Ferill 263. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 263 . mál.

316. Frumvarp til laga



um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1994.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)



I. KAFLI


Um breytingu á lögum nr. 49/1991, um grunnskóla, með síðari breytingu.


1. gr.


    Eftirtalin ákvæði laganna skulu ekki koma til framkvæmda á fyrri hluta árs 1994 og ekki á skólaárinu 1994–1995:
    3. mgr. 4. gr.
    1. og 6. mgr. 46. gr.

2. gr.


    Í stað orðanna „1992–1993 og skólaárið 1993–1994“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða, sbr. 2. gr. laga nr. 4/1993, kemur: 1993–1994 og skólaárið 1994–1995.

Um breytingu á lögum nr. 66/1972, um Tækniskóla Íslands.

3. gr.


    Síðari málsgrein 1. gr. laganna fellur brott.

4. gr.


    Á eftir 9. gr. laganna kemur ný grein, 10. gr., og breytist töluröð síðari greina eftir því. Greinin orðast svo:
     Skrásetningargjöld í sérgreinadeildum skólans skulu háð árlegu samþykki skólanefndar og menntamálaráðherra. Skólanefnd ákveður upphæð gjalda er nemendum er gert að greiða við innritun í námsáfanga í undirbúningsdeild og raungreinadeild skólans (frumgreinadeild), svo sem innritunargjöld, efnisgjöld, pappírsgjöld og nemendasjóðsgjöld.

Um breytingu á lögum nr. 55/1978, um búnaðarfræðslu.

5. gr.


    Við 32. gr. laganna bætist ný málsgrein, 2. mgr., er orðast svo:
     Skólanefnd og skólastjórar skólanna ákveða upphæð gjalda er nemendum er gert að greiða við innritun í námsáfanga, svo sem innritunargjöld, efnisgjöld, pappírsgjöld og nemendasjóðsgjöld. Upphæð gjalda er háð samþykki ráðherra.

Um breytingu á lögum nr. 91/1936, um garðyrkjuskóla ríkisins.

6. gr.


    Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein, 2. mgr., er orðast svo:
     Skólanefnd og forstöðumaður ákveða upphæð gjalda er nemendum er gert að greiða við innritun í námsáfanga, svo sem innritunargjöld, efnisgjöld, pappírsgjöld og nemendasjóðsgjöld. Upphæð gjalda er háð samþykki ráðherra.

Um breytingu á lögum nr. 64/1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna.

7. gr.


    Við V. kafla laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 107/1974, bætist ný grein, 38. gr., er orðast svo:
     Til að standa straum af kostnaði við vinnu- og verktæknirannsóknir og tilraunir með búvélar og prófanir á þeim hjá bútæknideild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins er landbúnaðarráðherra heimilt að láta innheimta sérstakt gjald af öllum seldum búvélum og má gjaldið vera tiltekin krónutala á hverja þyngdareiningu, hlutfall af tollverði vélanna eða söluverði innan lands, þó að hámarki 2% að teknu tilliti til álagningargrunns. Gjald þetta er aðfararhæft. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um gjaldskyldu, innheimtu, gjalddaga og annað er lýtur að framkvæmd á innheimtu gjaldsins.

Um breytingu á lögum nr. 30/1987, um orlof.

8. gr.


    11. gr. laganna, sbr. 91. gr. laga nr. 92/1991, orðast svo:
     Standi launagreiðandi ekki í skilum með útborgun orlofslauna skv. 7. eða 8. gr. vegna greiðsluerfiðleika án þess þó að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta getur launþegi eða hlutaðeigandi verkalýðsfélag í umboði hans snúið sér til ábyrgðasjóðs launa, sbr. lög nr. 53/1993, með orlofslaunaskröfuna studda gögnum um fjárhæð hennar, svo sem launaseðlum, vottorði viðkomandi launagreiðanda eða löggilts endurskoðanda hans.
     Ábyrgðasjóðurinn skal þegar í stað skora á vinnuveitanda að greiða kröfuna, en beri það ekki árangur skal ábyrgðasjóðurinn innleysa kröfuna frá launþeganum. Skal það gert innan þriggja vikna frá því að krafa launþegans á hendur ábyrgðasjóðnum var sett fram.
     Á innleysta orlofskröfu ábyrgðasjóðsins falla 7,5% viðurlög við innlausnina. Á kröfuna reiknast síðan mánaðarlegir dráttarvextir samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987, fyrst 15 dögum eftir innlausn.
     Kröfur ábyrgðasjóðsins vegna innleystrar orlofslaunakröfu eru aðfararhæfar samkvæmt lögum nr. 90/1989. Krafan nýtur sama réttar og krafa launþegans hefði notið í þrotabúi vinnuveitandans.
     Ábyrgð á vangreiddu orlofi samkvæmt grein þessari, svo og kostnað af rekstri málaflokksins, skal fjármagna með ábyrgðargjaldi því sem innheimt er skv. 3. gr. laga nr. 53/1993, um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota.

