Ferill 122. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 122 . mál.


127. Beiðni um skýrslu



frá dómsmálaráðherra um árangur af einkavæðingu bifreiðaeftirlits.

Frá Jóhanni Ársælssyni, Guðrúnu Helgadóttur, Kristni H. Gunnarssyni,


Margréti Frímannsdóttur, Ólafi Ragnari Grímssyni, Ragnari Arnalds,


Steingrími J. Sigfússyni, Svavari Gestssyni og Þuríði Backman.



    Með tilvísun til 46. gr. þingskapa er óskað eftir að dómsmálaráðherra gefi Alþingi skýrslu um árangur af einkavæðingu bifreiðaeftirlits í landinu. Þess er óskað að í skýrslunni verði gerður samanburður á kostnaði bifreiðaeigenda af þeirri þjónustu sem Bifreiðaeftirlit ríkisins veitti og þeirri þjónustu sem Bifreiðaskoðun Íslands hf. veitir nú og áætlar að veita í framtíðinni.
    Gerð verði skilmerkileg grein fyrir markmiðunum sem sett voru um þessa einkavæðingu og þeim árangri sem náðst hefur.
    Einnig er óskað eftir að eftirfarandi upplýsingar komi fram í skýrslunni:
    Hver var heildarkostnaður af rekstri Bifreiðaeftirlits ríkisins síðasta heila árið sem það var rekið og hverjar voru heildartekjur af þeim rekstri?
    Hver var heildarkostnaður af rekstri Bifreiðaskoðunar Íslands hf. á síðasta ári og hverjar voru heildartekjur af þeim rekstri?
    Hvar veitir Bifreiðaskoðun Íslands hf. þjónustu sína og á hvaða stöðum áætlar Bifreiðaskoðun Íslands hf. að veita þjónustu í framtíðinni?
    Hvar veitti Bifreiðaeftirlit ríkisins þjónustu sína?
    Hvar hafa akstursvegalengdir bifreiðaeigenda til skoðunarstöðva lengst og hve mikið? Má ætla að vegalengdir aukist enn meir og þá hve mikið? Hver má ætla að kostnaður bifreiðaeigenda verði af þessum sökum til viðbótar við þann kostnað sem áður var til staðar hjá Bifreiðaeftirliti ríkisins?
    Hve margir starfsmenn vinna hjá Bifreiðaskoðun Íslands hf. og hverjar eru heildarlaunagreiðslur til þeirra á ári? Hver eru heildarlaun og fríðindi helstu yfirmanna fyrirtækisins?
    Hve margir starfsmenn unnu hjá Bifreiðaeftirliti ríkisins og hverjar voru heildarlaunagreiðslur til þeirra á ári? Hverjar voru heildarlaunagreiðslur og fríðindi helstu yfirmanna?
    Hvert var endurstofnverð eigna Bifreiðaeftirlits ríkisins þegar stofnunin var lögð niður?
    Hvert er endurstofnverð eigna Bifreiðaskoðunar Íslands hf.? Hve mikið var hlutafé við stofnun félagsins? Hve mikill arður hefur verið greiddur til hluthafa?
    Hve mörg slys í umferðinni eru talin eiga rætur að rekja til ónógs eftirlits með bifreiðum á síðustu átta árum? Óskað er eftir að svarið verði sundurliðað eftir árum.