggingagjalds á einstaklinga. Í stað þess er tekjuskattur einstaklinga hækkaður um 0,35% og bifreiðagjald um þriðjung. Jafnframt eru vörugjöld á nokkrum vöruflokkum lækkuð til að koma í veg fyrir að samkeppnisstaða raskist vegna lækkunar virðisaukaskatts á matvælum.
    Þá hafa orðið nokkrar breytingar í meðförum Alþingis sem lækka tekjurnar um 120 millj. kr. Meginbreytingin er að fallið hefur verið frá álagningu 14% virðisaukaskatts á fólksflutninga sem átti að koma til framkvæmda um næstu áramót. Enn fremur verður gjald af kjarnfóðri lækkað á næsta ári sem skerðir tekjurnar um 40 millj. kr.
    Þegar allt er lagt saman verða heildartekjur ríkissjóðs 675 millj. kr. meiri á árinu 1994 en gert var ráð fyrir í frv., eða liðlega 104,1 milljarður kr.
    Í ræðu minni við 2. umr. benti ég á að unnið hefði verið að sparnaði í ríkisrekstri og náðst hefði að mestu leyti að stöðva sjálfvirka útgjaldaþróun sem viðgekkst allt of lengi. Í þeirri ræðu vitnaði ég til skýrslu yfirskoðunarmanna og Ríkisendurskoðunar um ríkisreikninginn 1992 þar sem bent er á mikilvægi þess að fyrir hendi séu aðferðir til að meta árangur ríkisstofnana. Það er brýnt verkefni að finna aðferðir til þeirra verka.
    Það er ljóst að tími ákvarðana um flatan niðurskurð er liðinn. Það er jafnaugljóst að það er útilokað að halda áfram á þeirri braut að efna til nýrra viðfangsefna án annars tveggja, að hækka skatta eða leggja niður einhverja þá starfsemi sem fyrir er. Það eru mikil verkefni hvað þetta varðar sem bíða okkar stjórnmálamanna og raunar þjóðarinnar allrar. Þau eru vafalítið lítt til vinsælda fallin en undan þeim verður engan veginn vikist ef halda á þeim stöðugleika sem um þessar mundir ríkir í íslensku efnahagslífi. Stöðugleika sem er forsenda nýsköpunar í samfélagi okkar.
    Þessum hugleiðingum mínum tengist að sjálfsögðu annað tröllaukið verkefni. Það er að vinna að áætlun um lækkun halla ríkissjóðs. Þrálátum hallarekstri hins opinbera fylgir skuldasöfnun. Skuldir hins opinbera hafa vaxið hröðum skrefum hin síðustu ár, eða úr 30% af landsframleiðslu framan af níunda áratugnum í meira en 50% árið 1993. Ekki þarf síst að draga úr þeim hluta hallans sem á rætur í langtímaskuldbindingum og lögbundnum útgjöldum. Því er nauðsynlegt að gera trúverðuga og rækilega undirbúna áætlun í átt að jöfnuði í ríkisfjármálum sem er forsenda frekari vaxtalækkana og að svigrúm gefist til vaxtar atvinnuveganna. Það svigrúm er takmarkað ef lánsfjárþörf opinberra aðila gleypir allan nýjan sparnað þjóðarinnar. Ég tel mjög nauðsynlegt að gera áætlun til fjögurra til fimm ára í þessu skyni, þ.e. að lækka og eyða ríkissjóðshalla.
    Þrátt fyrir að tími hins flata niðurskurðar sé liðinn að mínu mati verðum við alltaf að vera á varðbergi og leita leiða til hagræðingar í rekstri hins opinbera, t.d. með sameiningu og samstarfi fyrirtækja í eigu hins opinbera sem og annars staðar. Í því sambandi bendi ég á nauðsyn þess að íhuga af kostgæfni flutning Vitastofnunar til Landhelgisgæslu og sömuleiðis sameiningu Vegagerðar ríkisins og Hafnamálastofnunar en verkefni þessara tveggja stóru stofnana ríkisins eru með mjög líkum hætti og álít ég að ná mætti verulegum sparnaði og hagræðingu með slíkri sameiningu.
    Virðulegi forseti. Fjárln. barst erindi frá Öskjuhlíðarskóla vegna sumardvalar fyrir nemendur skólans. Um framkvæmd þessara mála er óvissa milli ráðuneyta menntamála og félagsmála. Fjárln. leggur áherslu á að lausn finnist á þessu máli hið fyrsta þannig að sumardvöl fatlaðra barna úr Öskjuhlíðarskóla verði tryggð næsta sumar.
    Málefni lítilla hitaveitna þar sem hár stofnkostnaður hefur leitt til hárra heimtaugagjalda og notendagjalda komu til umræðu milli 2. og 3. umr. Margar þessara veitna eiga í erfiðleikum með greiðslu afborgana af teknum lánum. Vikið er að málefnum veitnanna í breytingartillögum meiri hluta fjárln. við 6. gr. frv. Það er nauðsynlegt að fram komi í tengslum við þau mál að Ríkisendurskoðun lagði mat á málefni veitnanna að tilhlutan fjárln. 1992. Það mat verður að hafa til hliðsjónar við lausnir þessara mála.