Um breytingu á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra.

9. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 40. gr. laganna, um hlutverk Framkvæmdasjóðs fatlaðra, er á árinu 1994 heimilt að verja allt að 25% af ráðstöfunarfé sjóðsins til eftirfarandi verkefna samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra:
    liðveislu skv. 25. gr.,
    félagslegrar hæfingar og endurhæfingar skv. 27. gr.,
    kostnaðar vegna starfsemi stjórnarnefndar skv. 52. gr.
    Stjórnarnefnd um málefni fatlaðra skal gera tillögur til ráðherra um ráðstöfun fjár skv. a-lið þessarar greinar.

Um breytingu á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar,

með síðari breytingum.


10. gr.


    Við 19. gr. laganna, sbr. b-lið 3. gr. laga nr. 79/1991, bætist ný málsgrein, 6. mgr., sem orðast svo:
     Með reglugerð er heimilt að tengja greiðslu bótanna við tekjur.

11. gr.


    Við 41. gr. laganna, sbr. 13. gr. laga nr. 87/1989, bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. og orðast svo:
     Þó er heimilt að ákveða í reglugerð að sjúkratryggður taki þátt í kostnaði vegna dvalarinnar.

Um breytingu á lögum nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar.

12. gr.


    Í stað orðanna „þrefalt hærri fjárhæð en“ í 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: sömu fjárhæð og.

13. gr.


    Við 7. tölul. 21. gr. laganna bætist nýr málsliður svohljóðandi:
     Nú samsvara tekjurnar eða tekjuígildið ekki hámarksbótum atvinnuleysistrygginga og má þá greiða mismun atvinnuleysisbóta og teknanna eða tekjuígildisins.

14. gr.


    3. mgr. 22. gr. laganna orðast svo:
     Atvinnuleysisbætur skulu greiðast fyrir alla daga nema laugardaga og sunnudaga á hverju bótatímabili sem skal vera 260 dagar eða samtals 52 vikur.

15. gr.


    Við lokamálsgrein 23. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo:
     Nú fær bótaþegi ekki fullar atvinnuleysisbætur og skal þá eingöngu skerða bæturnar hlutfallslega.

16. gr.


    5. mgr. 24. gr. laganna fellur brott.

17. gr.


    Eftirtaldar breytingar verða á 25. gr. laganna:
    Við 1. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo:
                  Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að sameina úthlutunarnefndir tveggja eða fleiri félaga eða félagasambanda.
    Í stað orðanna „Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs“ í 2. mgr. kemur: Ráðherra.

18. gr.


    1. mgr. 30. gr. laganna orðast svo:
     Úthlutunarnefndir annast greiðslu bóta til einstakra bótaþega nema ráðherra ákveði annað.

19. gr.


    34. gr. laganna fellur brott.

20. gr.


    Eftirtaldar breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða IV:
    1. mgr. orðast svo:
                  Á árinu 1994 skulu sveitarfélög greiða 600 m.kr. til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Sveitarfélög með 300 íbúa eða fleiri greiði 2.312 kr. fyrir hvern íbúa, en sveitarfélög með færri en 300 íbúa greiði 1.387 kr. á hvern íbúa. Miða skal við íbúafjölda 1. desember 1993. Um innheimtu gjaldsins skal fjármálaráðherra setja reglugerð.
    Í stað „heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra“ í 2. og 4. málsl. 2. mgr. kemur: ráðherra.

