Ferill 158. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 158 . mál.


176. Frumvarp til laga



um sérstaka fjáröflun til varna gegn ofanflóðum og um breytingu á kostnaðarhlut sveitarfélaga.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson, Þuríður Backman,


Steingrímur J. Sigfússon.



I. KAFLI


Lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 28/1985.


    

1. gr.


    Á eftir 2. tölul. 10. gr. laganna kemur nýr töluliður, 3. tölul., svohljóðandi: Sérstakt framlag frá Viðlagatryggingu Íslands skv. 4. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 55/1992.
    

2. gr.


    Eftirtaldar breytingar verða á 1. mgr. 11. gr. laganna:
    Í stað „ 4 / 5 “ í 2. og 3. tölul. kemur: 9 / 10 .
    Á eftir 3. tölul. koma þrír nýir töluliðir er orðast svo:
    4.    Greiða má allt að 9 / 10 hlutum af kostnaði við viðhald á varnarvirkjum.
    5.    Greiða má kostnað við rannsóknir sem miða að því að bæta hönnun og auka nýtingu varnarvirkja.
    6.    Greiða má kostnað við sérstök verkefni við snjóflóðaeftirlit.

II. KAFLI


Lög um Viðlagatryggingu Íslands, nr. 55/1992.


3. gr.


    Við 1. mgr. 11. gr. laganna bætist nýr töluliður er orðast svo: Árin 1994–1998 skal innheimt árlega sérstakt iðgjald af munum tryggðum skv. 1.–3. tölul. Skal það vera 10% álag á iðgjöldin og renna í ofanflóðasjóð. Um innheimtu sérstaks iðgjalds fer skv. 3.–5. mgr.

III. KAFLI

Gildistaka.

4. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1994.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Ráðherra er heimilt, að fenginni tillögu Almannavarna ríkisins, að láta 2. gr. laga þessara gilda um framkvæmdir sem staðfestingu hlutu fyrir gildistöku laga þessara.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á síðasta þingi. Það varð ekki útrætt en hlaut almennt góðar undirtektir hjá umsagnaraðilum. 2. gr. frumvarpsins hefur verið breytt til samræmis við ábendingar frá Veðurstofu Íslands.
    Tilgangur frumvarpsins er þríþættur. Í fyrsta lagi er lagt til að aukinn verði hlutur svonefnds ofanflóðasjóðs í kostnaði við varnarvirki gegn snjóflóðum og skriðuföllum úr 80% í 90%. Í öðru lagi er opnað fyrir þann möguleika að sjóðurinn taki þátt í kostnaði við viðhald varnarvirkja og í þriðja lagi er gerð tillaga um að styrkja fjárhagslega stöðu sjóðsins með því að innheimta næstu fimm ár sérstakt iðgjald af munum sem tryggðir eru skv. 5. og 6. gr. laga um Viðlagatryggingu Íslands.

Sögulegt yfirlit.
    Lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum voru sett árið 1985. Með þeim var stigið stórt skref til að vinna að því að verja byggð gegn ofanföllum, en svo nefnast snjóflóð og skriðuföll einu nafni. Sveitarfélögum var gert að hafa frumkvæði að varnargerð, Almannavörnum ríkisins var falið að annast hættumat, ákveðin var kostnaðarskipting milli ríkis og sveitarfélaga og stofnaður var sérstakur sjóður, ofanflóðasjóður, til þess að standa undir hlut ríkisins og honum markaðir tekjustofnar.
    Sjóðurinn greiðir allan kostnað við gerð hættumats og allt að 4 / 5 hlutum af kostnaði við undirbúning og framkvæmdir við varnarvirki og sama hlutfall af kostnaði við kaup og uppsetningu á tækjum og búnaði til rannsókna á snjóalögum með tilliti til snjóflóðahættu. Sveitarfélögin greiða það sem eftir stendur eða 20% kostnaðar.
    Tekjustofnar ofanflóðasjóðs eru 5% af árlegum heildariðgjöldum Viðlagatryggingar Íslands, framlög úr ríkissjóði og aðrar tekjur, svo sem vaxtatekjur.