    Erfið fjárhagsstaða fjögurra sjúkrahúsa, þ.e. Garðvangs, St. Fransiskusspítala í Stykkishólmi, Sjúkrahússins á Akranesi og Sjúkrahússins í Neskaupstað komu sérstaklega til umræðna í fjárln. milli 2. og 3. umr. Vegna þeirra mála ritaði hæstv. heilbrrh. nefndinni bréf þar sem segir að heilbr.- og trmrn. hafi haft mál þessara fyrrnefndu stofnana til skoðunar og muni á næsta ári leita niðurstöðu þeirra mála.
    Við 2. umr. fjárlaga gaf hæstv. heilbrrh. út sérstaka yfirlýsingu vegna hjúkrunarheimilisins á Fáskrúðsfirði þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Til að taka af öll tvímæli og ná sátt um þau markmið vil ég lýsa því yfir að ég mun beita mér fyrir því strax á næsta ári að gera samning við heimamenn um verkið og einnig beita mér fyrir því í samráði við hv. fjárln. að tryggja nauðsynlegt fjármagn til þess að framkvæmdir geti hafist á árinu 1995.``
    Fjárln. ræddi þessi mál sérstaklega milli umræðna og telur í ljósi þessarar yfirlýsingar hæstv. heilbrrh. það í valdi heimamanna hvenær framkvæmdir hefjast þegar samningur liggur fyrir.
    Við 2. umr. var samþykkt tillaga við fjárlagaliðinn Sjúkrahús og læknisbústaðir um nýjan lið sem fær heitið Viðhald starfsmannaíbúða, óskipt. Framlag er 20 millj. kr. en sértekjur hækka um sömu upphæð og nettóáhrif því engin. Um næstu áramót verður því sú breyting að leigutekjur allra starfsmannaíbúða renna í sameiginlegan sjóð, sem standa mun undir rekstri og viðhaldi allra starfsmannaíbúða. Meiri hluti fjárln. lítur svo á að þrátt fyrir það geti heilbrrn. heimilað einstökum sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum að sjá um viðhald.
    Við meðferð frv. í fjárln. kom fram erindi frá Ferðamálasamtökum Íslands þess efnis að 5 millj. kr. af fjárveitingu til Ferðamálaráðs yrðu færðar á sérlið í nafni samtakanna. Ekki er orðið við erindinu en það er skoðun fjárln. að 5 millj. af framlaginu skuli koma í hlut samtakanna.
    Við afgreiðslu fjárlaga 1993 vék þáverandi formaður fjárln. að nauðsyn þess að lækka kostnað við akstur opinberra starfsmanna og jafnframt rekstur og viðhald bifreiða. Beindi hann þeim tilmælum til fjmrn. að taka á þessu máli við framkvæmd fjárlaga 1993.

Í byrjun þessa árs fól ríkisstjórnin fjmrn. í samráði við ráðuneytisstjóra í Stjórnarráðinu og bílanefnd ríkisins að gera tillögur um lækkun bifreiðakostnaðar ríkisins í því skyni að ná fram heildarlækkun miðað við 5--10% miðað við árið 1991. Árangur þess starfs hefur ekki orðið sá sem vænst var enda skorti heimild til að lækka fjárveitingar einstakra stofnana í þessu skyni.
    Í skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings og Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning 1992 eru ítrekaðar fyrri áskoranir um að fram fari heildarúttekt á hvers konar aukagreiðslum og fríðindum sem ýmsir ríkisstarfsmenn njóta. Að mati þeirra er löngu tímabært að samræma laun og starfskjör ríkisstarfsmanna og girða fyrir handahófskenndar ákvarðanir í launa- og kjaramálum sem oftar en ekki hefur haft óþolandi mismunun í för með sér. Í ljósi þessa leggur meiri hluti fjárln. fram tillögu um heimild til fjmrh. að endurskoða reglur um aksturskostnað ríkisins, auglýsingar og greiðslur til starfsmanna fyrir yfirvinnu, ferðakostnað og nefndar- og stjórnarlaun. Þetta verði gert með því að fjmrh. er heimilt að lækka laun og önnur gjöld stofnana ríkisins í A- og B-hluta fjárlaga 1994 um allt að 0,5% hjá hverri stofnun, þó að hámarki 50 millj. kr. samtals.
    Tillögur meiri hluta er varða útgjöld A-hluta ríkissjóðs leiða til lækkunar útgjalda að fjárhæð 243,9 millj. kr.
    Ég mun þá taka til við að gera grein fyrir einstökum breytingartillögum.
    Á liðnum 201, Alþingi, er lagt til að sérfræðileg aðstoð við þingflokka hækki um 10,8 millj. kr.
    Á liðnum 01-190, Ýmis verkefni, er gerð tillaga um að framlag til forsrn. hækki um 70 millj. kr. vegna lýðveldishátíðarinnar á næsta ári. Fyrirhugað er að minnast þessara tímamóta í sögu þjóðarinnar á Þingvöllum hinn 17. júní á næsta ári og stafar kostnaður að langmestu leyti af þeim hátíðahöldum.
    Á lið 01-901, Húsameistari ríkisins. Meiri hluti fjárln. gerir tillögu um lækkun framlags til húsameistara um 5 millj. kr. Við 2. umr. var samþykkt 9 millj. kr. fjárveiting til Hallgrímskirkju til að greiða upp skuld við embætti Húsameistara ríkisins. Sú uppgreiðsla á að auðvelda embættinu að mæta lækkun á framlaginu.
