Ferill 227. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 227 . mál.


255. Tillaga til þingsályktunar


um könnun á lagningu varanlegs vegar yfir Öxi.

Flm.: Jónas Hallgrímsson, Jón Kristjánsson.


    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta kanna möguleika á lagningu varanlegs heilsársvegar yfir Öxi sem skilur að Skriðdal og Berufjörð í Suður-Múlasýslu.

Greinargerð.

    Fornar sagnir eru um fjölfarna þjóðleið milli Skriðdals og Berufjarðar um fjallveginn Öxi. Þessi leið er í rúmlega 500 metra hæð yfir sjávarmáli. Núverandi vegur liggur af Breiðdalsheiði neðanverðri um heiðaland sem er tiltölulega slétt allt að drögum Berufjarðarbotns, en nokkuð bratt er víða ofan í hann.
    Það var upphaf þess vegslóða sem nú liggur um Öxi að áhugamenn í Berufirði og af Berufjarðarströnd hófu framkvæmdir við gerð vegar þar árið 1961. Þessi vinna var fyrst og fremst fjármögnuð með frjálsum framlögum og þættu undarlegar aðferðir í dag að afrakstur rófusölu og happdrættis rynni til samgöngubóta, en til þessara aðgerða var meðal annars gripið af ungmennafélaginu Djörfung til að afla fjár. Síðar fékkst fé úr fjallvegasjóði, en fyrst og fremst var hér um að ræða hugsjóna- og sjálfboðastarf í upphafi.
    Árið 1963 var fyrst bílfært yfir Öxi, og framkvæmdum var haldið áfram til ársins 1965 á vegum áhugaaðila, en eftir það tók Vegagerð ríkisins við. Lítillega var unnið að vegabótum til ársins 1976, en síðan hefur sáralítið verið gert. Árið 1981 lögðu Rafmagnsveitur ríkisins háspennulínu yfir Öxi og varð það til þess að vegurinn varð nánast ófær. Að eindreginni ósk heimamanna var hann þó lagfærður og sáu Rarik og Vegagerð ríkisins um það verk. Árið 1988 var sett brú á Yxnagilsá, en árið 1992 kemur enn til skjalanna áhugahópur frá Egilsstöðum sem setti hólka í þrjú minni háttar vatnsföll norðanvert á heiðinni.
    Þar sem viðhaldi á þessum vegi hefur nánast ekkert verið sinnt er varla nokkur ofaníburður í honum lengur á stórum köflum og víða er hann nánast ófær.
    Eins og fyrr greinir liggur vegurinn um sléttlendi mestan hluta leiðarinnar, lága ása og melöldur, og telja kunnugir vegagerð fremur ódýra um sjálfa heiðina og að uppbyggður vegur ætti að haldast opinn alla jafna um vetur. Þetta þyrfti þó að kanna með snjómælingum og athugunum á svæðinu.
    Þar sem hallar til Berufjarðar er víða mjög bratt og illt yfirferðar í núverandi vegarstæði en jafnframt ógleymanleg náttúrufegurð.
    Núverandi vegur milli Skriðdals og Berufjarðar er rúmlega 18 km og er um 60 km stytting milli Egilsstaða og Hafnar ef þessi samgöngubót yrði að veruleika. Ástand vegarins um þessar mundir leiðir ekki af sér styttingu á ökutíma. Með tilkomu þessa varanlega vegarsambands opnuðust auk þess ný tækifæri til útivistar og náttúruskoðunar. Ótvírætt hefði bætt vegarsamband um Öxi mikla þýðingu fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Þá væri hægt að velja um fjórar hringleiðir út frá nýjum varaflugvelli á Egilsstöðum, í fyrsta lagi umhverfis Lagarfljót, í öðru lagi um Hellisheiði og Möðrudalsöræfi, í þriðja lagi um Breiðdalsheiði og Reyðarfjörð til Egilsstaða og í fjórða lagi um Öxi með fjörðum.

Fylgiskjal.


Vegagerð ríkisins:



(Repró, 1 síða.)