Ferill 341. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 341 . mál.


701. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Frá 3. minni hluta landbúnaðarnefndar.



    Þriðji minni hluti landbúnaðarnefndar leggur áherslu á að það er algjörlega óviðunandi fyrir íslenskan landbúnað að búa við það óvissuástand varðandi framtíð sína sem nú ríkir. Allt frá síðasta vori hafa staðið yfir stöðugar deilur innan ríkisstjórnarinnar um innflutningsmál búvara. Þær hafa meira að segja gengið svo langt að einstakir ráðherrar hafa hvatt fyrirtæki til þess að fara í mál við ríkisstjórnina til þess að hnekkja ákvörðunum annarra ráðherra. Hjá öllu þessu hefði verið hægt að komast ef breytingartillaga landbúnaðarnefndar frá því í fyrravor hefði verið samþykkt (sjá fskj. I og II). En ljóst var að fyrir henni var mikill meiri hluti á Alþingi. Forsætisráðherra kaus hins vegar að slíta þingi áður en kom til atkvæðagreiðslu um málið.
    Það var síðan ekki fyrr en tveimur dögum fyrir jólaleyfi þingmanna sem ríkisstjórnin lagði fram frumvarp til breytinga á búvörulögunum til þess að taka á innflutningsmálunum. Það frumvarp byggði á málamiðlun stjórnarflokkanna þess efnis að það tæki eingöngu á innflutningsheimildum vegna EES og annarra viðskiptasamninga sem Íslendingar hafa gert fram að þessu. Ákvæði um það hvernig við beittum tollaígildum samkvæmt GATT ættu hins vegar að bíða og var það mál sett í nefnd fimm ráðuneyta sem áttu að starfa undir forustu forsætisráðuneytisins. Þetta samkomulag fæst staðfest með því að lesa ræður landbúnaðar- og utanríkisráðherra við umræður um málið (sjá fskj. III). Við meðferð málsins mátti ekki breyta stafkrók frá frumvarpinu og var það keyrt í gegn óbreytt, enda kom í ljós að eftir að búið var að samþykkja lögin mátti túlka þau út og suður og meira að segja óljóst að þau stæðust stjórnarskrána. Þar var einnig lögfest að ríkisstjórnin skyldi ræða saman um málið og mun það vera afar fátítt í íslenskri löggjöf.
    Það kom síðan í ljós með dómi Hæstaréttar í „skinkumálinu“ að löggjöfin frá því í desember hélt ekki. Þá hófst enn á ný deila milli stjórnarflokkanna um málið. Á endanum var þó lagt fram frumvarp sem þá þegar var ljóst að þarfnaðist mikilla breytinga. Þær breytingar voru tvíþættar, annars vegar tæknilegar þar sem ljóst var að margt í frumvarpinu orkaði tvímælis hvað það snerti, m.a. spurningin um það hvort viðaukar við lagafrumvarp hafi sjálfstætt lagagildi. Landbúnaðarnefnd kallaði því til liðs við sig þrjá virta lögfræðinga. Þeim var falið að gera nauðsynlegar tæknilegar breytingar á frumvarpinu auk þess að setja inn í lagatextann ákvæði sem tryggðu að hægt væri að framfylgja ákvæðum GATT-samkomulagsins eftir þeim lögum sem samþykkt yrðu.
    Lögfræðingarnir lögðu fyrir nefndina drög að breytingartillögum og nefndaráliti þar sem greinilega kemur fram að ætlunin var að breytingarnar tækju einnig til GATT (fskj. IV). Þessar tillögur voru síðan unnar frekar og á þeirri útfærslu byggir breytingartillaga 3. minni hluta. Þar var eins og áður segir kveðið enn fastar á um að þessi breyting á lögum gæti staðist eftir að Úrúgvælota GATT kæmi til framkvæmda.
    Það er skemmst frá því að segja að Alþýðuflokkurinn taldi samþykkt málsins í þessu formi stjórnarslitamál. Sjálfstæðisflokkurinn varð því að bakka og galt þar samkomulagsins frá því í desember þar sem stjórnarflokkarnir sömdu um að úrlausn GATT-málsins yrði látin bíða og að áfram ríkti sú óvissa varðandi það mál sem verið hefur. Enda eru stjórnarflokkarnir nú þegar farnir að túlka málið á mismunandi hátt.