    Við lið 902, Þjóðgarðurinn á Þingvöllum. Lagt er til að við fjárlagalið þjóðgarðsins á Þingvöllum bætist nýr liður sem er Aðalskipulag og að framlag verði 5 millj. kr. Vegna mikillar umferðar um Þingvallarsvæðið þykir nauðsynlegt að gera göngubrú yfir Öxará fyrir gesti þjóðgarðsins. Þetta er mikilvægur liður í því að beina umferð gangandi gesta frá þeim svæðum þar sem gróður er viðkvæmur.
    Vík ég þá að menntmrn. Liður 201, Háskóli Íslands. Framlag til Háskóla Íslands breytist nokkuð. Fyrst er þar að telja hækkun framlags vegna Vinnumatssjóðs. Gengið hefur verið frá kjarasamningi ríkisins við Félag háskólakennara. Í samningnum er gert ráð fyrir að framlag ríkisins til Vinnumatssjóðs kennara við Háskóla Íslands hækki um 15 millj. kr. frá því sem áætlað er í fjárlagafrv.
    Framlag til sérstofnana og verkefna Háskóla Íslands lækkar um 57,8 millj. kr. vegna tilflutnings Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands á sér fjárlagalið. Áætlun stofnunarinnar um sértekjur nema 52 millj. kr. og lækka því sértekjur háskólans um sömu fjárhæð. Rannsóknastarfsemi á vegum Háskóla Íslands hefur verið komið á allvíða um land með góðum árangri og nú síðast hafa Vestmannaeyjabær og Háskóli Íslands gert með sér samning á sviði rannsókna og þróunar. Einnig er fyrirhugað að útibú Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og Hafrannsóknarstofnunar í Vestmannaeyjum reki sameiginlega aðstöðu með Háskóla Íslands. Tillaga fjárln. um framlag er annars vegar ætlað til að kosta stöðu starfsmanns sem annast á daglegan rekstur í Vestmannaeyjum og hafa verkefnisumsjón í einstökum verkefnum. Launagjöld vegna hans verða 1,8 millj. kr. Hins vegar eru ætlaðar 12 millj. kr. til kaupa og umbóta á húsnæði í Vestmannaeyjum.
    Liður 209, Verkfræðistofnun Háskóla Íslands. Lagt er til að fjárveiting til Verkfræðistofnunar Háskólans verði færð á sér fjárlagalið en það er í samræmi við nýja reglugerð um stofnunina sem mælir fyrir um að hún hafi sjálfstæðan fjárhag. Framlag að frádregnum sértekjum er 5,8 millj. kr. og er sú fjárhæð flutt af fjárlagalið Háskóla Íslands.

    Liður 318, Almennir framhaldsskólar, viðhald og stofnkostnaður. Gerð er tillaga um breytingu á sundurliðun fjárveitingar til byggingarframkvæmda sem hefur ekki áhrif til hækkunar eða lækkunar á fjárveitingu. Þar er um að ræða að fjárveiting til Verkmenntaskólans og Menntaskólans á Akureyri er sett á sameiginlegan lið.
    Liður 523, Fósturskóli Íslands. Varðandi Fósturskóla Íslands þá er lögð til 500 þúsund kr. hækkun vegna breyttrar húsaleigu.
    Liður 872, Lánasjóður íslenskra námsmanna. Forráðamenn Lánasjóðs íslenskra námsmanna hafa lagt fram endurskoðaða áætlun fyrir starfsemi sjóðsins á árinu 1993. Þar kemur fram að veitt lán til námsmanna eru um 350 millj. kr. lægri á yfirstandandi ári en áætlað er að verði á næsta ári samkvæmt fjárlagafrv. Því er lagt til að áætlun um veitt lán til námsmanna verði lækkuð um 130 millj. kr. og að framlag til sjóðsins í A-hluta lækki um 70 millj. kr. Nánari skýringar á breytingum í B-hluta vegna þessa er að finna í nefndaráliti meiri hluta fjárln.
    Liður 902, Þjóðminjasafn Íslands. Gerð er tillaga um að framlag til verndunar gamalla húsa hækki um 10 millj. kr. og er þessi hækkun einkum ætluð til að ljúka endurbótum á Húsinu á Eyrarbakka í samræmi við samning þar um.
    Liður 903, Þjóðskjalasafn Íslands. Lagt er til að veittar verði 20 millj. kr. til viðgerða á húsnæði Þjóðskjalasafns. Nú eru liðin sjö ár frá því að Þjóðskjalasafn flutti starfsemi sína að hluta að Laugavegi 162 og eru húsakynni safnsins þar nú fullnýtt en ekki hefur verið gengið frá geymslum safnsins né búnaði í þær. Framlagið er einkum ætlað til viðhalds utan húss og að koma í veg fyrir varanlegar skemmdir og dýrar viðgerðir síðar. Auk þess verði lögð áhersla á að tryggja örugga geymslu þeirra gagna sem þar eru varðveitt.
    Samkvæmt lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, skal fram til aldamóta lagður á sérstakur eignarskattur sem á að standa straum af kostnaði við endurbætur á húsakosti menningarstofnana og stuðla að verndun gamalla bygginga í eigu ríkisins. Umrætt framlag til Þjóðskjalasafns verður fjármagnað af tekjum af skatti þessum en áætlað er að þær verði 20 millj. kr. hærri en gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. Þessi breyting verður áréttuð í væntanlegum lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 1994. Framlag til Þjóðarbókhlöðu verður óbreytt frá því sem lagt er til í fjárlagafrv.