II. KAFLI


21. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 3. gr. laga nr. 71/1990, um Listskreytingasjóð ríkisins, skal framlag ríkissjóðs eigi vera hærra en 12 m.kr. á árinu 1994.

22. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 22. og 23. gr. laga nr. 68/1985, útvarpslaga, skulu tekjur á árinu 1994 vegna aðflutningsgjalda af innfluttum hljóðvarps- og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum renna í ríkissjóð.

23. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 46. gr. laga nr. 88/1989, þjóðminjalaga, skal framlag ríkissjóðs í húsafriðunarsjóð eigi nema hærri fjárhæð en 10,5 m.kr. á árinu 1994. Þrátt fyrir ákvæði 49. gr. sömu laga skal kostnaður við húsafriðunarnefnd greiðast úr húsafriðunarsjóði.

24. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 5. tölul. 4. gr. laga nr. 45/1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, sbr. 1. gr. laga nr. 41/1982, um framlag ríkissjóðs til Stofnlánadeildar landbúnaðarins, falla þær greiðslur niður á árinu 1994.

25. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 9. gr. laga nr. 84/1989, um búfjárrækt, skal framlag ríkissjóðs til launa og vegna ræktunarstöðva eigi vera hærra en 34,8 m.kr. á árinu 1994.

26. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 7. gr. laga nr. 56/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 65/1979, jarðræktarlaga, skal framlag ríkissjóðs til launa og aksturs héraðsráðunauta eigi vera hærra en 37,5 m.kr. á árinu 1994.

27. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. 9. gr. laga nr. 30/1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, og 7. gr. laga nr. 57/1990, um flokkun og mat á gærum og ull, er landbúnaðarráðherra heimilt að innheimta gjald af sláturleyfum til greiðslu kostnaðar sem af yfirmati samkvæmt lögunum leiðir.

28. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði c- og d-liða 3. gr. laga nr. 44/1976, um Fiskveiðasjóð Íslands, skal framlag ríkissjóðs falla niður á árinu 1994.

29. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laga nr. 21/1981, um Kirkjubyggingasjóð, skal framlag ríkissjóðs eigi nema hærri fjárhæð en 1 m.kr. á árinu 1994.

30. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði c-liðar 5. gr. laga nr. 51/1972, um Bjargráðasjóð, sbr. 1. gr. laga nr. 57/1980, skal framlag ríkissjóðs falla niður á árinu 1994.

31. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 17. gr. laga nr. 39/1964, um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, skal framlag ríkissjóðs til gæsluvistarsjóðs falla niður á árinu 1994.

32. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 42. gr. laga nr. 108/1984, lyfjalaga, skal framlag ríkissjóðs til lyfsölusjóðs eigi nema hærri fjárhæð en 0,9 m.kr. á árinu 1994.

33. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 31. gr. laga nr. 69/1984, hafnalaga, skal framlag ríkissjóðs til Hafnabótasjóðs ekki nema hærri fjárhæð en 90 m.kr. á árinu 1994.

34. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 8. og 24. gr. laga nr. 79/1985, um skipulag ferðamála, sbr. 4. gr. laga nr. 59/1988, skal framlag ríkissjóðs til Ferðamálasjóðs og til sérstakra verkefna Ferðamálaráðs samkvæmt fyrrnefndum lögum ekki nema hærri fjárhæð en 68 m.kr. á árinu 1994.

35. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, sbr. 67. gr. laga nr. 111/1992 og 30. gr. laga nr. 29/1993, skulu 370 m.kr. af innheimtum mörkuðum tekjum samkvæmt lögunum renna í ríkissjóð á árinu 1994.

36. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 35. gr. laga nr. 19/1964, skipulagslaga, sbr. 1. gr. laga nr. 42/1974, skal mótframlag ríkissjóðs eigi nema hærri fjárhæð en 31,5 m.kr. á árinu 1994.

37. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 3., 4., 5. og 13. gr. laga nr. 52/1957, um eyðingu refa og minka, sbr. 33. gr. laga nr. 1/1992, skal framlag ríkissjóðs eigi nema hærri fjárhæð en 28 m.kr. á árinu 1994. Ríkissjóður endurgreiðir ekki á árinu 1994 kostnað við refa- og minkaveiðar í sveitarfélögum þar sem íbúar eru fleiri en 2.000, miðað við íbúafjölda 1. desember 1993. Umhverfisráðherra er heimilt, að fengnum tillögum veiðistjóra, að ákveða að ríkissjóður taki ekki þátt í kostnaði við minkaveiðar, grenjaleit og grenjavinnslu á tilteknum svæðum. Umhverfisráðuneyti skal auglýsa fyrir 1. maí 1994 til hvaða landsvæða ákvörðunin tekur og hver séu mörk þeirra. Sveitarstjórnum og stjórnum upprekstrarfélaga er heimilt á árinu 1994 að fella niður grenja- og minkaleitir á svæðum þar sem ríkissjóður tekur ekki þátt í kostnaði við veiðarnar og umhverfisráðuneyti auglýsir skv. 4. málsl. þessarar greinar. Ríkissjóður tekur ekki þátt í kostnaði við leit að áður óþekktum tófugrenjum nema veiðistjóri samþykki leitina fyrir fram.

38. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1994.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1994 hefur ríkisstjórnin boðað samdrátt heildarútgjalda ríkisins. Til þess að unnt verði að ná því markmiði er nauðsynlegt að breyta nokkrum lögum. Rétt þótti að safna flestum breytingartillögum saman í eitt frumvarp til þess að leggja á það áherslu að öll tengjast þau stefnu ríkisstjórnarinnar um lækkun ríkisútgjalda og viðleitni til þess að ná jafnvægi í ríkisbúskapnum. Önnur lagafrumvörp, sem áformað er að flytja m.a. í þessu skyni, fela hins vegar öll í sér tillögur um setningu nýrra heildarlaga hvert á sínu sviði og verða því flutt sérstaklega. Þetta eru frumvarp til laga um kirkjumálasjóð, frumvarp til laga um prestssetur og frumvarp til lyfjalaga.

Athugasemdir við einstaka kafla og greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


    Þessi kafli frumvarpsins tekur til þeirra breytingartillagna sem teljast forsendur að baki einstökum útgjaldaliðum.

Um 1. gr.


    Efni greinarinnar er tvíþætt:
    Frestað er framkvæmd ákvæðis um að nemendur skuli eiga kost á málsverði í skólatíma.
    Frestað er að lengja kennslutíma nemenda í grunnskóla að því marki sem gert er ráð fyrir í 1. mgr. 46. gr. og verður miðað við þann kennslutíma sem gert er ráð fyrir í fjárlögum 1993 og frumvarpi til fjárlaga 1994. Enn fremur er frestað framkvæmd á 6. mgr. 46. gr. laga um grunnskóla þar sem kveðið er á um að komið skuli á skólaathvarfi við hvern grunnskóla.

Um 2. gr.


    Frestað er að fækka nemendum í bekkjum í samræmi við 75. gr. laga um grunnskóla til loka skólaárs 1994–1995.

Um 3. gr.


    Grein þessi felur í sér að felld er niður málsgrein þess efnis að kostnað við stofnun og rekstur Tækniskóla Íslands skuli greiða að fullu úr ríkissjóði. Í lögum um aðra skóla á háskólastigi er ekki að finna slíkt ákvæði, en fjárveitingar til skólanna ákvarðast að sjálfsögðu í fjárlögum hverju sinni. Nefna má að ekki þótti ástæða til að hafa ákvæði af þessu tagi í nýlega settum lögum nr. 51/1992, um Háskólann á Akureyri.

Um 4. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um skrásetningargjöld í sérgreinadeildum Tækniskóla Íslands, sbr. hliðstætt ákvæði um skrásetningargjöld í 15. gr. laga nr. 51/1992, um Háskólann á Akureyri, og aðra sambærilega skóla í landinu. Enn fremur eru ákvæði um gjöld nemenda í undirbúnings- og raungreinadeild skólans (frumgreinadeild) sem teljast vera á framhaldsskólastigi, sbr. hliðstæð ákvæði í 8. gr. laga nr. 57/1988, um framhaldsskóla.

Um 5. og 6. gr.