    Þriðji minni hluti getur því ekki stutt þær breytingartillögur sem formaður nefndarinnar kynnti sem endanlegar í vinnu málsins. Þar eru öll ákvæði sem varða GATT tekin út og auk þess er heimild landbúnaðarráðherra til verðjöfnunar samkvæmt viðaukunum gerð óljósari og býður það upp á stöðugan ágreining um málið.
    Þriðji minni hluti leggur áherslu á að samkvæmt þeirri tillögu, sem hann leggur fram, er ekki verið að leggja til nýjar og auknar álögur á innflutning sem nú þegar á sér stað. Hann bendir í því sambandi á að innlendar búvörur hafa lækkað í verði á síðustu árum langt umfram verðlagsþróun. Þriðji minni hluti leggur áherslu á að hér er fyrst og fremst verið að búa til stjórntæki fyrir landbúnaðinn til þess að vinna eftir á miklum breytingatímum. Ríkisstjórnin hefur sýnt að hún er algjörlega ófær um að taka á þessu máli og er það til stórtjóns fyrir íslenskan landbúnað og um leið íslenskt þjóðfélag.
    Þriðji minni hluti leggur fram sem sínar tillögur nr. tvö sem lögfræðilegir ráðunautar nefndarinnar sömdu. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar lýstu því yfir þegar þær komu fram að þeir gætu eftir atvikum sætt sig við frumvarpið að þessum breytingum gerðum. Þær eru að vísu nokkuð langt frá þeim almennu heimildum til handa landbúnaðarráðherra til að leggja á verðjöfnunargjöld sem lagðar voru til á síðasta vori. Þriðji minni hluti telur engu að síður að frumvarpið í þessari mynd gæti verið málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða og stuðlað að sátt um að búa landbúnaðinum viðunandi starfsskilyrði við þær miklu breytingar sem eru fram undan.
    Þriðji minni hluti er samþykkur og mun styðja 1. og 2. breytingartillögu 1. minni hluta en 1. breytingartillagan felst í því að lagt er til að forræði landbúnaðarráðherra yfir innflutningi sé orðað á almennan hátt þannig að greinin geti staðið óbreytt eftir þær miklu breytingar sem verða með gildistöku Úrúgvælotu GATT viðræðnanna. Jafnframt styður 3. minni hluti tillögur 1. minni hluta um viðauka I og II við frumvarpið.
    Þriðji minni hluti leggur fram breytingartillögu við 72. gr. laganna (ný grein í frumvarpinu) þar sem gerð er tilraun til þess að skilgreina hvaða vörur landbúnaðarráðherra getur lagt á jöfnunargjöld til viðbótar þeim sem getið er í viðauka I í 52. gr. Það er gert með viðauka II við 72. gr. Með þessu er gerð tilraun til þess að lista endanlega upp hvaða vörur teljast landbúnaðarvörur samkvæmt frumvarpi þessu. Þá er einnig lögð til sú breyting við greinina að getið er um hvaða viðmiðanir á að nota við verðjöfnun, bæði innlendar og erlendar. Þar eru meðal annars nefnd þau viðmiðunarverð sem notuð voru við umreikning innflutningstakmarkana samkvæmt ákvæðum hins almennna samkomulags um tolla og viðskipti (GATT) og bókunum og viðaukum við það. Þar með eru tekin af öll tvímæli um það að eftir þessa breytingu er hægt að beita tollígildum samkvæmt GATT eftir þessum lögum.
    Þá leggur 3. minni hluti til að úr 72. gr. sé fellt ákvæði um hvernig samstarfsnefnd um álagningu jöfnunargjalda eigi að vinna og ákvæði um málsmeðferð í ríkisstjórn ef nefndin nær ekki samkomulagi. Þriðji minni hluti telur hins vegar eðlilegt að til staðar sé samstarfsnefnd landbúnaðar-, fjármála- og viðskiptaráðuneyta um málið og að hún sé ráðherra til ráðuneytis enda skerðir það ekkert forræði landbúnaðarráðherra yfir málinu.