    Liður 972, Íslenski dansflokkurinn og Listdansskólinn. Í nýsamþykktum fjáraukalögum fyrir árið 1993 er framlag til Íslenska dansflokksins og Listdansskólans hækkað, enda hefur komið í ljós að framlag í fjárlögum ársins er vanáætlað miðað við þá starfsemi sem haldið er uppi. Hækkunin sem meiri hluti fjárln. leggur til, samtals 5,5 millj. kr., á að gera dansflokknum og Listdansskólanum kleift að halda sig innan ramma fjárlaga næsta árs.
    Liður 981, Kvikmyndasjóður. Meiri hluti fjárln. leggur til að framlag til Kvikmyndasjóðsins lækki um 10 millj. kr. Þessi breyting verður áréttuð í væntanlegum lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 1994.
    Liður 982, Listir, framlög. Lagt er til að Listahátíð í Reykjavík verði færð á sérlið og að framlag verði 15 millj. kr. vegna Listahátíðar 1994. Á móti lækkar framlag til óskipts liðar listamála um 5 millj. kr. Fjárveiting til Listahátíðar hefur á undanförnum árum ætíð reynst of lág. Í gildi hefur verið samningur um að ríkissjóður og Reykjavíkurborg greiði framlag og hugsanlegan halla vegna Listahátíðarinnar til helminga. Því hefur komið til breytinga í fjáraukalögum þegar kostnaður vegna hátíðarinnar hefur farið fram úr áætlunum fjárlaga. Ófært er að hafa fyrirkomulag af þessu tagi þar sem kostnaðaraðhaldi er ábótavant og framlag á fjárlögum hefur lítið að segja. Því er hér lögð til hækkun á framlagi sem er nær raunverulegum kostnaði og verður fylgst grannt með því að kostnaði verði haldið innan þess ramma sem fjárlög setja.
    Liður 983, Ýmis fræðistörf. Kostnaður við samningu fransk-íslenskrar orðabókar hefur reynst meiri en áætlað var og í fjáraukalögum fyrir árið 1993 var framlag vegna orðabókarinnar hækkað. Hér er lögð til 4 millj. kr. hækkun fyrir næsta ár til samræmis við áætlaðan kostnað við samningu þessa rits.
    Vík ég þá að utanrrn. Liður 101, Aðalskrifstofa. Lagt er til að veitt verði 3,5 millj.

kr. fjárveiting vegna kostnaðar við þátttöku í ráðgjafanefnd innan vébanda EFTA sem skipuð hefur verið aðilum launþega og atvinnurekenda. Nefnd þessari er ætlað að vera EFTA-ráðinu til ráðgjafar og dreifa upplýsingum um starfsemi EFTA til hagsmunaaðila. Af hálfu hvers aðildarríkis EFTA eru tilnefndir fimm fulltrúar og hafa undanfarin ár setið fundi nefndarinnar starfsmenn Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Vinnuveitendasambands Íslands og Félags íslenskra iðnrekenda. Fjárveitingu vegna þessa hefur verið fundinn staður á fjárlagalið aðalskrifstofu utanrrn.
    Einnig er lögð til 4,9 millj. kr. hækkun til aðalskrifstofunnar þar sem búferlaflutningar manna í utanríkisþjónustunni munu verða meiri á næsta ári en gert hafði verið ráð fyrir við gerð fjárlagafrv. Á móti þeirri hækkun er lögð til samsvarandi lækkun fjárveitinga til viðskiptaskrifstofu utanrrn. og til tækja-og búnaðarkaupa.
    Liður 201, Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli. Til að koma til móts við hækkunartillögur á fjárlagaliðum utanrrn. leggur ráðuneytið til að framlag til sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli lækki um 5 millj. kr. Af þeirri fjárhæð færast 2,5 millj. kr. á lið tollgæslu og 2,5 millj. kr. á lið ríkislögreglu á Keflavíkurflugvelli. Að auki leggur meiri hluti fjárln. til 2,5 millj. kr. lækkun til tollgæslu þannig að framlag á liðnum lækkar alls um 7,5 millj. kr.
    Liður 308, Sendiráð Íslands í Washington og liður 320, Sendiráð, almennt. Fjárveiting til sendiráðs Íslands í Washington hækkar um 3,5 millj. kr. en í ráði er að selja núverandi skrifstofuhúsnæði sendiráðsins á næsta ári og flytja í leiguhúsnæði og er hér gert ráð fyrir húsaleigu af þeim sökum. Einnig er lögð til hækkun tækjabúnaðarfjárveitinga sendiráða almennt og verður hún þá 10,3 millj. kr.
    Liður 391, Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að taka þátt í stuðningi Norðurlandanna við Palestínumenn á hernumdum svæðum Ísraela sem kemur til í framhaldi af friðarsamningum milli Palestínu og Ísraels. Stuðningur Íslands nemur alls 1,3 millj. Bandaríkjadala og verður greiddur á næstu þremur árum. Á árinu 1994 er gert ráð fyrir að komi til greiðslu 0,5 millj. dala eða sem svarar um 36 milljónir íslenskra króna.
    Vík ég þá að landbrn. Liður 811, Búnaðarfélag Íslands. Breytingar á fjárlagalið Búnaðarfélags Íslands eru með tvennum hætti. Annars vegar er framlag til Búnaðarfélagsins lækkað um 3,8 millj. kr. og framlag til uppbóta á lífeyri hjá Búnaðarfélaginu hækkað um sömu fjárhæð. Samkomulag sem gert var um lífeyrisskuldbindingar héraðsbúnaðarsambanda fær ekki rúmast innan óbreyttra framlaga. Því er lögð til hækkun að fjárhæð 2,6 millj. kr. Þessar fjárhæðir, alls 6,4 millj. kr., svara til greiðslu á uppbótum á lífeyri fyrrum starfsmanna þessara samtaka sem eru aðilar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Fjárln. hefur lagt til hækkanir á framlögum til þessara aðila vegna lífeyrisskuldbindinga í fjárlögum og fjáraukalögum á undanförnum árum og telur rétt að sérmerkja þennan lið.
