Ferill 252. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 252 . mál.


291. Fyrirspurn



til menntamálaráðherra um Háskólann á Akureyri.

Frá Svanhildi Árnadóttur.



    Hvað líður áætlun um frekari uppbyggingu og eflingu Háskólans á Akureyri og annarra rannsókna- og fræðslustofnana á svæðinu sem miðstöðvar rannsókna- og fræðslustarfsemi á sviði sjávarútvegs?
    Hverjar eru megináherslur sem lagðar eru í áætlanagerðinni?
    Á hvern hátt hefur verið staðið að vinnunni og hvernig miðar henni?
    Hvaða stofnanir eru það sem til skoðunar eru?


Skriflegt svar óskast.

Greinargerð.


    Á Alþingi 20. maí 1992 var samþykkt svohljóðandi þingsályktun:
    „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera áætlun um frekari uppbyggingu og eflingu Háskólans á Akureyri og annarra rannsókna- og fræðslustofnana á svæðinu svo að þar verði öflug miðstöð rannsókna- og fræðslustarfsemi á sviði sjávarútvegs.“
    Við Háskólann á Akureyri hefur verið unnið athyglisvert brautryðjendastarf í sjávarútvegsfræðslu á háskólastigi og á Eyjafjarðarsvæðinu eru allar forsendur til að efla nám á framhalds- og háskólastigi í matvælaiðnaði, einkum úrvinnslu sjávarafurða.
    Með tilliti til þess að sjávarútvegur er undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar er mikilvægt að komið verði á fjölbreyttara námsframboði á því sviði með sérstakri áherslu á aukna verðmætasköpum í matvælaframleiðslu. Til að ná því markmiði er mikilvægt að vinnu við áðurnefnda áætlun verði hraðað sem mest þannig að hægt verði að hefjast handa um framkvæmdir á þessu sviði.