Ferill 263. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 263 . mál.


447. Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1994.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin fjallaði um frumvarpið á tveimur fundum og er sú meðferð málsins mjög í anda þeirra vinnubragða sem einkennt hafa ríkisfjármálin á þessu þingi. Mál koma allt of seint fram og tíminn, sem gefst til að vinna þau, er allt of naumur. Það kom t.d. í ljós í meðförum nefndarinnar á málinu að veruleg ástæða hefði verið til að athuga betur hvaða afleiðingar hin svo kölluðu þrátt-fyrir-ákvæði hafa haft fyrir þær stofnanir og sjóði sem hafa orðið að þola skerðingu lögbundinna framlaga árum saman. Til slíkrar könnunar gafst enginn tími.
    Frumvarpið um ráðstafanir í ríkisfjármálum er óvenjulítið að þessu sinni og ræðst það af því að ýmist náðist ekki samkomulag í ríkisstjórnarflokkunum eða ákveðið var að taka út úr frumvarpinu illa undirbúin niðurskurðaráform sem mætt höfðu mikilli andstöðu í þjóðfélaginu. Frumvarpið felur þó í sér nokkur mjög alvarleg áform og framlengingu á fyrri ákvörðunum sem stjórnarandstaðan mótmælir nú sem fyrr. Það er lýsandi fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar að þeir sem þurfa að þola niðurskurð og gjaldtöku eru grunnskólabörn, námsmenn í framhaldsskólum, ekkjur og áfengissjúklingar, auk menningarstarfsemi af ýmsu tagi sem ekki fær sín lögbundnu framlög.

Grunnskólinn.
    Þriðja árið í röð er frestað framkvæmd nokkurra ákvæða grunnskólalaga sem samþykkt voru af öllum þingflokkum vorið 1991. Menntamálaráðherra lýsti því yfir haustið 1991 að um tímabundna aðgerð væri að ræða. Hætt er við að sú aðgerð verði varanleg haldi svo fram sem horfir. Í stað þess að fækka börnum í bekkjum, eins og stefnt er að, er heimilt að fjölga börnum í bekkjum, kennslustundum er ekki fjölgað svo sem ráð var fyrir gert og sveitarfélögum er ekki gert skylt að koma á máltíðum í skólum. Á árinu 1994 er þessi niðurskurður 160 millj. kr. og á skólaárinu 1994–1995 verður hann um 350 millj. kr. Það er ljóst að þessi síendurtekni niðurskurður hefur haft alvarlegar afleiðingar sem m.a. lýsa sér í verulegri launalækkun kennara, atvinnuleysi í þeirra röðum, allt of stórum bekkjum og niðurskurði í kennslu sem skólakerfið mátti þó síst við. Niðurstaða nýlegrar könnunar á læsi íslenskra barna sýnir að þörf er á sókn í skólakerfinu í stað samdráttar. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem borist hafa frá menntamálaráðuneytinu, var heimildin til að fjölga í bekkjum notuð 34 sinnum skólaárið 1992–1993 og 16 sinnum til viðbótar skólaárið 1993–1994. Hér er um aðgerðir að ræða sem bitna á börnum landsins, framtíð þeirra og þjóðarinnar, aðgerðir sem stjórnarandstaða hefur mótmælt harðlega og mótmælir enn.

Skólagjöld.
    Í frumvarpinu er lögð til upptaka skólagjalda í fjórum skólum. Þar er um að ræða búnaðarskólana, Garðyrkjuskóla ríkisins og Tækniskóla Íslands. Skólagjöldum hefur þegar verið komið á í öllum öðrum framhaldskólum og skólum á háskólastigi. Í þessum fjórum skólum er bæði um að ræða grunndeildir og deildir á háskólastigi og því verður um mjög mismunandi gjöld að ræða. Stjórnarandstaðan hefur verið þeirrar skoðunar að með skólagjöldum sé verið að brjóta þá grundvallarreglu að ríkið bjóði öllum þegnum landsins upp á menntun sem greidd er úr sameiginlegum sjóðum. Stjórnarandstaðan er andvíg þjónustugjöldum af þessu tagi og mun því greiða atkvæði gegn þessum ákvæðum. Það er hins vegar lýsandi fyrir vinnubrögð ríkisstjórnarinnar að ár eftir ár hefur í fjárlögum verið gert ráð fyrir „sértekjum“ Tækniskólans upp á 7 millj. kr. þótt lagaheimildir hafi skort til innheimtu sértekna. Sú breyting, sem hér er lögð til á lögum um Tækniskóla Íslands, felur það í sér að numin verður úr gildi sú skylda ríkisins að greiða rekstur skólans. Minni hluti menntamálanefndar bendir á það í bréfi sínu til efnahags- og viðskiptanefndar að þessi breyting feli í sér heimild til að taka Tækniskólann út af fjárlögum!