    Liður 891, Sérstakar greiðslur í landbúnaði. Þetta er nýr fjárlagaliður og á hann er fært eitt viðfangsefni sem er ætlað til niðurgreiðslu á loðdýrafóðri að fjárhæð 14 millj. kr.
    Er þá komið að dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Liðir 214--215 og, Héraðsdómar Norðurlands. Fallið er frá áformum um að sameina héraðsdóma Noðurlands eystra og vestra. Því hækkar framlag til Héraðsdóms Norðurlands vestra um 6,9 millj. kr. en framlag til Héraðsdóms Norðurlands eystra lækkar um 4 millj. kr.
    Sýslumanns- og lögregluembætti. Er þá komið að breytingartillögum á fjárveitingum til sýslumanns- og lögregluembætta. Svo sem kunnugt er var lagt til í fjárlagafrv. að sýslumannsembættunum yrði fækkað um níu með sameiningum svo og að löggæsla á höfuðborgarsvæðinu yrði sameinuð í eitt embætti. Ekki hefur náðst samstaða um þessar breytingar og því er lagt til að draga þessa tillögu til baka en mæta þeim kostnaðarauka sem af þessu leiddi með öðrum sparnaði í fjárveitingum til dómsmálaráðuneytis. Í því skyni er í fyrsta lagi lagt til að lækka rekstrarútgjöld fjögurra sýslumanns- og lögregluembætta um 24 millj. kr., þar af um 17 millj. kr. hjá embættunum í Kópavogi og Hafnarfirði. Í öðru lagi er lagt til að rekstrarútgjöld Umferðarráðs og tveggja annarra stofnana ráðuneytisins verði lækkuð um 12 millj. kr. Loks er stofnkostnaðarframlag til byggingar Hæstaréttarhúss lækkað um 20 millj. kr. og framlag til viðhalds bygginga stofnana dómsmálaráðuneytis um 17 millj. kr.
    Liður 490, Ýmis rekstrarkostnaður sýslumannsembætta. Í fjárlagafrv. 1994 er gert ráð fyrir rúmlega 80 millj. kr. til að standa straum af kostnaði sýslumannsembætta vegna framkvæmda á lögum um aukatekjur ríkissjóðs eða sama fjárhæð og er í fjárlögum 1993. Í ljós hefur komið að á yfirstandandi ári mun þessi kostnaður verða 20--25 millj. kr. lægri. Því er lagt til að fjárveitingin verði lækkuð um 20 millj. kr.
    Liðir 511--590, Fangelsi. Þar er lagt til að rekstrarframlag til fangelsa hækki um samtals 15,3 millj. kr. vegna þess að gerður hefur verið kjarasamningur við fangaverði um tilfærslur milli launaflokka. Loks hækka Sértekjur á Litla-Hrauni um 3 millj. kr. og Viðhald fangelsisbygginga lækkar um 3,5 millj. kr.
    Kirkjumál. Fjárveitingar á sviði kirkjumála samtals að fjárhæð 78,9 millj. kr. falla niður sem kemur til af því að gert er ráð fyrir að í frumvörpum til laga um prestsseturssjóð og kirkjumálasjóð, sem nú eru til umfjöllunar hér í þinginu, sé gert ráð fyrir að ákveðnir fjárlagaliðir falli brott af fjárlögum og verði framvegis kostaðir af kirkjuyfirvöldum. Þessir fjárlagaliðir eru taldir upp í töflu í greinargerð með fjárlagafrv. á bls. 324.
    Þá er lagt til að fjárveiting á fjárlagalið 06-701, Biskup Íslands, hækki um 3 millj. kr. og verði 42,2 millj. kr. Þessi fjárveiting er ætluð til að ráða prest sem sinni sjúklingum erlendis. Íslensk heilbrigðisyfirvöld gerðu á sínum tíma samning við sjúkrahús í Gautaborg um tiltekin læknisverk. Þar þurfa margir íslenskir sjúklingar að leita sér lækninga og dveljast oft langdvölum. Því þykir nauðsynlegt nú að ráða prest til starfa í Gautaborg. Gert er ráð fyrir að ef til þess komi að samningum við sjúkrahús í Gautaborg kunni að vera sagt upp og samið við sjúkrahús annars staðar, þá flytjist verkefni prestsembættisins til í samræmi við það.
    Að lokum hækkar framlag til prestakalla og prófastdæma um 30 millj. kr. vegna nýlegs úrskurðar kjaranefndar um laun presta.
    Þá er komið að félmrn. Liður 272, Byggingarsjóður verkamanna. Varðandi Byggingarsjóð verkamanna er einungis verið að leggja til hækkun til samræmis við áætlaða breytingu á lánskjaravísitölu milli áranna 1993 og 1994. Hækkun vegna þessa er 17 millj. kr.
    Liður 722, Sólheimar Í Grímsnesi. Framlag til vistheimilisins að Sólheimum Grímsnesi hækkar um 2 millj. kr.