Komið að framkvæmdum.
    Frá því að lögin voru sett hefur markvisst verið unnið að því að skapa forsendur fyrir vörnum gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Gerð hafa verið hæðarlínukort fyrir þá þéttbýlisstaði sem gætu hugsanlega orðið fyrir ofanföllum. Enn fremur var gert reiknilíkan til að gera hættumat og koma því í tölvuvætt form og úttekt hefur farið fram á snjóflóðasögu allra staðanna.
    Á grundvelli framangreindrar vinnu hefur verið unnið að hættumati fyrir snjóflóðabyggðirnar, en það er forsenda þess að hægt sé að hefja gerð varnarvirkja.
    Verkinu hefur miðað vel áfram og nú liggur fyrir hættumat á átta þéttbýliskjörnum í sjö sveitarfélögum, en talið er að meta þurfi hættu í fimm sveitarfélögum til viðbótar.
    Samþykktar hafa verið tillögur um varnarvirki á tveimur stöðum, á Flateyri þar sem framkvæmdir eru þegar hafnar og um fyrsta áfanga að vörnum á Seyðisfirði, og nú er unnið að tillögugerð á fleiri stöðum, svo sem Ísafirði, Neskaupstað og Siglufirði. Segja má að málið sé komið af undirbúningsstigi og framkvæmdatímabilið sé hafið og muni standa yfir næstu árin.

Kostnaður við framkvæmdir og fjárhagur sjóðsins.
    Allt bendir til þess að kostnaður verði allmikill við varnirnar og mun meiri en núverandi tekjur sjóðsins standa undir og jafnframt að mörgum sveitarfélaganna muni reynast örðugt og jafnvel ókleift að standa undir hlut sínum af kostnaði.
    Fyrir liggur að kostnaður á Flateyri er rúmar 54 millj. kr., kostnaður við fyrsta áfanga á Seyðisfirði er áætlaður rúmar 41 millj. kr., en það eru aðeins um 20% af varnaþörf staðarins og á Ísafirði er nú talið að nauðsynlegt varnarvirki í Hnífsdal kosti 60–70 millj. kr. Þá er fyrirsjáanlegt að kostnaður verður mikill í Neskaupstað og á Súðavík.
    Heildarfjárþörf vegna framkvæmda á öllum stöðunum liggur ekki fyrir en ljóst er að um háar fjárhæðir er að ræða og nauðsynlegt að afla aukinna tekna til þess að standa undir framkvæmdum. Er lagt til að aflað verði tekna með sérstöku iðgjaldi skv. 3. gr. frumvarpsins næstu fimm ár, en að því tímabili loknu munu væntanlega liggja fyrir nokkuð endanlegar tölur um heildarkostnað og þá verður unnt að endurmeta fjárþörf og tekjustofna til ofanflóðasjóðs.

Ofanflóðasjóður.
    Um síðustu áramót voru um 111 millj. kr. í ofanflóðasjóði og árlegar tekjur hans frá Viðlagatryggingu Íslands nema um 23–24 millj. kr., auk framlags úr ríkissjóði og vaxtatekna af eignum. Þær framkvæmdir, sem þegar hafa verið samþykktar á Flateyri og Seyðisfirði, munu fara langt með að tæma sjóðinn og er því þörf á frekari tekjum ef framkvæmdir eiga að verða samfelldar. Hið sérstaka iðgjald, sem lagt er til að tekið verði upp, mun samkvæmt áætlun skila um 45 millj. kr. árlega eða samtals um 220 millj. kr. á næstu fimm árum. Að mati flutningsmanna ætti það að nægja til þess að standa undir tillögum um aukinn kostnaðarhlut ofanflóðasjóðs og auk þess styrkja stöðu sjóðsins til að standa undir 80% kostnaðarins sem nú er hlutur hans samkvæmt lögum. Engu að síður má ætla að ríkissjóður þurfi að auka framlög sín á þessu árabili, en hann hefur lagt fram um 6 millj. kr. árlega.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Til þess að styrkja fjárhagslega stöðu ofanflóðasjóðs er lagt til að í sjóðinn renni næstu fimm árin sérstakt iðgjald frá Viðlagatryggingu Íslands.