    Hér er lagt til að aflað verði heimilda til handa Bændaskólanum á Hvanneyri, Bændaskólanum á Hólum í Hjaltadal og Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum í Ölfusi til að innheimta skráningargjöld af nemendum. Með þessu er lagt til að nemendur skólanna taki þátt í fjármögnun á beinum kostnaði vegna náms við skólana. Heimildir þessar um innheimtu skráningargjalda eru í samræmi við heimildir hliðstæðra skóla í landinu. Gert er ráð fyrir að upphæð skráningargjalda sé háð samþykki landbúnaðarráðherra.

Um 7. gr.


    Sérstök deild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins hefur á hendi vinnu- og verktæknirannsóknir á búvélum, sbr. 6. tölul. 36. gr. laga nr. 64/1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, með síðari breytingum. Hér er lagt til að landbúnaðarráðherra fái heimild til að láta innheimta sérstakt gjald af öllum seldum búvélum sem ætlað er að standa undir kostnaði við prófanir, vinnu- og verktæknirannsóknir o.fl. Með þessu munu söluaðilar búvéla standa að mestu undir kostnaði vegna rannsókna og tilrauna með búvélar og prófanir á þeim. Þeir söluaðilar sem hafa látið vélar til prófunar hjá bútæknideild hafa þurft að greiða fyrir þá þjónustu sérstaklega. Hér er því um að ræða nánari útfærslu á núverandi gjaldtökukerfi. Ákvæði þessarar greinar er í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að atvinnuvegirnir kosti sjálfir hluta af þeirri þjónustu sem þeir njóta.

Um 8. gr.


    Hér er lagt til að framkvæmd ríkisábyrgðar á orlofi vegna greiðsluerfiðleika launagreiðanda verði falin ábyrgðasjóði launa sem starfar samkvæmt lögum nr. 53/1993.
    Í apríl 1993 skilaði Ríkisendurskoðun greinargerð til félagsmálaráðuneytisins um ríkisábyrgð orlofs. Í greinargerð þessari er rakið með hvaða hætti framkvæmd þessara mála hefur verið hjá félagsmálaráðuneytinu og Tryggingastofnun ríkisins. Með samkomulagi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis var ákveðið að fela Tryggingastofnun ríkisins að annast meðferð mála vegna ríkisábyrgðar á orlofi frá og með 1. maí 1991. Í greinargerð sinni leggur Ríkisendurskoðun m.a. til að athugað verði hvort ekki sé eðlilegra að ábyrgðasjóður launa yfirtaki ábyrgð á orlofsgreiðslum vegna greiðsluerfiðleika, líkt og með aðrar launagreiðslur vegna gjaldþrota. Í því sambandi bendir Ríkisendurskoðun á að dæmin sýni að verulegur hluti þeirra launagreiðenda sem eru í greiðsluerfiðleikum og geta ekki greitt orlofslaunakröfu fara í gjaldþrot.
    Frá 1. maí 1991 hefur framkvæmd ríkisábyrgðar á launum vegna gjaldþrota og ríkisábyrgðar á orlofi vegna greiðsluerfiðleika í raun verið á sömu hendi. Félagsmálaráðuneytið hefur þó endanlegt ákvörðunarvald um innlausn orlofslaunakröfu vegna greiðsluerfiðleika, en með lögum nr. 52/1992 var kveðið á um að settur skyldi á fót ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota sem lúta skyldi þriggja manna stjórn sem félagsmálaráðherra skipar.
    Með hliðsjón af framangreindum atriðum og greinargerð Ríkisendurskoðunar er talið eðlilegt að ábyrgðasjóði launa verði falið að ábyrgjast greiðslur á orlofi vegna greiðsluerfiðleika launagreiðanda til að samræma framkvæmd fyrrgreindra tveggja málaflokka.
    Jafnframt þessu er lagt til í 5. mgr. að kostnaður vegna ábyrgðar á orlofi vegna greiðsluerfiðleika greiðist af ábyrgðargjaldi því sem innheimt er skv. 3. gr. laga nr. 53/1993, um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Ekki er lagt til að umrætt ábyrgðargjald muni hækka með breytingu þessari, heldur er einungis verið að víkka út starfssvið ábyrgðasjóðs launa.