    Liður 801, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Í ljósi endurskoðunar á tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir árið 1994 reiknast framlag ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 1.855 millj. kr. að meðtöldum 500 millj. kr. sem kemur í stað landsútsvars sem fyrirhugað er að leggja niður með niðurfellingu aðstöðugjalds. Hækkun frá áætlun í fjárlagafrv. er 11 millj. kr. og er hér lagt til að framlag til Jöfnunarsjóðsins hækki um þá fjárhæð.
    Liður 981, Vinnumál. Lagt er til að framlag til atvinnumála kvenna hækki um 5 millj. kr. þar sem framlagið er ekki lengur einskorðað við atvinnumál kvenna á landsbyggðinni.
    Heilbrigðisráðuneyti. Liður 204, Lífeyristryggingar. Áætlun lífeyristrygginga hækkar um 200 millj. kr. vegna þess að fallið hefur verið frá fjármagnstekna- eða eignatengingu lífeyrisgreiðslna. Þá hækka útgjöld um 25 millj. kr. vegna þess að ekki verður eins mikill sparnaður af tekjutengingu ekkjulífeyris og áætlað var. Á móti eru útgjöld lækkuð um sömu fjárhæð vegna betra eftirlits og upplýsinga í kjölfar breytinga á tölvukerfi Tryggingastofnunar ríkisins.
    Liður 206, Sjúkratryggingar. Útgjöld sjúkratrygginga lækka samtals um 310 millj. kr. Breytingar á einstökum þáttum sjúkratrygginga eru af ýmsum toga.
    Í fyrsta lagi verða útgjöld sjúkratrygginga verulega lægri á þessu ári en áætlað hafði verið í fjárlögum. Góð staða á sjúkratryggingum í ár rekur sig yfir til áætlana fyrir árið 1994 sem í fjárlagafrv. voru að mestu byggðar á útgjöldum ársins 1992. Lætur nærri að endurskoðuð áætlun fyrir sjúkratryggingar sé um 400 millj. kr. lægri en áætlun í fjárlagafrv. Helstu frávikin til lækkunar frá áætlun eru vegna hjálpartækja, útgjalda vegna 39. gr.

almannatryggingalaga, tannlæknakostnaðar, erlends sjúkrakostnaðar og ferðakostnaðar.
    Í annan stað er fallið frá innheimtu heilsukortagjalds sem átti að skila 400 millj. kr. tekjum til sjúkratrygginga.
    Í þriðja lagi er áformað að lækka lyfjaútgjöld um 100 millj. kr. umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi. Ráðgert er að ná þeim sparnaði með sértækum aðgerðum til lækkunar á kostnaði vegna magasárslyfja. Samanburður við nágrannaríkin á kostnaði og notkun lyfjanna bendir til að verulegum sparnaði megi ná á þessu sviði.
    Í fjórða lagi er áformað að lækka lækniskostnað sjúkratrygginga um 100 millj. kr. Þar af eru 70 millj. kr. vegna sérfræðinga og verður leitað leiða til að lækka taxta og semja um aukinn afslátt hjá þeim læknum sem mestar tekjur hafa hjá Tryggingastofnun ríkisins. Þá er áformað að lækka greiðslur Tryggingastofnunar til heilsugæslulækna um 30 millj. kr. Niðurstöður í nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar gefa til kynna að hér sé um eðlileg áform að ræða.
    Í fimmta lagi er áformað að draga úr útgjöldum vegna hjálpartækja um 50 millj. kr. með útboðum og hagstæðari innkaupum með magnafsláttum.
    Í sjötta lagi eru áform um að draga úr kostnaði vegna sjúkradagpeninga með hertu eftirliti og erlendum sjúkrakostnaði, samtals um 30 millj. kr. Með nýjum tækjakosti stóru sjúkrahúsanna færist stöðugt í vöxt að flóknar læknisaðgerðir, sem til þessa hafa verið framkvæmdar erlendis, séu gerðar hér á landi. Um er að ræða aðgerðir vegna nýrnasteina, valbrár, glasafrjóvgunar auk hjartaaðgerða.
    Loks er áformað að 30 millj. kr. af ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs aldraðra, sem í frv. var ætlað til fjárfestingar, verði notaðar til að mæta kostnaði af daggjaldastofnunum. Samtals er framangreindum áformum ætlað að lækka útgjöld sjúkratrygginga um 310 millj. kr. eins og áður sagði.
    Liður 330, Manneldisráð. Þetta er nýr fjárlagaliður og kemur í stað liðarins Neyslu- og manneldismál, manneldisráð sem færður var undir fjárlagaliðinn Heilbrigðismál, ýmis starfsemi. Sá liður fellur brott og fjárveitingin flyst á þennan nýja fjárlagalið.
    Liður 358, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Framlag til viðhalds er hækkað um 5 millj. kr. vegna Kristnesspítala. Í ársbyrjun 1993 tók fjórðungssjúkrahúsið yfir rekstur spítalans af Ríkisspítölum án þess að fjárveiting til viðhalds bygginga hans fylgdi með. Það er hér með leiðrétt.
    Liður 370, Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi. Í greinargerð með fjárlagafrv. fyrir árið 1994 segir varðandi sjúkrahús með fjölþætta starfsemi: ,,Hér eru taldar 67 millj. kr. vegna bráðavakta á sjúkrahúsum í Reykjavík og 74 millj. kr. sem fjárlaganefnd mun ráðstafa í samræmi við ákvæði fjárlaga yfirstandandi árs.``
    Að ósk heilbrrh. er textinn leiðréttur og hljómar á þá leið: ,,Hér er talin 141 millj. kr. til að mæta kostnaði við bráðavaktir á sjúkrahúsum í Reykjavík, kostnaðarauka samfara kjarasamningum og til að stuðla að frekari verkaskiptingu sjúkrahúsanna í Reykjavík en heilbr.- og trmrh. mun ákveða skiptingu þessa fjár í samráði við fjárln``.