Um 2. gr.


    Samkvæmt tillögugreininni hækkar kostnaðarhlutur ofanflóðasjóðs úr 80 í 90% af kostnaði við undirbúning og framkvæmdir varnarvirkja og enn fremur kostnaði við kaup og uppsetningu á tækjum og búnaði til rannsókna.
    Lagt er til að bætt verði í lögin ákvæði sem heimilar ofanflóðasjóði að greiða kostnað vegna viðhalds varnarvirkja allt að 90%.
    Nauðsynlegt er að bæta í lögin ákvæði sem heimilar ofanflóðasjóði að kosta rannsóknir á gerð varnarvirkja og hugsanlegri virkni þeirra við mismunandi aðstæður. Slíkar rannsóknir gætu sparað ofanflóðasjóði og sveitarfélögum landsins töluverðar fjárhæðir.
    Þá er lagt til að heimilt verði að kosta sérstök verkefni við snjóflóðaeftirlit. Meðan nauðsynleg varnarvirki eru ekki fyrir hendi getur reynst nauðsynlegt að efla snjóaathuganir þar sem fylgst verður með snjóalögum og leitast við að spá fyrir um snjóflóð og þannig reynt eftir mætti að koma í veg fyrir slys af þeirra völdum.

Um 3. gr.


    Lagt er til að lagt verði á og innheimt verði sérstakt iðgjald næstu fimm árin, 1994–1998, er verði 10% af iðgjaldi muna, tryggðra skv. 1.–3. tölul. 11. gr. laganna, og renni það í ofanflóðasjóð. Þeir munir, sem um ræðir, eru eignir sem skylt er að vátryggja skv. 1. og 2. mgr. 5. gr. laganna og munir sem vátryggðir eru skv. 6. gr. Enn fremur er lagt til að sjóðnum verði heimilt að greiða hlut í viðhaldi varnarvirkja allt að 90%.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Í ákvæðinu er lagt til að félagsmálaráðherra geti, að fenginni tillögu Almannavarna ríkisins, beitt 2. gr. frumvarpsins, þ.e. hækkað kostnaðarhlut ofanflóðasjóðs úr 80% í 90% af þeim framkvæmdum sem staðfestingu hafa hlotið fyrir gildistöku laga þessara. Ætlunin er að ákvæðinu verði einkum beitt í kostnaðarsömum verkefnum, svo sem á Flateyri og Seyðisfirði.



Fylgiskjal I.


Almannavarnir ríkisins:

Minnisblað.


(9. desember 1992.)


    Hættumati vegna snjóflóða er lokið á eftirtöldum stöðum: Patreksfirði, Flateyri, Ísafirði (og Hnífsdal), Súðavík, Siglufirði, Seyðisfirði og Neskaupstað. Álitið er að rétt sé að hættumeta einnig Ólafsvík, Tálknafjörð, Bíldudal, Súgandafjörð og Ólafsfjörð.
    Gert er ráð fyrir að ofangreindir staðir verði endurmetnir með hliðsjón af nýju reiknilíkani sem verið er að ljúka við og byggir á betri eðlisfræðilegum grunni en það líkan sem notað hefur verið. Verða þeir staðir, sem enn eru ómetnir, látnir bíða eftir því.
    Búið er að byggja fyrsta hluta varnarvirkja á Flateyri og stefnt að því að halda áfram með verkið og ljúka því á næsta sumri. Á Ísafirði er verið að vinna að tillögum um varnarleiðir, aðallega vegna Hnífdals.
    Búið er að samþykkja tillögur bæjarstjórnar Seyðisfjarðar um fyrsta áfanga að vörnum þar og er verið að vinna að málinu af hálfu bæjarstjórnar.
    Önnur sveitarfélög hafa ekki lagt fram tillögur að vörnum, en samkvæmt lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum fara þau með frumkvæði í þeim málum.

