Ferill 93. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 93 . mál.


202. Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Tómasar Inga Olrich um kostnað og umfang rannsókna á vatnaflutningum til Fljótsdals.

    Hve umfangsmiklar rannsóknir hafa farið fram á vegum Landsvirkjunar, Orkustofnunar og annarra opinberra aðila vegna hugmynda um að veita Jökulsá á Fjöllum til Fljótsdals og byggja vatnsorkuver austan Arnardals og í Fljótsdal?
    Undanfarna tvo áratugi hefur Orkustofnun stundað rannsóknir á virkjunarmöguleikum í Jökulsá á Dal og Jökulsá á Fjöllum og hefur Landsvirkjun tekið beinan þátt í þeim frá árinu 1990. Yfirlit um þessar rannsóknir er í fskj. I og II. Eins og gildir um virkjunarrannsóknir almennt hefur tilgangur þessara rannsókna frá fyrstu tíð verið sá að afla nauðsynlegrar þekkingar á virkjanavalkostum til að unnt sé að meta og bera saman. Við slíkar rannsóknir koma margar leiðir til greina og fela rannsóknirnar í sér skilgreiningu og samanburð á þeim, svo sem að því er varðar kostnað og umhverfisáhrif. Það sem er sérstætt við rannsóknir á virkjunarmöguleikunum í umræddum vatnsföllum er að sumir þeirra fela í sér að vatni er veitt ofarlega úr Jökulsá á Fjöllum, nálægt Vaðöldu yfir í Jökulsá á Dal og vatnsföllin virkjuð saman, annaðhvort í farvegi þess síðarnefnda eða með því að veita þeim saman eða hvoru í sínu lagi til Fljótsdals. Virkjunarkostum í Jökulsá á Fjöllum og Jökulsá á Dal er lýst í fskj. III.
    Umræddar rannsóknir hafa, eins og áður segir, beinst í senn að hagkvæmni virkjunarkosta með tilliti til kostnaðar og umhverfisáhrifa eins og á við um virkjunarrannsóknir almennt hvar sem er á landinu. Að jafnaði er hagkvæmnisathugun ódýrust. Er því að jafnaði hafist handa við hagkvæmnismat út frá því sjónarmiði að ekki sé þörf á, eða að a.m.k. liggi ekki á, að rannsaka áhrif virkjunar á umhverfi eða kanna hvort tæknilega er unnt að virkja vatnsfallið ef virkjunin er fyrirsjáanlega svo óhagkvæm að ekki komi til greina að ráðast í hana eða hún er augljóslega svo dýr að ekki verður virkjað þar fyrr en langt á eftir mörgum öðrum hagkvæmari virkjunum. Á hinn bóginn verður heldur ekki tekin skynsamleg ákvörðun um að vatnsfall skuli alls ekki virkjað af umhverfisástæðum nema fyrir liggi vitneskja um hvaða efnahagsleg fórn felst í slíkri ákvörðun. Slík þekking fæst ekki nema með því að meta hagkvæmni hlutaðeigandi virkjunarkosta.
    Á níunda áratugnum fóru fram allumfangsmiklar umhverfisrannsóknir á virkjun Jökulsár á Fjöllum og Jökulsár á Dal. Þar má nefna almennar náttúrufarsathuganir, rannsóknir á gróðurfari og hreindýrum og athugun á fuglalífi svo það helsta sé nefnt.
    Á árinu 1989 tók samstarfsnefnd iðnaðarráðuneytisins og Náttúruverndarráð um orkumál (SINO) til umfjöllunar hugmyndir um virkjanir á Austurlandi og í framhaldi af því tóku Landsvirkjun og Orkustofnun saman skýrslu um stöðu málsins sem kynnt var nefndinni.
    Hér á eftir verður stiklað á stóru í lýsingu á þeim rannsóknarverkefnum sem Landsvirkjun og Orkustofnun hafa unnið að á undanförnum árum og tengjast virkjun Jökulsár á Fjöllum.
    Tilhögun miðlunar samfara virkjun Jökulsár á Fjöllum er einn mikilvægasti þáttur þessara rannsókna. Miðlunarlón yrðu svipuð hvort heldur áin er virkjuð til austurs eða eftir eigin farvegi og umhverfisáhrif þeirra því nánast þau sömu. Í báðum tilvikum yrði strandlengjan í Öxarfirði og við Héraðsflóa fyrir vissum áhrifum sem Orkustofnun er að rannsaka. Orkustofnun hefur einnig rannsakað á eigin vegum jarðfræði fjallgarða milli Arnardals og Jökuldals auk rannsókna á sama sviði fyrir Landsvirkjun. Þá hefur verið unnið að gerð grunnvatns- og rennslislíkans af vatnasviði árinnar og er því verki að ljúka um þessar mundir.
    Á árinu 1991 var Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf. (VST) falið að endurskoða og endurmeta kosti við að virkja Jökulsá á Fjöllum og Jökulsá á Dal. Sú athugun leiddi í ljós að virkjun Jökulsár á Fjöllum til austurs um Arnardal í Jökuldal og til Fljótsdals væri hagkvæmari kostur en virkjun norður til Öxarfjarðar. VST var síðan falið að gera ítarlegri athugun á tilhögun sem felur í sér áðurnefnda veitu Jökulsár á Fjöllum, en Jökulsá á Dal yrði virkjuð sérstaklega með veitu til Fljótsdals. Þessi tilhögun gefur tækifæri á að virkja hvora ána um sig óháð og býður því upp á áfangaskiptingu. Þessar áætlanir benda til að með virkjun ánna megi að öllum líkindum vinna ódýrari raforku en fáanleg yrði annars staðar á Íslandi, orku sem væri sambærileg við ódýrustu vatnsorku sem fáanleg er í heiminum.
    Í ársbyrjun 1992 ákvað SINO-nefndin í samvinnu við Landsvirkjun og Orkustofnun að láta gera samanburð á umhverfisáhrifum sex mismunandi virkjunarleiða. Í þeim er Jökulsá á Fjöllum virkjuð á þrjá mismunandi vegu:
    Með veitu frá Vaðöldu um Fagradalslón og þaðan austur í Jökulsá á Dal,
    með veitu frá Upptyppingum um Arnardalslón og austur í Jökulsá á Dal,
    með miðlun og virkjun úr Arnardal, virkjun og miðlun við Lambafjöll og veitu frá Sauðaklifshöfða norður Hólssand að Hólsfjallavirkjun.
    Skýrsla um þessar athuganir var gefin út sl. vor. Þar kemur meðal annars fram að æskilegra er talið að veita Jökulsá á Fjöllum um Arnardal fremur en um Fagradal eins og eldri áætlanir gerðu ráð fyrir, þ.e. ef ákveðið verður að veita ánni til austurs.
    Sumarið 1993 var gerð ítarleg úttekt á gróðurfari í Arnardal í samræmi við tillögur í áðurnefndri skýrslu. Úrvinnslu lýkur fyrir árslok 1993.
    Lauslegar yfirborðsathuganir hafa farið fram undanfarin tvö sumur á jarðfræði svæðisins frá Jökulsá á Fjöllum austur fyrir Arnardalslægðina. Á sama hátt hefur byggingarefni verið kannað, aðallega hugsanlegt fylliefni í stíflur.
    Þá hafa rannsóknir og talning á heiðagæs á öræfum Austurlands verið gerðar og er skýrsla þar að lútandi væntanleg fljótlega.
    Sumarið 1993 fóru fram mælingar á Lagarfljóti neðan Egilsstaða, en með hugsanlegri veitu frá Jökulsá á Dal til Fljótsdals þrefaldast meðalrennsli í Leginum. Það þyrfti því að gera ráðstafanir til að halda vatnsborðsbreytingum innan núverandi marka.