Alþingi, 9. mars 1994.



Jóhannes Geir Sigurgeirsson,

Steingrímur J. Sigfússon.

Kristín Ástgeirsdóttir.


frsm.



Guðni Ágústsson.





Fylgiskjal I.


Frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu


og sölu á búvörum, nr. 46 27. júní 1985, með síðari breytingum.


(504. mál 116. löggjafarþings.)



1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á e-lið 30. gr. laganna:
    Fyrri málsliður 1. mgr. orðast svo: heimilt að innheimta sérstakt jöfnunargjald af innfluttum kartöflum og vörum unnum úr þeim, enda sé slíkt ekki óheimilt samkvæmt ákvæðum í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að.
    Eftirfarandi orð í 1. tölul. falla brott: „þegar það er ákveðið skv. 13.–15. gr. á innlendri framleiðslu“.
    Eftirfarandi orð í 2. tölul. falla brott: „sé heildsöluverð viðkomandi framleiðsluvöru hér á landi ekki ákveðið skv. 13.–15. gr.“.

2. gr.


    55. gr. laganna orðast svo:
     Innflutningur á búvörum, unnum sem óunnum, og tilsvarandi vörum er háður samþykki landbúnaðarráðherra. Hann skal leita umsagnar Framleiðsluráðs landbúnaðarins um hvort innlend framleiðsla fullnægi neysluþörfinni nema þegar um er að ræða innflutning á kartöflum, nýju grænmeti, sveppum og blómum. Ráðherra skal þá leita álits nefndar sem skipuð er tveimur fulltrúum framleiðenda tilnefndum af samtökum þeirra, tveimur fulltrúum innflytjenda þessara vörutegunda tilnefndum af viðskiptaráðherra og oddamanni tilnefndum af landbúnaðarráðherra. Skal nefndin láta ráðherra í té rökstutt álit um hvort innflutnings sé þörf og hve mikils. Ráðherra getur að fengnu áliti nefndarinnar ákveðið að innflutningur þessara vara skuli tímabundið vera undanþeginn leyfisveitingu. Innflutningur garðyrkjuafurða skal því aðeins leyfður að innlend framleiðsla fullnægi ekki eftirspurn.
     Ráðherra getur þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. heimilað innflutning í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Jafnframt látið að öðru leyti koma til framkvæmda ákvæði í slíkum samningum, bókunum og viðaukum sem teljast óaðskiljanlegur hluti þeirra, svo og breytingar sem kunna að verða gerðar á slíkum samningum og bókunum og viðaukum við þá.
     Áður en ákvarðanir eru teknar um útflutning landbúnaðarvara skulu aðilar, sem með þau mál fara, leita álits og tillagna Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

3. gr.


    56. gr. laganna fellur brott.

4. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við frumvarpið voru svohljóðandi:
    Frumvarp þetta er lagt fram í tengslum við frumvarp um aðild Íslands að samningi um Evrópska efnahagssvæðið, sjá nánar 2. kafla II. hluta samningsins.
     1. gr. frumvarpsins fjallar um álagningu og innheimtu sérstaks jöfnunargjalds af innfluttum kartöflum og vörum unnum úr þeim. Vissir vöruflokkar, sem greinin tekur til, falla undir bókun 3 með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ákvæði a-liðar er sett til að samræma lögin þeirri bókun. Felld eru brott skilyrði úr gildandi lögum sem valda því að einungis er hægt að beita til jöfnunar verðtolli sem má nema allt að 200% sé heildsöluverð ekki ákveðið af fimmmannanefnd samkvæmt ákvæðum 13.–15. gr. laganna. Við þessa breytingu verður unnt að leggja á jöfnunargjald sem krónutölu eða sem verðtoll. Álagning jöfnunargjalda mun ekki hækka við þessa breytingu.
     Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að efni 55. gr. og 56. gr. laga nr. 46/1985, með síðari breytingum, sé sameinað í eina grein.
     Ákvæði 1. mgr. fjallar almennt um innflutning búvara og vara sem unnar eru úr þeim. Landbúnaðarráðherra er falið forræði þessara mála, en „hann skal leita umsagnar Framleiðsluráðs landbúnaðarins um hvort innlend framleiðsla fullnægi neysluþörfinni“.
     Í gildandi lögum segir um þetta efni: „Áður en ákvarðanir eru teknar um inn- og útflutning landbúnaðarvara skulu aðilar, sem með þau mál fara, leita álits og tillagna Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Innflutningur landbúnaðarvara skal því aðeins leyfður að Framleiðsluráð staðfesti að innlend framleiðsla fullnægi ekki neysluþörfinni.“
     Eftir gildistöku laga nr. 88 17. nóvember 1992, um innflutning, er nauðsynlegt að skilgreina upp á nýtt forræði fyrir innflutningi búvara.
     Ákvæði í 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins um innflutning garðyrkjuafurða eru efnislega samhljóða 56. gr. gildandi laga. Þó er gerð sú breyting að í stað meðmæla er nægilegt að álit innflutningsnefndar liggi fyrir. Rétt þykir að endanlegt ákvörðunarvald á þessu sviði sé hjá ráðherra.
     Í 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins er landbúnaðarráðherra heimilað að leyfa innflutning í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum. Þetta ákvæði er nýmæli og er fyrst og fremst tekið mið af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, en er jafnframt nauðsynlegt til að unnt sé að uppfylla fríverslunarsamninga sem búið er að gera eða unnið er að. Hér er farin sama leið og í 6. gr. tollalaga, nr. 55/1987, og í frumvarpi til breytinga á þeim lögum sem liggur fyrir Alþingi.

Fylgiskjal II.


Breytingartillaga við frv. til l. um breyt. á l. um framleiðslu, verðlagningu


og sölu á búvörum, nr. 46/1985, með síðari breytingum.


(504. mál 116. löggjafarþings.)


Frá meiri hluta landbúnaðarnefndar


(EgJ, ÖS, ÁRÁ, EKG, EH, JGS, GÁ).