    Liður 371, Ríkisspítalar. Tillögur til breytinga eru af þrennum toga. Í fyrsta lagi er framlag til Ríkisspítala hækkað um 15 millj. kr. vegna reksturs Gunnarsholts. Áformað er að á fyrstu mánuðum næsta árs verði Gunnarsholti breytt í sjálfseignarstofnun sem verður vistheimili og vinnustaður fyrir heimilislausa. Stofnunin verður þannig jöfnum höndum félagslegt úrræði og heilbrigðisstofnun og munu félagsmála- og heilbrigðisyfirvöld koma að stjórnun hennar. Í öðru lagi er framlag til viðhalds Ríkisspítala lækkað um 5 millj. kr. og fært til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri vegna Kristness eins og nefnt var hér að framan. Loks er framlag til stofnkostnaðar á Landspítalalóð lækkað um 30 millj. kr. Þá vil ég geta þess að áformaður 20 millj. kr. sparnaður í áfengisskor Ríkisspítalanna verði á Landspítala en ekki í afeitrun og meðferðinni sem fer fram á Vífilsstöðum.
    Liður 385, Framkvæmdasjóður aldraðra. Um Framkvæmdasjóð aldraðra var að hluta fjallað að ofan en lagt er til að fjárveiting til rekstrarverkefna verði hækkuð um 30 millj. kr. en á móti lækki stofnkostnaðarframlög um sömu fjárhæð. Áformað er að þessar 30 millj. kr. renni til daggjaldastofnana undir sjúkratryggingum eins og þegar hefur komið

fram.
    Liður 399, Heilbrigðismál, ýmis starfsemi. Þá er gerð tillaga um 5 millj. kr. framlag til þróun myndsendisbúnaðar vegna röntgenmynda. Kemur það í stað framlags til erfðafræðirannsókna sem nú er lokið.
    Liður 420, Samtök áhugamanna um áfengisvandamálið. Meiri hluti fjárln. leggur til að framlag til rekstrar sjúkrastofnana SÁA verði hækkað um 13 millj. kr.
    Liður 421, Víðines. Framlag til Víðiness er lækkað um 15 millj. kr. vegna samnings sem gerður hefur verið milli heilbrrn. og Bláa bandsins um reksturinn.
    Liður 510, Heilsuverndarstöð í Reykjavík. Áformað er að lækka framlög til Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík um 15 millj. kr. Er það byggt á því að heilsugæslustöðvum í Reykjavík hefur fjölgað og þjónusta aukist sem gerir mögulegt að færa þjónustu frá Heilsuverndarstöð Reykjavíkur til heilsugæslustöðva. Þar er um að ræða ungbarnaeftirlit og mæðravernd, enda er gert ráð fyrir að sú þjónusta sé hverfabundin.
    Kemur þá að fjmrn. Liður 481, Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum. Lækkun útgjalda samkvæmt heimildarákvæðum er tvíþætt. Annars vegar er framlag lækkað um 55 millj. kr. Hins vegar er um að ræða sértekjur að fjárhæð 50 millj. kr. Meiri hluti fjárln. gerir tillögu um nýja 6. greinar heimild sem heimilar fjmrh. að endurskoða reglur um aksturskostnað ríkisins, auglýsingar og greiðslur til starfsmanna fyrir yfirvinnu, ferðakostnað og nefndar- og stjórnarlaun. Þetta verði gert með því að fjmrh. er heimilt að lækka laun og önnur gjöld stofnana um allt að 0,5%, þó að hámarki 50 millj. kr. samtals. Við það er miðað að þær fjárheimildir sem teknar eru af stofnunum verði færðar sem sértekjur á fjárlagalið.
    Við afgreiðslu fjárlaga 1993 vék þáverandi formaður fjárln. að nauðsyn þess að lækka kostnað við akstur opinberra starfsmanna og jafnframt rekstur og viðhald bifreiða. Beindi hann þeim tilmælum til fjmrn. að taka á þessu máli við framkvæmd fjárlaga 1993. Í byrjun þessa árs fól ríkisstjórnin fjmrn., í samráði við ráðuneytisstjóra í Stjórnarráðinu og bílanefnd ríkisins, að gera tillögur um lækkun bifreiðakostnaðar ríkisins í því skyni að ná fram heildarlækkun um 5--10% miðað við árið 1991. Árangur þessa starfs hefur ekki verið sá sem ætlast var til enda skort heimild til að lækka fjárveitingar einstakra stofnana í þessu skyni. Í ljósi þessa leggur meiri hluti fjárln. til framangreinda tillögu um heimild til fjmrh. Gert er ráð fyrir að framkvæmd heimildarinnar verði með þeim hætti að þær fjárheimildir sem teknar eru af einstökum stofnunum flytjast yfir á þennan fjárlagalið þar til að markmiði heimildarinnar er náð. Því eru sértekjur hækkaðar um 50 millj. kr. undir þessum lið.