Guðjón Petersen.





Fylgiskjal II.

Ofanflóðasjóður.



Rekstraryfirlit 1992:

1992

1991

1990



Tekjur:
Framlag frá Viðlagatryggingu     
23.609.000
20.768.000 19.063.000
Framlag ríkissjóðs     
6.400.000
6.380.000 3.351.000
Vaxtatekjur     
8.185.773
8.518.312 4.616.334
Samtals     
38.194.773
35.666.312 27.030.334

Gjöld:
Úthlutun bóta     
12.386.305
503.000 6.000.000
Rannsóknir     
6.992.857
4.585.702 5.889.507
Reiknuð gjaldfærsla vegna verðlagsbreytinga     
1.448.314
4.742.274 3.349.918
Samtals     
20.827.476
9.830.976 15.239.425

Tekjuafgangur     
17.367.297
25.835.336 11.790.909



Efnahagsyfirlit 31. desember 1992:

1992

1991

1990



Eignir:
Bankainnstæða     
5.355.378
6.009.612 4.870.858
Ríkisvíxlar     
0
35.955.126 39.778.075
Landsbankavíxlar     
82.962.205
30.445.342 0
Inneign hjá Viðlagatryggingu     
23.609.000
20.768.000 19.063.000
Eignir samtals     
111.926.583
93.178.080 63.711.933

Skuldir og eigið fé:
Skuldir:
Fyrir fram innborgaðir vextir     
507.754
574.863 1.686.326

Eigið fé:
Frá fyrra ári     
92.603.218
62.025.607 46.884.780
Tekjuafgangur ársins     
17.367.297
25.835.336 11.790.909
Reiknuð gjöld vegna verðbreytinga     
1.448.314
4.742.274 3.349.918
Samtals     
111.418.829
92.603.217 62.025.607

Skuldir og eigið fé samtals     
111.926.583
93.178.080 63.711.933



Fylgiskjal III.

Lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 28/1985.


1. gr.


    Vinna skal að vörnum gegn tjóni og slysum af völdum snjóflóða og skriðufalla svo sem fyrir er mælt í lögum þessum.
     Samheitið ofanflóð er hér eftir notað um snjóflóð og skriðuföll.

2. gr.


    Meta skal hættu á ofanflóðum í þeim sveitarfélögum þar sem ofanflóð hafa fallið á byggð eða nærri henni eða hætta er talin á slíku.
     Hættumat skal ná til byggðra svæða, svo og annarra svæða sem skipuleggja skal.
     Taka skal fullt tillit til hættumats við skipulagningu nýrra svæða og skal matið lagt fram sem fylgiskjal með skipulagstillögu.

3. gr.


    Almannavarnir ríkisins skulu annast hættumat, setja reglur um forsendur og aðferðir við gerð þess, um flokkun hættusvæða og nýtingu þeirra, svo og gerð varnarvirkja.
     Reglur þessar skulu staðfestar af félagsmálaráðherra.
     Almannavarnir ríkisins skulu einnig annast gerð neyðaráætlana og sjá um leiðbeiningar og almenningsfræðslu um hættu af ofanflóðum.

4. gr.


    Sérstök nefnd, ofanflóðanefnd, skal vera Almannavörnum ríkisins til ráðuneytis um þessi mál.
     Almannavarnir ríkisins, Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, Skipulagsstjórn ríkisins, Veðurstofa Íslands og Viðlagatrygging Íslands tilnefna sinn manninn hver í nefndina. Fulltrúi Almannavarna ríkisins skal vera formaður.
     Verkefni ofanflóðanefndar er að fjalla um tillögur sem berast og gera endanlegar tillögur til Almannavarna ríkisins um allt sem varðar varnir gegn ofanflóðum.

5. gr.