Um 9. gr.


    Lagt er til að þrátt fyrir ákvæði laganna um hlutverk Framkvæmdasjóðs fatlaðra verði á árinu 1994 heimilt að verja tilteknum hundraðshluta af ráðstöfunarfé sjóðsins til nokkurra verkefna. Þetta er einkum gert í ljósi þess að mjög mikil uppbygging þjónustustofnana fatlaðra hefur átt sér stað undanfarið þannig að brýnni þörf þykir nú á því að auka fjármagn til stoðþjónustu en halda áfram uppbyggingu stofnana í sama mæli og verið hefur undanfarin ár. Einnig er tekið mið af því að ljóst er að nýtt fjármagn til rekstrar verður mjög takmarkað þannig að framlög til stofnframkvæmda munu ekki nýtast.

Um 10. gr.


    Til að draga úr kostnaði almannatrygginga vegna greiðslu ekkjulífeyris er lagt til að heimilt verði að tekjutengja greiðslu þessara bóta.

Um 11. gr.


    Í lögum um málefni aldraðra eru ákvæði þess efnis að aldraðir langlegusjúklingar skuli taka þátt í kostnaði vegna dvalarinnar. Fyrirhugað er að taka upp greiðsluhlutdeild sjúklinga vegna áfengismeðferðar. Greiðsluhlutdeild af svipuðu tagi tíðkast hjá Heilsustofnun NLFÍ. Nauðsynlegt þykir að fella reglugerðarheimild af þessu tagi inn í lögin, en ákvæðið kemur eftir sem áður ekki í veg fyrir að unnt verði að setja jafnframt ákvæði um greiðsluþátttöku sjúklinga í sérlög.

Um 12. gr.


    Ákveðið hefur verið að framlag ríkissjóðs til Atvinnuleysistryggingasjóðs verði hið sama og tekjur sjóðsins af tryggingagjaldi. Í III. kafla frumvarps til laga um breytingar í skattamálum er lagt til að hlutur Atvinnuleysistryggingasjóðs í tekjum af tryggingagjaldi verði aukinn. Til samræmingar er nauðsynlegt að breyta ákvæði um framlag ríkissjóðs til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þrátt fyrir þessa breytingu mun framlag ríkissjóðs til Atvinnuleysistryggingasjóðs á árinu 1994 hækka úr sem nemur 0,45 af hundraði af stofni tryggingagjalds í 0,5 af hundraði. Eftir sem áður er ríkissjóði skylt að bæta úr fjárþurrð sjóðsins skv. 38. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ef sjóðurinn getur ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Um 13. gr.


    Ef einstaklingur hefur tekjur eða tekjuígildi undir hámarksbótum atvinnuleysistrygginga er hér lagt til að þær skuli dregnar frá atvinnuleysisbótunum.

Um 14. gr.


    Nauðsynlegt þykir að taka fram að bótatímabilið sé 52 vikur.

Um 15. gr.


    Í ljós hefur komið að ekki er nægilega skýrt tekið fram í lögunum að aldrei skuli skerða atvinnuleysisbætur að fullu um greiddan elli- og örorkulífeyri eða örorkustyrk nema bótaþegi fái fullar atvinnuleysisbætur. Því þykir nauðsynlegt að leggja til að kveðið sé skýrt á um það í lögunum að greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins skuli skerða bæturnar í sama hlutfalli og bótahlutfall atvinnuleysisbóta.

Um 16. gr.


    Ákvæði þetta geymir heimild til þess að greiða atvinnuleysisbætur í hlutfalli við skertan dagvinnutíma ef skerðingin stafar af samdrætti í starfsemi fyrirtækis. Í ljós hefur komið veruleg misnotkun þessa ákvæðis og er fyrir þær sakir lagt til að ákvæðið falli brott.

Um 17. og 18. gr.


    Lagt er til að opnuð verði heimild í lögunum til að fækka úthlutunarnefndum, en þær eru nú um 150. Einnig er lagt til að ákvörðun um þóknun fyrir nefndarstörfin og umsýslu með bótagreiðslum verði færð í hendur ráðherra.

Um 19. gr.