    Liður 801, Ýmis lán ríkissjóðs, vextir. Við gerð fjárlagafrv. 1994 var tekin sú ákvörðun að áætla vaxtastig skammtímalána ríkissjóðs að meðaltali 1% lægra en vextir á ríkisvíxlum voru í september sl. Þetta var gert í ljósi þess stöðugleika sem ríkir í efnahagslífinu og þeirrar staðreyndar að vextir voru á mikilli niðurleið. Samtals voru vaxtagjöldin lækkuð um 260 millj. kr. frá áætlun og ákveðin 11,7 milljarðar króna í fjárlagafrv. Í ljósi núverandi aðstæðna á lánamarkaði er talið óhætt að lækka vaxtagreiðslur ríkissjóðs enn frekar eða um 250 millj. kr. og er það lagt til.
    Liður 981, Ýmsar fasteignir ríkissjóðs. Framlag til framkvæmda við Listaskóla er lækkað um 5 millj. kr. og verður 10 millj.
    Liður 989, Launa- og verðlagsmál. Lagt er til að launabætur hækki um 5 millj. kr. þar sem fjárhæðin sem er á þeim lið í fjárlagafrv. er vanáætluð.
    Liður 999, Ýmislegt. Styrkir til útgáfumála samkvæmt tillögum stjórnskipaðrar nefndar hækkar um 18 millj. kr. og verður 98 millj. kr
    Er þá komið að samgönguráðuneyti. Liður 190, Ýmis verkefni. Tekinn er inn fjárveiting að fjárhæð 10 millj. kr. til að koma á fót sjálfvirku tilkynningarkerfi fyrir skip. Samkvæmt stofnkostnaðaráætlun er stofnkostnaður við landfjarskiptakerfið 125,7 millj. kr. sem greiðist á næstu fjórum árum. Þar af er lagt til að 40 millj. kr. verði greiddar með framlögum á fjárlögum næstu fjögurra ára eða 10 millj. kr. á ári.
    Hlutverk sjálfvirka tilkynningarkerfisins er að auka öryggi sjómanna með því að

veita upplýsingar um ferðir allra skipa sem búin eru viðeigandi tækjum. Kerfið gegnir þessu hlutverki með sjálfvirkum boðsendingum milli skips og lands sem flytja gögn um auðkenni skips og staðsetningu, auk upplýsinga um ástand öryggiskerfa um borð.
    Liður 211, Vegagerð ríkisins. Hér er um að ræða leiðréttingu á liðnum Þéttbýlisvegir frá 2. umr.
    Iðnrn. Liður 399, Ýmis orkumál. Gerð er tillaga um 50 millj. kr. hækkun á niðurgreiðslum á rafhitun og nemur hún þá 397 millj. kr. Ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir jöfnun húshitunarkostnaðar á svonefndum köldum svæðum og er tillagan gerð til að ná frekari áföngum að þeim markmiðum.
    Umhverfisráðuneyti. Liður 310, Landmælingar Íslands. Framlag til Landmælinga Íslands hækkar um 6 millj. kr. vegna verkefna við kortagerð. Kort þessi eru unnin í samvinnu við erlenda aðila.
    Liður 401, Náttúrufræðistofnun Íslands. Hér er einungis verið að leggja til breytta framsetningu á fjárlagalið í samræmi við lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Er þetta gert að beiðni umhvrn. en hefur ekki áhrif á framlag til Náttúrufræðistofnunar.
    Áformað er að hækka tryggingagjald atvinnurekenda um 0,35% um næstu áramót. Í fjárlagafrv. var kostnaður ríkisins vegna gjaldsins ekki færður á gjaldahlið. Áætlað er að þessi breyting hækki útgjöld í A-hluta um 110 millj. kr.
    Við verðlagsuppfærslu fjárlagafrv. 1994 var gjaldategundin Önnur gjöld hækkuð um 3% í samræmi við spá Þjóðhagsstofnunar um hækkun framfærsluvísitölu milli áranna 1993 og 1994. Í endurskoðaðri áætlun Þjóðhagsstofnunar um efnahagshorfur á árinu 1994 er hækkun framfærsluvísitölu talin verða einungis 2,5% milli ára. Því er lagt til að þessi gjaldategund verði lækkuð um 0,5%. Þessi breyting tekur þó ekki til liða sem eru tengdir gengi en framlag til þeirra taka verðlagsuppfærslu á öðrum forsendum. Lækkunin er talin hafa í för með sér um 70 millj. kr. lægri rekstrarútgjöld.
    Áætlanir fyrirtækja, stofnana og sjóða í B-hluta fjárlaga hafa verið endurmetnar frá því að fjárlagafrv. var lagt fram í október. Gerð er tillaga um að einungis 4 af 52 áætlunum taki breytingum og er það til marks um að aukinn stöðugleiki í verðlags- og launamálum stuðlar að traustari fjárlagagerð. Engar gjaldskrárhækkanir eru áformaðar umfram það sem fram kemur í fjárlagafrv. Í nefndaráliti meiri hluta fjárln. er að finna skýringar á þeim breytingum sem gerðar eru og skal það ekki endurtekið hér.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir tillögum meiri hluta fjárln. Það má öllum ljóst vera að ábyrgð á meginstefnumiðum í frv. hvílir að sjálfsögðu á stjórnarþingmönnum. Um leið og ég ítreka þakkir til samnefndarmanna minna vil ég ljúka máli mínu með því að leggja til að tillögur meiri hluta fjárln. verði samþykktar og fjárlagafrv. fyrir árið 1994 verði samþykkt sem lög frá Alþingi með þessum breytingum.
    Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.