    Hver er kostnaður við þessar athuganir?
    Samanlagður rannsóknarkostnaður Orkustofnunar til þessa á virkjunarmöguleikum í Jökulsá á Fjöllum og Jökulsá á Dal nemur alls 160 millj. kr. á núverandi verðlagi. Kostnaður Landsvirkjunar við hliðstæðar rannsóknir nemur alls 40 millj. kr. til dagsins í dag, einnig á núverandi verðlagi. Alls nemur kostnaður því 200 millj. kr. Þar af má ætla að kostnaður, sem sérstaklega er tilkominn vegna hugmyndanna um veitu Jökulsár á Fjöllum til Fljótsdals, nemi nálægt 20 millj. kr.

    Hve háðar eru áætlanir um orkuflutninga um sæstreng til Englands eða meginlands Evrópu hugmyndum um að veita Jökulsá á Fjöllum til Fljótsdals?
    Virkjun Jökulsár á Fjöllum með veitu til Fljótsdals er það stór og fjárfrekur áfangi að í hann verður ekki ráðist nema orkusala sé tryggð annaðhvort til stóriðju innan lands eða til útflutnings um sæstreng. Ódýr raforka, sem fáanleg er með stórvirkjununum á Norðausturlandi, er á engan hátt bundin við útflutning. Mikilvægi hennar er ekkert síður fyrir raforkufrekan iðnað í landinu sjálfu svo fremi að uppbygging hans verði nægilega hröð til að ná megi hinu lága kostnaðarverði á orkueiningu sem þessir stóru virkjunaráfangar búa yfir og háð er góðri nýtingu þeirra þegar frá því að hlutaðeigandi virkjanir eru teknar í notkun.
Fylgiskjal I.


Orkustofnun:

Rannsóknir Orkustofnunar á stórvirkjunum á Austurlandi.


Stutt sögulegt yfirlit.


(22. október 1993.)



(Repró, 4 síður.)






Fylgiskjal II.


Landsvirkjun:

Kostnaður og umfang rannsókna á vatnaflutningum til Fljótsdals.


(21. október 1993.)




(Repró, 4 síður.)






Fylgiskjal III.


Orkustofnun:

Virkjunarkostir í Jökulsá á Fjöllum og Jökulsá á Dal.


(22. október 1993.)



(Repró, 4 síður.)