Ferill 473. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 473 . mál.


727. Tillaga til þingsályktunar



um aðgerðir til stuðnings íbúum Austur-Tímor.

Flm.: Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Einarsdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson,


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.



    Alþingi ályktar að skora á utanríkisráðherra að beita sér á alþjóðavettvangi til stuðnings íbúum Austur-Tímor í því skyni að binda enda á harðstjórn og mannréttindabrot sem þeir hafa mátt sæta um árabil af hálfu Indónesíustjórnar.

Greinargerð.


    Eyjan Tímor er ein af fjölmörgum eyjum Austur-Indía. Á 16. öld skiptu Hollendingar og Portúgalir eyjunni á milli sín sem leiddi til þess að íbúar portúgalska hlutans hneigðust til kaþólskrar trúar meðan Islam varð alls ráðandi í hollensku Indíum. Árið 1974 féll einræðisstjórnin í Portúgal og í kjölfar þess fékk fjöldi nýlendna Portúgala sjálfstæði. Árið 1975 var unnið að sjálfstæði Austur-Tímor, en áður en málið var til lykta leitt tók völdin ein af skæruliðahreyfingum landsins, Fretelin, sem um nokkurt skeið hafði barist gegn nýlenduveldi Portúgala. Fretelin lýsti yfir sjálfstæði landsins og Portúgalir hörfuðu með lið sitt og embættismenn. Aðeins nokkrum dögum eftir sjálfstæðisyfirlýsinguna réðist her Indónesíu inn í austurhlutann og hertók hann. Frá þeim tíma hafa Indónesar drottnað með harðri hendi yfir Austur-Tímor og í engu sinnt ítrekuðum ályktunum Sameinuðu þjóðanna um sjálfsákvörðunarrétt íbúanna á Austur-Tímor.
    Tímor er austarlega í eyjaklasanum næst Ástralíu. Í „sundinu“ milli Tímor og Ástralíu eru olíulindir og er þar komin meginástæðan fyrir því hvers vegna Indónesar ágirntust Austur-Tímor.
    Í Indónesíu ræður ríkjum stjórn Suharto hershöfðingja. Þrátt fyrir fjölflokkakerfi ræður flokkur forsetans lögum og lofum og verður að telja Indónesíu til verstu einræðisríkja í heimi. Samkvæmt skýrslum Amnesty International er fólk tekið af lífi án dóms og laga, pyndingar á föngum eru daglegt brauð og mörg dæmi þess að fangar hafi látið lífið vegna pyndinga, m.a. unglingar. Stjórnarandstæðingar eru hundeltir hvort sem þeir leyfa sér að gagnrýna mannréttindabrot eða teljast til hópa bókstafstrúarmanna. Menn eru m.a. dæmdir í fangelsi fyrir svokallaða niðurrifsstarfsemi, svo og móðganir við stjórn landsins og ríkjandi trúarbrögð.
    Á Austur-Tímor hefur þó keyrt um þverbak því þar hefur fólk miskunnarlaust verið murkað niður. Árið 1991 réðst herinn á líkfylgd þar sem hundruð manna fylgdu fórnarlambi herstjórnarinnar til grafar. Talið er að hátt á annað hundrað manns hafi verið drepnir í það sinn. Ríkisstjórn Indónesíu neitaði því lengi vel að þessi atburður hefði átt sér stað en vitnin voru mörg, m.a. útlendingar. Hermenn Indónesíuhers stunda þá iðju að ráðast inn í þorp til að drepa alla karlmenn en skilja konur og börn eftir þótt einnig séu þekkt dæmi um fjöldamorð á börnum. Talið er að á þeim rúmu 19 árum, sem liðin eru frá innrásinni, hafi um 200 þúsund manns verið drepnir á Austur-Tímor. Þjóðin telur nú um 700 þúsund manns en ætti með réttu að vera um ein milljón. Erlendum sendinefndum hefur verið neitað um að rannsaka ástandið, m.a. fulltrúum Sameinuðu þjóðanna. Á undanförnum árum hafa þingmenn frá ýmsum löndum reynt að fá leyfi til að heimsækja Austur-Tímor með misjöfnum árangri. Sænskir þingmenn fengu að heimsækja landið 1993 og hafa flutningsmenn þessarar tillögu skýrslu Hans Göran Franck um heimsóknina undir höndum.