    Við 2. gr. Greinin orðist svo:
    Innflutningur á búvörum, unnum sem óunnum og tilsvarandi vörum, sem jafnframt eru framleiddar hér á landi, er háður samþykki landbúnaðarráðherra. Hið sama gildir um vörulíki þessara vara. Ráðherra skal leita umsagnar Framleiðsluráðs landbúnaðarins um hvort innlend framleiðsla fullnægi neysluþörfinni nema þegar um er að ræða innflutning á kartöflum, nýju grænmeti, sveppum og blómum. Ráðherra skal þá leita umsagnar nefndar sem skipuð er tveimur fulltrúum framleiðenda, tilnefndum af samtökum þeirra, tveimur fulltrúum innflytjenda þessara vörutegunda, tilnefndum af viðskiptaráðherra, og oddamanni, tilnefndum af landbúnaðarráðherra. Skal nefndin láta ráðherra í té rökstudda umsögn um hvort innflutnings sé þörf og hve mikils. Ráðherra getur að fenginni umsögn nefndarinnar ákveðið að innflutningur þessara vara skuli tímabundið vera undanþeginn leyfisveitingu og skal þá kveða á um leyfilegan sölutíma varanna. Sama gildir um aðrar vörur sem greinin tekur til, að fenginni umsögn Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Innflutningur garðyrkjuafurða skal því aðeins leyfður að innlend framleiðsla fullnægi ekki eftirspurn.
    Ráðherra getur, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., heimilað innflutning í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að, enda sé verðjöfnunargjöldum beitt í samræmi við heimildir í milliríkjasamningum. Jafnframt getur ráðherra látið að öðru leyti koma til framkvæmda ákvæði í slíkum samningum, bókunum og viðaukum sem teljast óaðskiljanlegur hluti þeirra. Samráð skal haft milli fjármálaráðuneytisins og landbúnaðarráðuneytisins um framkvæmd verðjöfnunar, þannig að ekki verði raskað samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu landbúnaðarvara og vara sem unnar eru úr hráefnum úr landbúnaði, innan þeirra marka sem áðurgreindir samningar setja.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um til hvaða vara og vörulíkja ákvæði 1. og 2. mgr. tekur, þar með talið hlutfall hráefna í unnum vörum.
    Ráðherra ákveður með reglugerð af hvaða hráefni úr landbúnaði skuli vera heimilt að endurgreiða verðjöfnunargjald við útflutning og hver endurgreiðslufjárhæðin skal vera.


Fylgiskjal III.




Framsöguræða landbúnaðarráðherra, Halldórs Blöndal, um


stjórnarfrumvarp um framleiðslu og sölu á búvörum, mál 298.


(17. desember 1993.)



