Ferill 498. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 498 . mál.


765. Beiðni um skýrslu



frá menntamálaráðherra um framkvæmd skólastarfs í grunn- og framhaldsskólum síðustu þrjú ár.

Frá Einari Má Sigurðarsyni, Guðrúnu Helgadóttur, Jóhanni Ársælssyni,


Kristni H. Gunnarssyni, Margréti Frímannsdóttur, Ólafi Ragnari Grímssyni,


Ragnari Arnalds, Steingrími J. Sigfússyni og Svavari Gestssyni.



    Með vísan til 46. gr. þingskapa er óskað eftir að menntamálaráðherra gefi Alþingi skýrslu um framkvæmd skólastarfs í grunn- og framhaldsskólum síðustu þrjú ár.
    Af hálfu menntamálaráðherra hefur starfað nefnd um mótun menntastefnu sem m.a. hefur það hlutverk að semja frumvörp til nýrra laga um grunn- og framhaldsskóla. Nýlega hefur nefndin skilað drögum að frumvarpi til nýrra framhaldskólalaga og boðað að fljótlega verði lagt fram frumvarp til nýrra grunnskólalaga. Til að auðvelda umræðu og skapa grundvöll til samanburðar milli gildandi laga og frumvarpanna er nauðsynlegt að fyrir liggi greinargóðar upplýsingar um hvernig til hefur tekist um framkvæmd gildandi laga um grunn- og framhaldsskóla.
    Í skýrslunni koma m.a. fram upplýsingar um eftirfarandi,
    kennslu og aðra þjónustu við nemendur; hlut einstakra kennslugreina, sérkennslu, ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu, námsráðgjöf,
    nemendur; fjölda þeirra, hlutföll árganga í framhaldsskólum, skiptingu nemenda á námssvið í framhaldsskólum,
    fjárframlög sveitarfélaga til skólamála; hvernig þau framlög skiptast milli skólastiga og hvert framlag einstakra sveitarfélaga er á hvern nemanda,
    kennara; kjör og starfsaðstöðu, menntun, hlutfall milli fjölda nemenda og kennara,
    fjármál; hlutfall skólamála af heildarútgjöldum ríkissjóðs, hluta grunn- og framhaldsskóla þar af, skiptingu milli stofn- og rekstrarkostnaðar.