    Veðurstofa Íslands skal annast öflun gagna um snjóflóð og snjóflóðahættu og úrvinnslu úr þeim. Hún skal annast mælingar á snjóalögum og rannsóknir á þeim með sérstöku tilliti til snjóflóðahættu og gefa út viðvaranir um hana.

6. gr.


    Í sveitarfélagi, þar sem hætta er talin á snjóflóðum, sbr. 2. gr., skal sveitarstjórn fela sérstökum starfsmanni að fylgjast með snjóalögum. Skal sá starfsmaður starfa að fyrirmælum Veðurstofu Íslands sem greiðir helming launa hans fyrir þessi störf samkvæmt samkomulagi þar um.

7. gr.


    Sveitarstjórn lætur gera tillögu að varnarvirkjum fyrir hættusvæði sem byggð eru eða byggð verða samkvæmt aðalskipulagi.
         Ekki má hefja byggingar á óbyggðum hættusvæðum né þétta þá byggð, sem fyrir er á hættusvæðum, fyrr en tilskildum varnarvirkjum hefur verið komið upp.

8. gr.


    Tillögur sveitarstjórnar ásamt framkvæmda- og kostnaðaráætlun skulu lagðar fyrir Almannavarnir ríkisins og öðlast gildi að fengnu samþykki þeirra og staðfestingu félagsmálaráðherra.

9. gr.


    Sveitarstjórnir skulu annast framkvæmdir hver í sínu umdæmi í samræmi við samþykktar áætlanir. Framkvæmdir skulu unnar á grundvelli útboða þar sem því verður við komið. Áður en framkvæmdir hefjast skal liggja fyrir staðfesting ráðherra, sbr. 8. gr.

10. gr.


    Stofna skal sérstakan sjóð, ofanflóðasjóð, er sé í vörslu Viðlagatryggingar Íslands. Tekjur sjóðsins skulu vera:
    5% af árlegum heildariðgjaldatekjum Viðlagatryggingar Íslands.
    Árlegt framlag á fjárlögum í samræmi við framkvæmdaáætlun sem lögð skal fram við gerð fjárlaga hverju sinni.
    Aðrar tekjur.

11. gr.


    Fé ofanflóðasjóðs, sbr. 10. gr., skal notað til að greiða kostnað við varnir gegn ofanflóðum sem hér segir:
    Greiða skal allan kostnað við gerð hættumats.
    Greiða má allt að 4 / 5 hlutum af kostnaði við undirbúning og framkvæmdir við varnarvirki. Kostnaður við kaup á löndum, lóðum og fasteignum vegna varna telst með framkvæmdakostnaði.
    Greiða má allt að 4 / 5 hlutum kostnaðar við kaup og uppsetningu á tækjum og búnaði sem sérstaklega er aflað til rannsókna á snjóalögum með tilliti til snjóflóðahættu.
     Félagsmálaráðherra ákveður úthlutun úr sjóðnum að fengnum tillögum Almannavarna ríkisins.

12. gr.


    Fella skal niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld og sölugjald af efni og tækjum sem flutt eru sérstaklega til landsins til varna gegn ofanflóðum.

13. gr.


    Kostnaður vegna ofanflóðanefndar, sbr. 4. gr., greiðist úr ríkissjóði.

14. gr.


    Félagsmálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

15. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.
Fylgiskjal IV.


5., 6. og 11. gr. laga um Viðlagatryggingu Íslands, nr. 55/1992.



Eignir sem skylt er að vátryggja.


5. gr.