    Hæstv. forseti. Eins og áður hefur komið fram þá hefur það legið fyrir að óhjákvæmilegt væri að breyta búvörulögunum til samræmis við þá milliríkjasamninga sem við Íslendingar höfum nú staðið að, m.a. vegna hins Evrópska efnahagssvæðis og raunar við fleiri þjóðir. Eins og segir í athugasemdum við lagafrv. er það lagt fram í tengslum við aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu og fríverslunarsamninga sem Ísland hefur gert og varða m.a. verslun með landbúnaðarafurðir. Þar eð ekki liggur endanlega fyrir hvaða lagabreytingar eru nauðsynlegar til að geta uppfyllt þær skuldbindingar sem felast í væntanlegum GATT-samningi var ákveðið að frekari endurskoðun á innflutningsákvæðum búvörulaganna eigi sér stað á árinu 1994 með hliðsjón af þeim samningi.
    Í 1. gr. frv. segir að landbrh. veiti heimild til innflutnings í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum. Það er óhjákvæmilegt að slík heimild komi inn í lögin þar sem búvörulögin eru afdráttarlaus um það að innflutningur landbúnaðarvara skuli því aðeins leyfður að Framleiðsluráð staðfesti að innlend framleiðsla fullnægi ekki eftirspurninni. Orðalag 1. mgr. vísar sérstaklega til þess, eins og þingmenn geta áttað sig á, að óhjákvæmilegt er að veita landbrh. heimild til leyfisveitingar af þeim sökum.
    Þá er kveðið á um að ráðherra skuli við innflutning landbúnaðarvara vera heimilt að leggja á þann innflutning verðjöfnunargjöld sem nauðsynleg eru til að jafna samkeppnisstöðu innlendra og innfluttra vara og skuli ráðherra ákveða með reglugerð á hvaða landbúnaðarvörur, þar með taldar unnar vörur sem innihalda landbúnaðarhráefni og sem jafnframt eru framleiddar hér á landi, skuli leggja verðjöfnunargjöld við innflutning.
    Það er ljóst samkvæmt þessum orðum lagatextans að hér er bæði fjallað um unnar og óunnar innfluttar búvörur. Það er skýrt tekið fram í greinargerð og er þessi texti alveg afdráttarlaus í þeim efnum.
    Ef við veltum fyrir okkur samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þá er þar verið að tala um smjörlíki með 10–15% mjólkurfitu m.a. svo og jógúrt og raunar allar unnar búvörur sem fluttar eru til landsins og falla undir búvörulögin.
    Í þessari málsgrein er jafnframt kveðið á um að ráðherra skuli ákveða upphæð gjaldanna. Það er skilgreint að þau skuli miðast við þátt landbúnaðarhráefna í verði þeirra eins og samningurinn segir til um og skuli ráðherra hafa sér til ráðuneytis nefnd þriggja manna, einn skipaðan án tilnefningar, annan tilnefndan af fjmrh. og hinn þriðja tilnefndan af viðskrh. Þessi nefnd er að sjálfsögðu vinnunefnd. Hún er skipuð til að tryggja góð vinnubrögð og til að tryggja það að gott samstarf verði milli þessara ráðuneyta um framkvæmd samninganna og framkvæmd laganna og er ekki einsdæmi. Það er t.d. svo í 42. gr. búvörulaganna samkvæmt Lagasafni, ég man nú ekki hvort númerið hefur breyst síðan þetta lagasafn frá 1990 kom upp, það er eins og mig rámi í það, en þar er fjallað um innflutning á grænmeti. Þar er einnig kosið að fulltrúar viðskrn. komi að ákvörðunum um heimildir til innflutnings með fulltrúum framleiðenda og oddamanni sem skipaður er af landbrh. Samstarf á milli viðskrn. og landbrn. er því síður en svo nýtt í þessum efnum og hefur raunar einnig tíðkast t.d. í sambandi við niðurgreiðslur á meðan þær voru við lýði.
    Þar sem þessi framkvæmd reynir mjög á það að eftirlit með innflutningi og framkvæmd laganna sé með góðum hætti er jafnframt talið nauðsynlegt að fjmrh. eigi sinn fulltrúa í þessari nefnd. Á hinn bóginn er afdráttarlaust að forræðið er í höndum landbrh. sem er auðvitað kjarni málsins og í samræmi við það sem talað var um þegar þessi mál voru hér til umfjöllunar á síðasta vetri og kom m.a. skýrt fram í málflutningi og nefndarálitum bæði utanrmn. og landbn. Ég hygg því að þessi lagagrein, eins og hún er hér orðuð, eigi að tryggja það að hægt sé að framkvæma samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og aðra hliðstæða samninga í fullkomnu öryggi og gagnkvæmum trúnaði milli aðila sem er auðvitað mjög þýðingarmikið þegar við erum að takast á við verkefni eins og þetta sem raunar markar þáttaskil í verslunarsögu okkar Íslendinga.
    Það má vera að hv. þm. kunni að gagnrýna að frv. skuli ekki taka á þeim atriðum sem lúta að væntanlegum GATT-samningi. Skýringin er auðvitað sú að þeir samningar í einstökum atriðum liggja ekki endanlega fyrir enda þurfa þeir meiri undirbúning en svo að unnt hafi verið að setja saman fullnægjandi lagagreinar um þau efni nú fyrir jólin. Ég hygg að örugg framkvæmd þeirra samninga jafnviðurhlutamiklir og þeir eru fyrir íslenskt atvinnulíf þurfi nánari skoðunar við.
    Þá er gefin heimild til að endurgreiða verðjöfnunargjöld við útflutning á vörum sem innihalda landbúnaðarhráefni. Ráðherra ákveður með reglugerð þær vörur sem verðjöfnun tekur til og hver endurgreiðslan skuli vera. Útfærsla á þessari grein liggur ekki fyrir en það verður þegar í stað hafist handa um að vinna að henni. Það er nauðsynlegt að þetta frv. fái afgreiðslu nú fyrir jól til að hægt sé að vinda sér í það að tryggja góðan undirbúning að gildistöku samninganna og tryggja það að framkvæmd þeirra fari vel fram og sé í samræmi við þær gagnkvæmu skyldur sem við Íslendingar höfum gert með þeim fríverslunarsamningum sem við höfum nú staðið að.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og landbn. Ég vil þakka formanni landbn. og raunar nefndinni allri fyrir að hafa komið saman í kvöldmatarhléi til að fara yfir frv. og kynna sér einstök efnisatriði þess til að þau geti legið ljós fyrir við 1. umr. málsins. En ég ítreka, eins og ég sagði áðan, að í einstökum atriðum er orðalagið skýrt. Það kveður á um þau atriði sem þaulrædd voru hér á sl. vetri og eiga að tryggja traust á þeirri framkvæmd sem fríverslunarsamningarnir fela í sér.            


Ræða utanríkisráðherra, Jóns Baldvins Hannibalssonar,


við 2. umræðu málsins.


(20. desember 1993.)



