Ferill 292. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 292 . mál.


384. Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.

Frá landbúnaðarnefnd.


1. gr.

    19. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að innheimta verðmiðlunargjald af afurðum nautgripa og sauðfjár. Skal gjald þetta teljast til heildsölu- og dreifingarkostnaðar sé hann ákveðinn af fimmmannanefnd. Landbúnaðarráðherra ákveður upphæð gjaldsins hverju sinni og má það aldrei vera hærra en 3,5% af heildsöluverði viðkomandi búvöru.
    Tekjum af verðmiðlunargjaldi skal m.a. varið þannig:
    til verðmiðlunar á milli afurðastöðva til þess að jafna flutningskostnað frá framleiðendum að afurðastöðvum í þeim tilgangi að auðvelda hagkvæman rekstur stöðvanna og til þess að greiða nauðsynlega flutninga á milli svæða þar sem vöntun kann að vera á einstökum afurðum, sbr. 60. gr.,
    til að koma á hentugri verkaskiptingu á milli afurðastöðva,
    til að jafna aðstöðu afurðastöðvanna til að koma framleiðsluvörum sínum á markað.
    Við ráðstöfun tekna af verðmiðlunargjaldi er heimilt að taka tillit til stærðar og staðsetningar afurðastöðva svo að unnt sé að styrkja sérstaklega rekstur þeirra þar sem það þykir hagkvæmur kostur vegna landfræðilegrar einangrunar.
    Áður en ákvarðanir eru teknar um ráðstöfun tekna af verðmiðlunargjöldum skal leita tillagna frá Framleiðsluráði landbúnaðarins og samtaka þeirra afurðastöðva sem um ræðir.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu, sem flutt er að beiðni landbúnaðarráðherra, er lagt til að breytt verði ákvæði 19. gr. búvörulaga um fyrirkomulag á verðmiðlun mjólkurafurða. Gert er ráð fyrir að í stað skyldu til að að haga verðmiðlun þannig að afurðastöðvum sé gert kleift að greiða framleiðendum sama verð fyrir sams konar búvöru verði aðeins um að ræða heimild til innheimtu verðmiðlunargjalds.
    Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 112/1992, um breytingu á lögum nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, var gerð tillaga að breytingu á 19. gr. gildandi búvörulaga. Var ætlunin að koma í framkvæmd tillögu sjömannanefndar um breytt fyrirkomulag á verðmiðlun mjólkurafurða. Við meðferð frumvarpsins hjá landbúnaðarnefnd varð niðurstaðan sú að fyrirhugaðar breytingar gætu náð fram að ganga að óbreyttum lögum. Byggðist það á þeirri framkvæmd verðmiðlunar sem fyrirhuguð var á grundvelli tillagna sjömannanefndar.
    Í tillögum sjömannanefndar er gert ráð fyrir að horfið sé frá verðmiðlun mjólkurafurða í núverandi mynd. Gert er ráð fyrir að verðmiðlun takmarkist við svonefnda flutningsjöfnun og/eða rekstrarstyrki til einstakra mjólkurbúa til að skapa þeim rekstrargrundvöll teljist það hagkvæmari kostur en að flytja alla mjólk að og frá viðkomandi svæði.
    Við undirbúning reglugerðar um breytta framkvæmd verðjöfnunar hefur komið í ljós að til þess að ná markmiðum tillagna sjömannanefndar verður að gera víðtækari breytingar en heimilt er að óbreyttum lögum. Í breytingunum felst einkum að afnuminn verði sá almenni réttur sem mjólkurbúin eiga í dag til þess að hljóta verðmiðlun. Þess í stað verði eingöngu veittur slíkur réttur við sérstakar aðstæður. Með því er horfið frá að verðmiðlun í mjólkuriðnaði feli í sér rekstrartryggingu fyrir mjólkurbúin en þess í stað verði aðeins þær afurðastöðvar styrktar til áframhaldandi rekstrar sem hagkvæmt þykir að starfrækja af landfræðilegum ástæðum. Þá eru lagðar til þær skipulagsbreytingar að verðmiðlunargjöld verði að hámarki 3,5% af heildsöluverði viðkomandi búvöru og felst í því nægjanlegt svigrúm til að ná fram markmiðum þessa frumvarps.