    Skylt er að vátryggja allar húseignir og lausafé sem er brunatryggt hjá vátryggingafélagi sem starfsleyfi hefur hér á landi. Vátryggingarskyldan nær einnig til lausafjár sem vátryggt er almennri samsettri vátryggingu er innifelur brunatryggingu, enda flokkist slík vátrygging undir eignatryggingar samkvæmt skilgreiningu Tryggingaeftirlitsins. Sé brunatrygging á lausafé innifalin í aláhættutryggingu (all risks vátryggingu) eða sértryggingu, t.d. fiskeldistryggingu, skal lausaféð ekki viðlagatryggt, nema með sérstöku samþykki stjórnar stofnunarinnar.
     Einnig er skylt að vátryggja neðangreind mannvirki þótt þau séu ekki brunatryggð:
    Hitaveitur, vatnsveitur og skolpveitur í eigu sveitarfélaga eða ríkissjóðs.
    Hafnarmannvirki í eigu sveitarfélaga eða ríkissjóðs.
    Brýr sem eru 50 m eða lengri.
    Raforkuvirki, þar á meðal dreifikerfi, stíflur og veitumannvirki, í eigu hins opinbera.
    Síma- og fjarskiptamannvirki í eigu hins opinbera.
    Vátryggja má eignir, sem nefndar eru í 2. mgr., annars staðar en hjá Viðlagatryggingu Íslands.
     Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um vátryggingarskyldu eftir 2. mgr., þar á meðal skal tilgreina hvaða flokkar muna teljist til greindra mannvirkja.

Eignir sem heimilt er að vátryggja.


6. gr.


    Stjórn stofnunarinnar er heimilt með samþykki ráðherra að ákveða að stofnunin vátryggi neðangreint lausafé og fasteignir:
    Hitaveitur, vatnsveitur og skolpveitur í einkaeign.
    Hafnarmannvirki í einkaeign.
    Varanlegar brýr sem eru 10–50 m langar.
    Raforkuvirki, þar á meðal dreifikerfi, stíflur og veitumannvirki, í einkaeign.
    Síma- og fjarskiptamannvirki í eigu einkaaðila.
    Dæluleiðslur og aðrar lagnir.
    Geymsluþrær, geyma og yfirfallsþrær.
    Eldisfisk, eldisker og annan búnað fiskeldisstöðva.
    Lóðir, lönd og það fylgifé með þeim sem ekki er brunatryggt.
     Ef heimild 1. mgr. verður notuð skal gildissvið hvers töluliðar skilgreint nánar með reglugerð. Jafnframt er heimilt að undanskilja í reglugerð tiltekna flokka muna.
     Auk þess er stjórn stofnunarinnar heimilt að fengnu samþykki ráðherra að ákveða að stofnunin taki að sér að viðlagatryggja aðra muni en þá sem að framan greinir. Sé heimild þessi notuð skal kveða nánar á um vátryggingu muna þessara í reglugerð.

Iðgjöld.


11. gr.


    Árleg iðgjöld skal reikna sem hér segir:
    Af munum, sem vátryggðir eru skv. 1. mgr. 5. gr., 0,25‰.
    Af munum, sem vátryggðir eru skv. 2. mgr. 5. gr., 0,20‰.
    Af munum, sem vátryggðir eru skv. 6. gr., reiknast iðgjald eftir reglum sem stjórn stofnunarinnar setur.
     Fari hrein eign niður fyrir 1‰ af áætluðum vátryggingarfjárhæðum í lok almanaksárs er stjórn stofnunarinnar heimilt að innheimta iðgjöld skv. 1. og 2. mgr. 5. gr. með 50% álagi þar til 2‰-markinu er náð.
     Vátryggingafélög þau, er brunatryggja muni sem vátryggðir eru hjá stofnuninni, sbr. 1. mgr. 5. gr., skulu innheimta iðgjöld til hennar ásamt brunatryggingariðgjöldum, enda skulu þau hafa sama gjalddaga. Í reglugerð skal kveðið á um bókhald og skil á iðgjöldum frá félögunum. Um aðgang stofnunarinnar að gögnum vátryggingafélaga fer eftir ákvæðum 24. gr.
     Iðgjöld af viðlagatryggingu annarra muna, sbr. 2. mgr. 5. gr. og 6. gr., skulu reiknuð út og innheimt á vegum stofnunarinnar.
     Iðgjöld af viðlagatryggingum njóta lögtaksréttar. Þau njóta einnig lögveðréttar í vátryggðri eign. Heimilt er að krefjast nauðungarsölu eignarinnar án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms til fullnustu iðgjalds sem er í vanskilum.