    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að lýsa mikilli ánægju minni með það samkomulag milli stjórnarflokkanna sem býr að baki þessu litla frv. og jafnframt er að gefnu tilefni sjálfsagt að verða við því að skýra örlítið nánar meginatriðin í þessu samkomulagi. Þau lúta að þrennu:
    1. Taka af tvímæli um heimildir stjórnvalda til þess að efna milliríkjasamninga sem Ísland hefur skuldbundið sig að.
    2. Að setja á laggirnar starfshóp skipaðan fulltrúum fimm ráðuneyta til þess að ljúka endurskoðun á innflutningslöggjöfinni með það að markmiði að hún samræmist GATT-skuldbindingum okkar.
    3. Að afla ótvíræðrar heimildar til álagningar verðjöfnunargjalda þegar það á við og kveða á um fyrirkomulag og vistun þeirra.
    Þetta eru þau þrjú meginatriði sem hið pólitíska samkomulag snerist um.
    Fyrsta atriðið, að taka af tvímæli um að íslensk stjórnvöld geti efnt skuldbindingar milliríkjasamninga, snýst um eftirtalda samninga: Í fyrsta lagi tvíhliða samning við Evrópubandalagið um sérstakt fyrirkomulag í landbúnaði. Sá samningur kveður á um tímabundinn tollfrjálsan innflutning á fáeinum tegundum af blómum og grænmeti. Í annan stað er hér um að ræða bókun 3 svokallaða við EES-samninginn. EES-samningurinn fjallar ekki um landbúnaðarmál sem kunnugt er. Bókun 3 fjallar um takmarkað vörusvið fáeinna, unninna landbúnaðarafurða og um þann innflutning þegar bókun 3 hefur tekið gildi síðar á þessu ári gildir það að þá gilda reglur samningsins um álagningu verðjöfnunargjalda sem er einfalt reikningsdæmi. Það er heimild til þess að vega upp mun á innflutningsverði, þ.e. skilgreindu heimsmarkaðsverði og innlendu heildsöluverði, þannig að verðjöfnunargjaldaákvörðunin er einfalt reikningsdæmi, bæði að því er varðar vörusvið og upphæð gjaldanna og skiptir því ekki miklu máli hvar er vistað. Í þriðja lagi höfum við gert tvíhliða samninga við allmörg önnur ríki, Mið- og Austur-Evrópuríki og fleiri ríki, þar sem kveðið er á um heimildir til innflutnings á landbúnaðarvörum en þær eru í öllum tilvikum vörur sem ekki eru framleiddar hér á landi og gefa því ekki tilefni til verðjöfnunar. Það er fagnaðarefni að þessi deilumál eru leyst og sú hætta er úr sögunni að við getum ekki efnt þessa samninga.
    Mál nr. tvö varðar endurskoðun á innflutningslöggjöfinni. Ríkisstjórnin hafði fyrr á þessu hausti skipað nefnd fjögurra ráðuneyta sem fór yfir innflutningslöggjöfina og hefur skilað áfangaskýrslu. Þar eru taldir upp þeir lagabálkar og bent á þau lagaákvæði sem þarfnast endurskoðunar til þess að staðið verði við GATT-skuldbindingar. Þetta er auðvitað stærsta málið vegna þess að það er þetta sem skiptir sköpum og veldur tímamótum og er í beinu framhaldi af því samkomulagi sem tekist hefur um GATT-aðild Íslands. Aðalatriðið er það að framvegis mun landbúnaðarstefnan ekki byggjast á banni heldur heimild til frjálsra viðskipta samkvæmt nánari samkeppnisreglum sem gilda á vegum GATT.
    Samkomulagið felst í því að þessi nefnd mun ljúka störfum og hún verður undir forsæti fulltrúa forsrh. Æskilegt væri að þessu verki væri lokið þegar við þurfum að gera grein fyrir því innan GATT með hvaða hætti við stöndum við þær skuldbindingar þótt GATT-samningurinn sjálfur taki ekki gildi fyrr en um áramótin 1994/1995.
    Þriðja atriðið varðar verðjöfnunargjöld. Þar þurfti að taka ákvarðanir um að það væru ótvíræðar lagaheimildir um það að leggja á verðjöfnunargjöld og einnig fyrirkomulag og vistun. Það segir sig sjálft að verðjöfnunargjöld eru lögð á vörur í innflutningi ef um er að ræða innlenda framleiðslu sömu vara. Ef um er að ræða innflutning á vörum, sem ekki eru framleiddar innan lands, er ekkert upp að jafna.