Atvinnuleysistryggingar og ekknabætur.
    Sú grein frumvarpsins sem fól í sér heimild til að tekjutengja ekknabætur verður felld niður þar sem slíka heimild er þegar að finna í nýsettum lögum um félagslega aðstoð. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem fram komu í efnahags- og viðskiptanefnd, verður tekjutengingin með sama hætti og gildir um ellilífeyri. Það er álit minni hlutans að þetta mál hefði þurft mun nánari skoðunar við þannig að ljóst væri hvernig staða þessa hóps er og hvernig þessi skerðing kemur við hann. Minni hluti heilbrigðis- og trygginganefndar hafnar þessari tekjutengingu enda hafi engin rök komið fram sem styðji þá skoðun að þessi sparnaður sé skynsamlegur.
    Nokkrar breytingar eru gerðar á lögum um atvinnuleysistryggingar, m.a. til að koma í veg fyrir misnotkun. Sumar þessar breytinga orka tvímælis, svo sem það að taka út úr lögunum með öllu rétt til að greiða atvinnuleysisbætur á móti samdrætti í vinnu. Nú er til athugunar að lagfæra þetta. Einnig er ljóst að ráðherra er að taka til sín stóraukið vald frá Atvinnuleysistryggingasjóði og úthlutunarnefndum. Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar um málið kom fram að Samband íslenskra sveitarfélaga er ekki alls kostar ánægt með það ákvæði sem lögbindur 600 millj. kr. framlag sveitarfélaganna til atvinnumála og telur að breytingartillaga meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar feli í sér óeðlilegar kröfur til sveitarfélaganna. Verði því ekki breytt kallar það á mótmæli og versnandi samskipti sveitarfélaganna og ríkisstjórnarinnar og er þó ekki á bætandi. Þetta mál hefði þurft meiri og betri umfjöllun í nefndinni.

Sjúklingaskattur.
    Í 11. gr. frumvarpsins og þeirri breytingartillögu, sem meiri hlutinn leggur til, er gert ráð fyrir að þeir sjúklingar, sem þurfa á áfengismeðferð að halda, greiði hluta af þeim kostnaði sem meðferðinni fylgir. Þar með er verið að innleiða þá reglu að sjúklingar, sem lagðir verða inn á stofnun til meðferðar, greiði fyrir hana. Þótt um sérhæfða meðferð sé að ræða er ljóst að sá hópur, sem ákvæðið nær til, er oftast illa á sig kominn andlega og líkamlega og ólíklegt að slíkir sjúklingar geti greitt fyrir sjúkrahúsvistun. Þessi gjaldtaka á að skila um 25 millj. kr. samkvæmt frumvarpinu en hætt er við að sumir þeirra sem þurfa á meðferð að halda geti ekki greitt gjöldin og leiti sér því ekki lækninga. Það verður þjóðfélaginu dýrt þegar til lengdar er litið. Minni hlutinn mótmælir þessari stefnu og mun greiða atkvæði gegn þessu ákvæði.

Þrátt-fyrir-ákvæðin.
    Í þrátt-fyrir-ákvæðum þessa frumvarps er að finna skerðingar á lögbundnum framlögum sem endurteknar hafa verið ár eftir ár. Það er skoðun minni hlutans að lagasetning af þessu tagi sé afar slæm og að miklu eðlilegra væri að endurskoða þau lög sem hér um ræðir sé það vilji Alþingis að skerða fjárframlög með þessum hætti.
    Minni hlutinn vill benda sérstaklega á eftirfarandi atriði.
    Í fyrsta lagi eru tekjur Ríkisútvarpsins teknar í ríkissjóð. Staða Ríkisútvarpsins er með þeim hætti að mikil þörf er á viðhaldi og endurbótum, einkum á dreifikerfinu sem á að þjóna landinu og miðunum. Með því að taka þessar tekjur traustataki er verið að koma í veg fyrir bætta þjónustu við landsmenn og verið að leggja stein í götu þessarar mikilvægu menningarstofnunar og öryggistækis.
    Í öðru lagi vill minni hlutinn benda á skert framlög til húsfriðunar en Húsafriðunarsjóðs bíða mörg brýn verkefni. Húsafriðunarsjóður skapar vinnu og þau hús, sem hann styrkir viðgerðir á, vekja áhuga ferðamanna auk þess sem verið er að bjarga menningarverðmætum. Það er því mikilvægt að hann njóti stuðnings og má benda á það hlutverk sem hann getur gegnt í atvinnusköpun á erfiðum tímum.
    Í þriðja lagi eru framlög til Ferðamálasjóðs skert þegar brýnna er en nokkru sinni að vinna að uppbyggingu í ferðaþjónustu. Þess í stað er sjóðurinn skorinn niður og skattar lagðir á hluta ferðaþjónustu sem er einn fárra vaxtarbrodda í íslensku atvinnulífi.
    Í fjórða lagi ber að nefna þá undarlegu stefnu sem beitt er gagnvart Vegagerðinni. Annars vegar er samið við verkalýðshreyfinguna um aukin framlög til verklegra framkvæmda, þar með talið vegagerðar sem fjármagnaðar eru með stórfelldum lántökum, hins vegar eru svo lögbundin framlög til stofnunarinnar hirt í ríkissjóð. Þetta eru furðuleg vinnubrögð sem vekja enn spurningar um það hvernig framkvæmdarvaldið umgengst landslög.
    Í fimmta lagi ber svo að nefna þá merkilegu stefnumörkun sem felst í því ákvæði að Ríkissjóður taki ekki þátt í að greiða kostnað við leit að áður óþekktum tófugrenjum!

Niðurstaða.
    Það er niðurstaða minni hlutans að þau niðurskurðaráform, sem gert er ráð fyrir í frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum, séu þess efnis að ekki sé hægt að fallast á þau þar sem þau fela í sér aukinn sjúklingaskatt, vanefndir á framkvæmd grunnskólalaganna, skólagjöld og lækkun ekkjulífeyris.

Alþingi, 18. des. 1993.



Kristín Ástgeirsdóttir,

Halldór Ásgrímsson.

Steingrímur J. Sigfússon.


frsm.



Jóhannes Geir Sigurgeirsson.