Ferill 11. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 11 . mál.


110. Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um eftirlit með opinberum fjársöfnunum.

    Hvernig er háttað eftirliti með því að þeir sem gangast fyrir opinberum fjársöfnunum hafi til þess tilskilin leyfi skv. 4. gr. laga nr. 5/1977, um opinberar fjársafnanir, eða hafi tilkynnt slíka fjársöfnun viðkomandi lögreglustjóra eins og ákvæði er um í 3. gr. sömu laga?
    Það er hlutverk viðkomandi lögreglustjóra þar sem fjársöfnun fer fram að fylgjast með því að reglur um hana séu haldnar. Viðkomandi lögreglustjóri, þar sem aðili sem að fjársöfnun stendur á lögheimili, skal fylgjast með því að skil séu gerð á þann hátt sem lögin mæla fyrir um. Því tilkynnir ráðuneytið viðkomandi lögreglustjóra um leyfi sem það veitir til safnana skv. 4. gr. Ráðuneytið hefur seinast með bréfi, dags. 10. júlí 1991, sem fylgir hér með, ítrekað við alla lögreglustjóra skyldur þeirra í þessum efnum.

    Hversu margir hafa sótt um leyfi til þess að gangast fyrir opinberri fjársöfnun eða tilkynnt um slíkar safnanir til lögregluyfirvalda árin 1989 til og með 1992 og það sem af er árinu 1993, skipt niður á þessi ár? Hverjir eru þessir aðilar og hver var yfirlýstur tilgangur fjársöfnunar hverju sinni, skipt niður á sömu ár?
    Í meðfylgjandi skrá er að finna umbeðnar upplýsingar um þá sem fengið hafa leyfi ráðuneytisins skv. 4. gr. laganna, þ.e. til opinberrar fjársöfnunar á götum eða í húsum.
    Að því er varðar tilkynningar til lögreglustjóra um opinbera fjársöfnun skv. 3. gr. óskaði ráðuneytið eftir að lögreglustjórar létu ráðuneytinu í té upplýsingar um hve margar fjársafnanir hafi verið tilkynntar til þeirra og sömuleiðis hve margar tilkynningar hafa borist um reikningsskil. Svör hafa nú borist frá 17 lögreglustjórum og samkvæmt þeim svörum hafa borist tilkynningar um fjársafnanir eða reikningsskil vegna þeirra til lögreglustjórans í Reykjavík og í einu tilviki til sýslumannsins (lögreglustjórans) í Keflavík. Skrá um tilkynningar til lögreglustjórans í Reykjavík fylgir hér með.

    Hverjir þessara aðila hafa skv. 7. gr. laganna birt opinberlega reikningsyfirlit yfir viðkomandi fjársöfnun? Hvar og hvenær voru þau yfirlit birt?
    Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna skal viðkomandi lögreglustjóra tilkynnt um hvar og hvenær birting skuli fara fram. Samkvæmt þeim svörum sem ráðuneytinu hafa borist frá lögreglustjórum hafa slíkar tilkynningar aðeins borist lögreglustjóranum í Reykjavík og fylgir yfirlit yfir þær tilkynningar hér með.

    Með hvaða hætti er fylgst með því að söfnunarfé sé notað í þeim tilgangi sem upphaflega var ætlað, sbr. síðari málsgrein 5. gr. laganna um opinberar fjársafnanir?

    Samkvæmt 6. gr. laganna skal reikningshald endurskoðað af löggiltum endurskoðanda eða þeim er dómsmálaráðuneytið kann að útnefna til slíks.
    Í 4. mgr. 7. gr. laganna segir svo: „Nú liggja ekki fyrir gögn um notkun söfnunarfjár, þegar reikningi er lokað, og skal þá endurskoðandi síðar gefa skýrslu þar um.“ Af orðalagi þessarar málsgreinar má ráða að endurskoðanda beri að gefa skýrslu um notkun söfnunarfjárins sem væntanlega á þá að fylgja reikningsyfirliti til viðkomandi lögreglustjóra. Ekki hafa verið gerðar aðrar ráðstafanir til að fylgjast með notkun söfnunarfjár.

Fylgiskjal.



Bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til allra lögreglustjóra


um eftirlit með opinberum fjársöfnunum.


(10. júlí 1991.)



    Hér með vill ráðuneytið ítreka eftirfarandi ákvæði laga um opinberar fjársafnanir, nr. 5 24. mars 1977:
    Tilkynna skal viðkomandi lögreglustjóra opinbera fjársöfnun áður en hún hefst, 3. gr.
    Opinber fjársöfnun á götum eða í húsum er aðeins heimil að fengnu leyfi dómsmálaráðuneytisins, 4. gr.
    Senda skal viðkomandi lögreglustjóra reikningsyfirlit söfnunar og tilkynningu um hvar og hvenær reikningsyfirlit er birt en birta skal það a.m.k. einu sinni í dagblaði, vikublaði eða á annan hátt, 7. gr.
    Jafnframt leggur ráðuneytið hér með fyrir að haldin skuli við hvert embætti skrá yfir öll leyfi sem þar eru veitt til fjársöfnunar og skrá þar einnig reikningsyfirlit söfnunarinnar og birtingu þess.
    Ganga skal ríkt eftir því að reikningsyfirliti sé skilað.
    Vakin er athygli á því að brot á lögunum varða sektum.

F. h. r.


Jón Thors.






(Repró í Steindórsprent 10 síður.)



Tilkynningar til lögreglustjórans í Reykjavík


um opinbera birtingu á reikningsyfirliti söfnunar.



Með bréfi dags. 29. apríl 1991 Landssamtök hjartasjúklinga. Reikningsuppgjör vegna merkjasölu 31. maí til 2. júní 1990.
Með bréfi dags. 11. maí 1992 Hjálparstofnun kirkjunnar. Ársreikningur 1991. Í honum er yfirlit yfir söfnunina „Brauð handa hungruðum heimi“ í desember 1991 og janúar 1992.
Birt í fréttablaði stofnunarinnar „Margt smátt“ — auk þess sent fjölmiðlum.
Með bréfi dags. 30. júní 1992. Póllandsferð Ingþórs Sigurbjörnssonar haustið 1990. Endurskoðað reikningsyfirlit, birt í Dagbók Morgunblaðsins 24. júní 1992.
Með bréfi dags. 18. nóv. 1992. Hjálparstofnun kirkjunnar og Rauði krossinn. Ársreikningur 1992. Í honum er uppgjör á söfnuninni sem fram fór í september 1992.
Með bréfi dags. 14. nóv. 1993. Stuðningshópur Sophiu Hansen. Reikningsuppgjör vegna söfnunar 2. nóvember 1992. Lagt fram á blaðamannafundi 13. október 1993. M.a. birt í ríkissjónvarpi og DV 13. október 1993.