Ferill 203. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 203 . mál.


333. Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Sveins Þórs Elinbergssonar um kvótaviðskipti og eignarhald kvóta.

    Hverjir voru 20 stærstu eignarhaldsaðilar aflaheimilda við lok fiskveiðiáranna 1. september 1991 til 31. ágúst 1992 og 1. september 1992 til 31. ágúst 1993 og hversu mikið var í eigu hvers og eins, sundurliðað í tonnum og þorskígildum hvort ár fyrir sig?
    Í 3. mgr. 7. gr. laga nr. 38/1990 segir svo: „Aflamark skips á hverju veiðitímabili eða vertíð ræðst af leyfðum heildarafla viðkomandi tegundar og hlutdeild skipsins í þeim heildarafla skv. 2. mgr., sbr. þó ákvæði 9. gr. Skal Fiskistofa senda sérstaka tilkynningu vegna hvers skips um aflamark þess í upphafi veiðitímabils eða vertíðar.“ Í 2. mgr. er skýrt hvað felst í hugtakinu aflahlutdeild sem er tiltekin hlutdeild af leyfðum heildarafla í viðkomandi tegund. Í 9. gr. er ráðherra heimilað að skerða eða auka tímabundið botnfisksaflamark þeirra fiskiskipa sem verða fyrir verulegum breytingum á aflatekjum milli veiðitímabila af veiðum á öðrum tegundum en botnfiski og úthafsrækju. Fjallað er um flutning á aflahlutdeild milli fiskiskipa í 6. mgr. 11. gr. laganna en heimilt er að framselja aflahlutdeild skips að hluta eða öllu leyti og sameina hana aflahlutdeild annars skips að vissum skilyrðum uppfylltum. Enn fremur kemur fram að slíkur flutningur öðlast ekki gildi fyrr en Fiskistofa hefur staðfest hann.
    Hverju skipi sem hefur aflahlutdeild í ákveðinni tegund er því úthlutað aflamarki í upphafi fiskveiðiárs samkvæmt aflahlutdeild þess í upphafi fiskveiðiársins. Sú úthlutun gefur hugmynd um hverju viðkomandi útgerð hefur úr að spila það fiskveiðiár. Fiskistofa reiknar út og tilkynnir útgerðum í upphafi hvers fiskveiðiárs um aflamark þeirra. Sú vinna er tímafrek og er óframkvæmanleg ef miklar tilfærslur eiga sér stað á aflaheimildum á sama tíma. Því hefur sú vinnuregla verið tekin upp að flytja aflahlutdeildir ekki milli skipa í ágústmánuði nema sérstakar aðstæður krefjist þess. Aflahlutdeild skipa er því í nær öllum tilvikum sú sama við lok eins fiskveiðiárs og byrjun hins næsta. Aftur á móti getur aflahlutdeild skips hafa breyst frá upphafi til loka fiskveiðiárs án þess að aflamark þess hafi breyst þar sem flutningur á aflahlutdeild hefur ekki í för með sér breytingu á aflamarki fyrr en við næstu úthlutun. Því má telja að upplýsingar um raunverulega úthlutun aflamarks til skipa í upphafi fiskveiðiárs gefi betri mynd af því hvar aflaheimildir eru niðurkomnar en útreikningar á aflamarki miðaðir við aflahlutdeild í lok fiskveiðiárs og leyfðum heildarafla sama fiskveiðiárs.
    Í meðfylgjandi töflum I og II er listi yfir þau 20 fyrirtæki sem hafa fengið úthlutað mestu aflamarki þessi tvö fiskveiðiár. Er því miðað við aflamark skipa í þeirra eigu dagana 1. sept. 1992 og 1. sept. 1993. Þar kemur fram aflamark í hverri kvótabundinni tegund og aflamark í botnfiski reiknað til þorskígilda og einnig aflamark allra tegundanna reiknað til þoskígilda.
    Hvert er áætlað núvirði þessara aflaheimilda hjá hverjum eignarhaldsaðila fyrir sig?
    Engum upplýsingum er safnað af hinu opinbera um verð á aflaheimildum og er því ekki unnt að gefa svar við þessari spurningu.