    Hér er lagt til að 34. gr. laganna falli brott enda þykir ekki ástæða til að lána úr Atvinnuleysistryggingasjóði til stéttarfélaga og félaga atvinnurekenda til að koma upp húsnæði fyrir félagsstarfsemi eða til orlofsheimila launþega.

Um 20. gr.


    Gert er ráð fyrir að sveitarfélögin leggi Atvinnuleysistryggingasjóði til framlag til atvinnuskapandi verkefna í sveitarfélögum á árinu 1994 með sama hætti og árið 1993. Gert er ráð fyrir að framlagið hækki úr 500 m.kr. í 600 m.kr. Það þýðir að sveitarfélög með 300 íbúa eða fleiri greiða 2.312 kr. á hvern íbúa, en greiddu 1.950 kr. árið 1993.
    Þá hefur ríkisstjórnin ákveðið að flytja yfirstjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti til félagsmálaráðuneytis frá 1. janúar 1994. Í samræmi við það eru viðeigandi breytingar gerðar á 2. mgr. bráðabirgðaákvæðisins.

Um II. kafla.


    Í samræmi við markaða stefnu í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1994 um skerðingu lögboðinna framlaga er í þessu frumvarpi lögð til skerðing á sjálfvirkum framlögum til ýmissa aðila sem bundin eru í sérlögum.

Um 38. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1994.


    Lagt hefur verið mat á fjárhagsleg áhrif þessa frumvarps verði það að lögum, annars vegar með tilliti til þeirra ákvæða sem fram koma í I. kafla þess og hins vegar í II. kafla þar sem skerðingarákvæði eru tekin saman. Það er mat fjármálaráðuneytisins að ákvæði I. kafla leiði til þess að útgjöld ríkissjóðs verði um 734 m.kr. lægri en ef gildandi lög hefðu gilt. Skerðingarákvæði II. kafla fela í sér 918 m.kr. lækkun útgjalda frá því sem ella hefði verið. Um einstök efnisatriði frumvarpsins er eftirfarandi að segja:

1. Breyting á lögum nr. 49/1991, um grunnskóla, með síðari breytingu.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1994 miðast útgjaldaáætlanir við að þessi ákvæði verði að lögum. Ákvæðin eru hliðstæð ákvæðum laga nr. 4/1993, um breytingu á lögum nr. 49/1991, um grunnskóla, sbr. og lög nr. 1/1992. Sparnaður, sem af breytingu hlýst, er metinn sem hér segir:
    Fyrst er að nefna að ógerlegt er að segja til um hugsanlegan kostnað við málsverði í skólum þar sem slík þjónusta er ekki enn fyrir hendi og því engin kostnaðarreynsla fengin. Er því ekki lagt á það talnalegt mat hér, en ljóst er að kostnaður hefði að hluta fallið á sveitarfélög.
    Í annan stað er skv. 46. gr. laga nr. 49/1991 gert ráð fyrir að heildarfjöldi viðmiðunarstunda sé 314 en hann er 287 í forsendum frumvarps til fjárlaga 1994. Sparnaður á haustönn 1994 er áætlaður 110 m.kr. en um 130 m.kr. á vorönn 1995.
    Í þriðja lagi er erfitt að áætla sparnað vegna ákvæðis um fjölda nemenda í bekkjardeildum skv. 2. gr. en sparnaðurinn fer m.a. eftir því hvernig nemendur dreifast á skóla. Gert er ráð fyrir að frestun á fækkun nemenda í 1. bekk í 18 og í 22 í 3. bekk spari nálægt 50 m.kr. á haustönn 1994 en 60 m.kr. á vorönn 1995.
    Að öllu samanlögðu er gert ráð fyrir að frestun framangreindra ákvæða grunnskólalaga spari ríkissjóði um 160 m.kr. á haustönn 1994, en 350 m.kr. á öllu skólaárinu 1994–95.