    Að því er varðar EES-samninginn, þá er það svo samkvæmt bókun 3, að þarna er um að ræða takmarkað vörusvið unninna afurða og þá ber í því tilviki að leggja á verðjöfnunargjöld. Í þessu frv. er kveðið upp úr um það að forræðið yfir því skuli vera vistað hjá landbrn. Jafnframt skal hann hafa sér til ráðuneytis nefnd þriggja ráðuneyta sem koma að málinu, fjmrn. fyrir hönd ríkissjóðs og viðskrn. vegna almennra neytendasjónarmiða. Þetta ákvæði sem spurt er um, náist ekki samkomulag í nefndinni skal ráðherra bera málið undir ríkisstjórn áður en ákvörðun er tekin um upphæð verðjöfnunargjalda, er einungis til staðfestingar þeim sameiginlega pólitíska ásetningi stjórnarflokkanna að mál skuli leyst, ef þess er kostur, með samkomulagi. Ég tek það fram að ég tel litlar líkur á því að það sé nokkurt tilefni til deilu um álagningu verðjöfnunargjalda að því er varðar EES-samninginn vegna þess að vörusviðið er skilgreint og reikningsdæmið liggur fyrir. ( Gripið fram í: Liggur það fyrir?) Reikningsdæmið liggur fyrir að því er það varðar að það eru almennar skýrar reglur í EES-samningnum sjálfum hvernig skuli leggja á verðjöfnunargjöld. Það á að brúa bilið milli skilgreinds heimsmarkaðsverðs og innlends heildsöluverðs, það eru verðjöfnunargjöldin, einungis í þeim tilvikum þegar um er að ræða innflutning á unninni vöru sem er í samkeppni við innlenda framleiðslu.
    Þar með höfum við leyst þau útistandandi deilumál sem oft hafa orðið að ágreiningsefni í íslenskum stjórnmálum á undanförnum árum og ég lýsi því yfir fyrir mína hönd og míns flokks að það er okkur mikið ánægjuefni. Menn mega ekki rugla þessu saman við GATT-tilboðið um tollígildi. Það var einfaldlega reikningsdæmi líka sem fólst í því að þegar í upphafi skal innlendur landbúnaður hafa óbreytta samkeppnisstöðu þannig að tollígildin voru reiknuð sem munurinn milli heimsmarkaðsverðs og innlends heildsöluverðs. Þess skal hins vegar getið að tollígildi eru heimildarákvæði, þannig að það er hverju landi í sjálfsvald sett hvort þeim er beitt að fullu eða ekki og fer það að sjálfsögðu eftir því hvaða stefnu stjórnvöld móta að því er varðar verðmyndun.
    Mér er tjáð að hér hafi orðið allmiklar umræður á undanförnum dögum um verðlagsáhrif lækkunar virðisaukaskatts á matvæli. Sú tillaga er væntanlega fram komin af þeirri ósk að menn vilja hafa áhrif á verðlag landbúnaðarvara eða matvæla til lækkunar og það geta stjórnvöld samkvæmt þessu haft. Oft hefur verið um það talað og menn verið sammála um það að nauðsynlegt væri að reyna að færa verðlag lífsnauðsynja og matvæla hér á landi niður á við til samræmis við það sem tíðkast með öðrum löndum.
    Loks er þess að geta að um það er pólitískt samkomulag í ríkisstjórninni að því er varðar GATT-málið og markaðsaðgang og þá vöruflokka sem fluttir hafa verið inn hingað til á viðmiðunarárunum, tollfrjáls og hindrunarlaust, þá verður tollígildum ekki beitt á þann innflutning.
    Virðulegi forseti. Ég tel að þetta séu aðalatriði þessa máls. Ég tek undir bæði með hv. formanni landbn. og hæstv. landbrh. að að baki þessum hugmyndum er pólitískt samkomulag. Ég endurtek að mér er það mikið ánægjuefni og ég lít svo á að með því sé að baki í reynd ágreiningsmál sem oft hefur dregið menn mjög í dilka. Með öðrum orðum, við höfum stigið skref fram á við til að aðlaga innflutningslöggjöfina og þar með talið landbúnaðarlöggjöfina að nútímaviðskiptaháttum og ætti það að vera öllum hv. þingmönnum fagnaðarefni.