    Hvert var umfang kvótaviðskipta þessi sömu ár, þ.e. samanlagt söluverð annars vegar og aflamagn í tonnum og þorskígildum hins vegar?
    Um flutning aflamarks á milli fiskiskipa gilda ákvæði 12. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Samkvæmt þeim ákvæðum er heimilt að flytja aflamark milli skipa sömu útgerðar og skipa sem gerð eru út frá sömu verstöð enda hafi það skip sem aflamarkið er flutt til aflahlutdeild af þeirri tegund sem um ræðir. Sama gildir um flutning aflamarks milli skipa sem ekki eru gerð út frá sömu verstöð enda sé um að ræða jöfn skipti á aflaheimildum. Flutningur á aflamarki samkvæmt ofansögðu öðlast gildi þegar Fiskistofa hefur staðfest mótttöku tilkynningar um flutninginn frá þeim sem hlut eiga að máli. Allur annar flutningur á aflamarki er óheimill nema með samþykki Fiskistofu og að fenginni umsögn sveitarstjórnar og stjórnar sjómannafélags í viðkomandi verstöð. Flutningi aflamarks hefur verið skipt í fjóra flokka (A,B,C og D) í samræmi við ofangreinda lýsingu. Í flokki A er flutningur milli skipa í eigu sama aðila eða útgerðar, í flokki B er flutningur milli skipa sem gerð eru út frá sömu verstöð en ekki í eigu sömu útgerðar og í C flokki er um jöfn skipti milla skipa frá mismunandi verstöðvum að ræða. Í flokki D er síðan um flutning milli óskyldra aðila á ólíkum stöðum að ræða.
    Til viðbótar við framangreindan flutning á aflamarki er skv. 11. gr. laganna, um stjórn fiskveiða, heimilt að flytja aflahlutdeild á milli fiskiskipa eins og fram kom í svari við fyrstu spurningu og yfirleitt fylgir flutningi aflahlutdeildar samsvarandi flutningur á aflamarki. Flutningur á aflamarki sem tengist flutningi aflahlutdeildar er flokkaður í kvótabókhaldinu með sama hætti og flutningur á aflamarki innan ársins.
    Þeir sem óska eftir að flytja aflamark á milli fiskiskipa þurfa að fylla út sérstök eyðublöð sem Fiskistofa lætur í té. Á eyðublaðinu koma fram upplýsingar um tegund millifærslu, þ.e. hvort um sé að ræða skip í eigu sama aðila, hvort um sé að ræða jöfn skipti á aflaheimildum o.s.frv., upplýsingar um það hve mikið aflamark eigi að flytja af einstökum tegundum frá tilteknu skipi yfir á annað skip og loks undirskrift þess sem óskar eftir flutningi aflaheimildanna. Engra fjárhagslegra upplýsinga er krafist.
    Í töflum III, IV og V eru upplýsingar um flutninga á aflaheimildum samkvæmt skráningu Fiskistofu þau tvö fiskveiðiár sem um er beðið. Tölur fyrir fiskveiðiárið 1. sept.1992 til 31. ágúst 1993 eru bráðabirgðatölur. Þar sem ekki er krafist fjárhagslegra upplýsinga við flutning á aflamarki er ekki hægt að gefa upplýsingar um söluverð kvóta. Í töflum III og IV eru upplýsingar um flutning á aflamarki milli skipa í hverri kvótabundinni tegund í lestum fyrir hverja tegund, einnig koma fram tölur um flutning botnfisksafla reiknaðar til þorskígilda.
    Í töflu V koma fram tölur sem gefa til kynna hve stór hluti af aflahlutdeildinni hefur verið fluttur milli skipa tvö síðustu fiskveiðiár. Við skoðun á töflunni verður að hafa í huga að hér er um allar tilfærslur af aflahlutdeild að ræða, hvort sem er milli skipa innan útgerðar eða milli óskyldra aðila.

Fylgiskjal.

Töflur I–V REPRÓ