    Mörg ríki heims telja sig eiga mikilla hagsmuna að gæta í Indónesíu. Þar eru miklar erlendar fjárfestingar og mikil viðskipti við þessa auðugu hráefna- og iðnaðarþjóð. M.a. gerðust þeir atburðir í Jakarta sl. haust að fjórir Tímorbúar flúðu inn á lóðir finnsku og sænsku sendiráðanna þar í borg til þess að biðjast hælis. Eftir mikið jaml, japl og fuður var þeim neitað um landvist og þeir sendir í gin lögreglunnar, líklega vegna þess að stjórnvöld í Svíþjóð og Finnlandi vildu ekki styggja Indónesíustjórn. Það tókst að vekja athygli fjölmiðla á máli fjórmenninganna og þar með að bjarga lífi þeirra.
    Daginn sem innrásin var gerð árið 1975 var nýskipaður utanríkisráðherra Fretelinstjórnarinnar, Jose Ramos Horta, á leið til Portúgal til að semja þar um skuldaskil hinna fyrrverandi nýlenduherra. Horta er eini ráðherra hinnar fyrrverandi ríkisstjórnar sem nú er á lífi. Hann hefur stöðu sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum og hefur um árabil talað máli þjóðar sinnar án þess að það hafi borið verulegan árangur. Jose Ramos Horta tók sl. haust við mannréttindaverðlaunum Rafto-stofnunarinnar í Bergen fyrir hönd íbúa Austur-Tímor, en sú stofnun vakti m.a. fyrst athygli á baráttu Aung San Suu Kyi í Burma, en hún fékk síðar friðarverðlaun Nóbels. Þess ber að geta að landflótta Tímorbúar hafa átt skjól í Portúgal en stjórnvöldum þar rennur blóðið til skyldunnar og þar í landi starfa öflugir hópar til stuðnings Tímorbúum. Þá hefur eitt og annað verið að gerast sem vekur vonir um að heimurinn muni ekki mikið lengur horfa aðgerðalaus á framferði Indónesíustjórnar. Margt bendir til að nokkur þáttaskil hafi orðið í baráttu íbúanna á Austur-Tímor.
    Foringi andspyrnuhreyfingarinnar, Xanana Gusmao, var handtekinn 1992 og dæmdur í ævilangt fangelsi eftir sýndarréttarhöld þar sem hann fékk ekki einu sinni að verja sig. Mál hans hefur vakið mikla athygli og hefur bæði Rauði krossinn og Amnesty International fylgst með líðan hans og þeirri meðferð sem hann sætir. Á hinu pólitíska sviði ber til tíðinda að Al Gore, varaforseti Bandaríkjanna, hefur sýnt örlögum íbúa Austur-Tímor áhuga og hefur hann beitt sér fyrir aðgerðum Bandaríkjastjórnar gegn stjórn Indónesíu. Hernaðarráðgjafar hafa verið kallaðir heim og á Bandaríkjaþingi er rætt um vopnasölubann á Indónesíu. Víða um heim hefur hópum, sem styðja íbúa Austur-Tímor, vaxið fiskur um hrygg og er í röðum þeirra að finna heimsþekkt fólk sem vill beita sér í þágu virðingar fyrir mannréttindum og sjálfsákvörðunarrétti þjóða.
    Það er alkunna að mannréttindi eru fótum troðin í flestum ríkjum heims. Þau brot eru þó mismunandi alvarleg. Víða geisa styrjaldir, ýmist innan ríkja eða ríkja í millum. Þegar horft er á ástand heimsmála kann að virðast einkennilegt að taka upp mál smáþjóðar lengst austur í Asíu á Alþingi Íslendinga. Þar er þess að gæta að það sem gerist á einum stað hefur áhrif á öðrum. Flóttamannastraumur, sem stafar af harðstjórn og einræði einhvers staðar á jarðarkringlunni, segir víða til sín. Það kann einnig að reynast heiminum hættulegt til lengri tíma litið að láta einræðis- og harðstjórnir óáreittar hvar sem þær er að finna. Við Íslendingar erum meðal örfárra þjóða sem með nokkrum rétti getum látið rödd okkar hljóma í þágu mannréttinda á alþjóðavettvangi. Það eigum við að gera hvar sem er og hvenær sem tækifæri gefast til þess. Með þessari tillögu er þess farið á leit við utanríkisráðherra að hann beiti sér á alþjóðavettvangi í þágu íbúa Austur-Tímor ef það mætti verða til þess að vekja athygli heimsins á örlögum þessarar litlu þjóðar sem nú býr við kúgun herstjórnar og má nánast daglega horfa upp á ofbeldi, fangelsanir og morð á saklausu fólki.