Fylgiskjal IV.


Upphafleg breytingartillaga EgJ við frumvarp til laga um


breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu


og sölu á búvörum, með síðari breytingum.



    Við 1. gr. Greinin orðist svo:
                  52. gr. orðist svo:
                  Innflutningur á þeim vörum, sem tilgreindar eru í viðauka með lögum þessum og flokkast í þar til greind tollskrárnúmer, er óheimill nema að fengnu leyfi landbúnaðarráðherra. Ráðherra getur í reglugerð, sem hann setur um nánari framkvæmd leyfisveitinga, ákveðið að innflutningur þessara vara skuli tímabundið vera frjáls.
                  Viðauki með lögum þessum skal hafa lagagildi. Verði gerðar breytingar á flokkun vara í tollskrárnúmerum samkvæmt honum skal innflutningur á vörum í þeim undirflokkum, sem þannig verða til, einnig vera háður leyfi landbúnaðarráðherra.
                  Áður en ákvarðanir eru teknar um innflutning samkvæmt þessari grein skal leita álits og tillagna framleiðsluráðs landbúnaðarins.
    Við frumvarpið bætist ný grein, 2. gr., svohljóðandi, en 2. gr. þess verði 4. gr.:
                  4. mgr. 53. gr. orðist svo:
                  Ráðherra getur þrátt fyrir ákvæði þessarar greinar heimilað innflutning á þeim vörum, sem greinin tekur til, í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að.
    Við frumvarpið bætist ný grein, 3. gr., svohljóðandi:
                  72. gr. orðist svo:
                  Landbúnaðarráðherra er heimilt til að jafna samkeppnisstöðu innlendra og innfluttra vara að leggja verðjöfnunargjöld á innfluttar landbúnaðarvörur, enda séu þær vörur eða tilsvarandi vörur framleiddar hér á landi. Verðjöfnun á unnum samsettum vörum miðast við þátt landbúnaðarhráefna í verði þeirra. Með landbúnaðarvörum í grein þessari er átt við (ath. nánar).
                  Verðjöfnunargjöld samkvæmt þessari grein skulu innheimt af tollverði við tollafgreiðslu og renna í ríkissjóð.
                  Fjárhæð verðjöfnunargjalds má að hámarki vera mismunur annars vegar á innlendu verði vörunnar, sem ákveðið er samkvæmt IV. kafla laga þessara, en annars í samræmi við reglur 6. gr. laga nr. 97/1987, um vörugjöld, og hins vegar heimsmarkaðsverði viðkomandi vöru sem lagt er til grundvallar við framkvæmd þeirra fríverslunar- og milliríkjasamninga sem Ísland er aðili að, en taki samningar þessir ekki til hinnar innfluttu vöru skal hið erlenda viðmiðunarverð ákveðið eftir hliðstæðum reglum og gilda samkvæmt áðurgreindum fríverslunar- og milliríkjasamningum. Jafnan skal miða við verð vöru á sama sölustigi. Verðjöfnunargjöld má leggja á sem krónutölu á magneiningu eða sem hlutfallslegt gjald.
                  Landbúnaðarráðherra er heimilt í samræmi við milliríkja- eða fríverslunarsamninga, sem Ísland er aðili að, að leggja á innfluttar landbúnaðarvörur og unnar vörur, sem innihald á landbúnaðarhráefni, sérstakt verðjöfnunarálag umfram þá heimild, sem leiðir af 3. mgr., og mega þau vera allt að 50% ofan á gjöld skv. 3. mgr.
                  Ráðherra ákveður álagningu gjalda samkvæmt þessari grein í reglugerð. Við ákvörðun verðjöfnunargjalda skal ráðherra hafa sér til ráðuneytis nefnd þriggja manna. Skal einn skipaður án tilnefningar, annar af fjármálaráðherra og hinn þriðji af viðskiptaráðherra. Nefndin skal afla upplýsinga um verð sem álagning gjaldanna miðist við en jafnframt tryggja nauðsynlegt samráð milli ráðuneyta þannig að þess sé gætt að samanlögð álagning innflutningsgjalda sé innan þeirra marka sem skilgreind eru í lögum eða milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Náist ekki samkomulag í nefndinni skal ráðherra bera málið undir ríkisstjórn áður en ákvörðun er tekin um upphæð verðjöfnunargjalda.
                  Að því leyti sem eigi er ákveðið í lögum þessum eða reglugerð eða öðrum fyrirmælum settum samkvæmt lögum þessum um ákvörðun tollverðs, vöruflokkun, gjalddaga, innheimtu, lögvernd verðjöfnunargjalda, refsingar og aðra framkvæmd varðandi verðjöfnunargjöld skulu gilda eftir því sem við geta átt ákvæði tollalaga, nr. 55 30. mars 1987, með síðari breytingum.
                  Heimild landbúnaðarráðherra samkvæmt þessari grein skal koma í stað heimildar fjármálaráðherra skv. 120. gr. A í tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum, að því er varðar þær vörur sem grein þessi tekur til.

          Kostur A:
                  1. mgr. 72. gr. orðist svo:
                  Landbúnaðarráðherra er heimilt til að jafna samkeppnisstöðu innlendra og innfluttra vara að leggja verðjöfnunargjöld á innfluttar landbúnaðarvörur, enda séu þær vörur eða tilsvarandi vörur framleiddar hér á landi. Verðjöfnun á unnum samsettum vörum miðast við þátt landbúnaðarhráefna í verði þeirra. Með landbúnaðarvörum í grein þessari er átt við vörur sem falla undir kafla 1–2, 4, 6–7, 15–16, 19 til og með 21 og 23 auk undirliðar 2002.90 úr kafla 22 í tollskrá.

          Kostur B:
                  1. mgr. 72. gr. orðist svo:
                  Landbúnaðarráðherra er heimilt til að jafna samkeppnisstöðu innlendra og innfluttra vara að leggja verðjöfnunargjöld á:
        a)    Vörur, sem hann heimilar innflutning á samkvæmt ákvæðum þessara laga.
        b)    Innfluttar unnar, samsettar vörur, sem jafnframt eru framleiddar hér á landi og innihalda hráefni úr landbúnaðarvörum sem leyfi landbúnaðarráðherra þarf til að flytja inn skv. 52. og 53. gr. laga þessara. Ákvæði þetta tekur einnig til tilsvarandi vara og hráefna. Verðjöfnun á unnum samsettum vörum miðast við þátt landbúnaðarhráefna í verði þeirra.