2. Breyting á lögum nr. 66/1972, um Tækniskóla Íslands.
    Í ákvæðum frumvarpsins, sem eiga við Tækniskóla Íslands, er um tvær breytingar að ræða:
    Í fyrsta lagi er felld niður málsgrein í 1. gr. núgildandi laga er kveður á um að kostnaður við stofnun og rekstur skólans greiðist að fullu úr ríkissjóði. Þessi breyting hefur ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs enda var og verður fjárveiting til skólans ákveðin á fjárlögum hverju sinni.
    Í öðru lagi er bætt við nýrri grein, 10. gr., sem kveður á um innheimtu ýmissa gjalda af nemendum. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1994 er gert ráð fyrir að tekjur skólans af ofangreindum gjöldum verði nálægt 7 m.kr. á árinu 1994.

3.    Breyting á lögum nr. 55/1978, um búnaðarfræðslu, og á lögum nr. 91/1936, um garðyrkjuskóla ríkisins.
    Hér er lagt til að búnaðarskólar og Garðyrkjuskóli ríkisins fái heimild til að innheimta gjöld af nemendum. Gera má ráð fyrir að Bændaskólinn á Hvanneyri afli 0,8 m.kr. með skráningargjöldum á næsta ári, Bændaskólinn á Hólum 0,6 m.kr. og Garðyrkjuskóli ríkisins 0,6 m.kr.

4. Breyting á lögum nr. 64/1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna.
    Hér er lagt til að veitt verði heimild til að leggja á sérstakt gjald af öllum seldum búvélum sem standi að mestu undir kostnaði Rannsóknastofnunar landbúnaðarins við prófanir, vinnu- og verktæknirannsóknir o.fl. Gera má ráð fyrir að slíkt gjald afli stofnuninni um 8 m.kr. á árinu 1994.

5. Breyting á lögum nr. 30/1987, um orlof.
    Lagt er til að umsjón ríkisábyrgðar á orlofi vegna greiðsluerfiðleika launagreiðanda verði falin ábyrgðasjóði launa. Gert er ráð fyrir að kostnaður sá sem fellur á ábyrgðasjóð launa vegna þessa verði um 15 m.kr. á næsta ári.

6. Breyting á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra.
    Lagt er til að allt að 25% af ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs fatlaðra verði varið til rekstrarkostnaðar stofnana fatlaðra. Gert er ráð fyrir að rekstrarkostnaður sá sem greiða skal af ráðstöfunarfé sjóðsins nemi 42,2 m.kr. á árinu 1994 og eru fjárveitingar á öðrum gjaldaliðum í fjárlagafrumvarpi lægri sem því nemur.

7. Breyting á lögum nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar.
    Með ákvæði 12. gr. eru gerðar nauðsynlegar breytingar til samræmis við frumvarp til laga um breytingar á lögum um tryggingagjald. Lögbundið framlag ríkissjóðs í sjóðinn hækkar úr 0,45% af stofni tryggingagjalds í 0,5%, eða sem nemur 100 m.kr.
    Með ákvæðum 13.–19. gr. eru gerðar nokkrar breytingar á lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð. Samanlagt hafa þær ekki áhrif á heildarútgjöld sjóðsins þar sem áhrif til hækkunar og lækkunar standast á. Til hækkunar útgjalda eru ákvæði 15. gr. um skerðingu atvinnuleysisbóta vegna tekna af elli- og örorkulífeyrisbótum. Til lækkunar eru ákvæði 13. gr. um að heimilt sé að lækka atvinnuleysisbætur um tekjur einstaklings þótt þær séu undir hámarksbótum og ákvæði 16. gr. Í 14. gr. er aðeins um áréttingu á gildandi reglum að ræða og í 17. og 18. gr. er ráðherra veitt heimild til að sameina úthlutunarnefndir og til að ákveða þóknun til stéttarfélaga vegna úthlutunar atvinnuleysisbóta. Loks er í 19. gr. felld niður heimild sjóðsins til tiltekinna lánveitinga sem mun bæta sjóðstöðu hans.
    Í 20. gr. er ákvæði til bráðabirgða sem gerir ráð fyrir að sveitarfélögin leggi Atvinnuleysistryggingasjóði til 600 m.kr. til atvinnuskapandi verkefna.

Niðurstaða.
    Í heild er áætlað að lækkun útgjalda ríkissjóðs skv. I. kafla nemi 734 m.kr. á árinu 1994 og sundurliðast sem hér segir (í m.kr.):



TÖFLUR REPRÓ