Ferill 514. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 514 . mál.


794. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um leigubifreiðar, nr. 77/1989.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)



1. gr.


    1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Sveitarstjórn er heimilt að fengnum tillögum hlutaðeigandi stéttarfélags bifreiðastjóra að ákveða að allar leigubifreiðar í sveitarfélaginu í hverjum flokki fyrir sig, þ.e. fólksbifreiðar, vörubifreiðar og sendibifreiðar, skuli hafa afgreiðslu á bifreiðastöð sem fengið hefur viðurkenningu sveitarstjórnar.
    

2. gr.


    4. gr. laganna orðast svo:
    Samgönguráðuneytinu er heimilt eftir beiðni hlutaðeigandi stéttarfélags bifreiðastjóra, hvort heldur um er að ræða félag fólksbifreiðastjóra, vörubifreiðastjóra eða sendibifreiðastjóra, að takmarka fjölda leigubifreiða á félagssvæðinu, enda komi til meðmæli þeirra sveitarstjórna og héraðsnefnda er félagssvæðið fellur undir. Stéttarfélag, sem sækir um takmörkun, verður að hafa innan sinna vébanda að lágmarki 3 / 4 hluta þeirra bifreiðastjóra á viðkomandi sviði sem stunda leiguakstur á félagssvæðinu á eigin bifreiðum. Verði sveitarstjórnir og héraðsnefndir eigi sammála um hvort mæla skuli með takmörkun eða ekki eða þær greini á við hvaða bifreiðafjölda takmörkun skuli miða skal samgönguráðuneytið skera úr. Þar sem takmörkun er heimiluð skal hún ákveðin af ráðuneytinu með reglugerð og miðast við ákveðna hámarkstölu eða viðmiðun við íbúafjölda.
    Komi til þess að meira en 1 / 4 hluti atvinnuleyfishafa á viðkomandi félagssvæði standi utan stéttarfélagsins sem óskaði takmörkunar er ráðuneytinu heimilt að fella takmörkunina úr gildi innan sex mánaða.
    

3. gr.


    5. gr. laganna orðast svo:
    Takmörkun á fjölda fólksbifreiða er framkvæmd með útgáfu atvinnuleyfa sem umsjónarnefnd fólksbifreiða annast.
    Takmörkun á fjölda sendibifreiða er framkvæmd með útgáfu atvinnuleyfa sem umsjónarnefnd sendibifreiða annast. Skipan og starfssvið umsjónarnefndar sendibifreiða skal vera með sama hætti og umsjónarnefndar fólksbifreiða, sbr. 10. gr.
    Takmörkun á fjölda vörubifreiða er framkvæmd með útgáfu atvinnuleyfa sem umsjónarnefnd vörubifreiða annast. Nefndin skal skipuð þremur mönnum. Landssamband vörubifreiðastjóra tilnefnir einn nefndarmanna, annan tilnefnir Samband íslenskra sveitarfélaga og hinn þriðja skipar ráðherra án tilnefningar og er hann formaður nefndarinnar. Sömu aðilar velja hver um sig einn varamann. Starfssvið umsjónarnefndar vörubifreiða skal vera með sama hætti og umsjónarnefndar fólksbifreiða, sbr. 10. gr.
    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um atvinnuleyfi til leiguaksturs sendibifreiða og vörubifreiða, úthlutun þeirra, nýtingu, brottfall og er heimilt að kveða á um að ákvæði IV. kafla laganna taki einnig til þeirra atvinnuleyfa.
    Á þeim félagssvæðum stéttarfélaga bifreiðastjóra, þar sem takmörkun er í gildi, er öllum, sem eigi hafa atvinnuleyfi, bannað að taka að sér eða stunda leiguakstur á fólki eða vörum.
    

4. gr.


    6. gr. laganna orðast svo:
    Þegar heimild til takmörkunar á fjölda leigubifreiða er veitt er óheimilt að skerða atvinnuréttindi þeirra manna sem á lögmætan hátt stunda leigubifreiðaakstur er takmörkun hefst.
    

5. gr.


    6. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna fellur brott.
    

6. gr.


    5. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
    Umsjónarnefnd fólksbifreiða setur reglur um þessar undanþágur, en stéttarfélag fólksbifreiðastjóra annast framkvæmd þeirra.
    

7. gr.


    Við 1. mgr. 10. gr. laganna bætist nýr málsliður er verður 6. málsl., svohljóðandi: Séu starfandi tvö eða fleiri stéttarfélög á svæðinu skulu þau tilnefna einn nefndarmanna sameiginlega. Ef samkomulag næst ekki skipar ráðherra fulltrúa þeirra án tilnefningar.
    

8. gr.


    11. gr. laganna orðast svo:
    Gjaldmælar skulu vera í öllum fólksbifreiðum og sendibifreiðum sem notaðar eru til leiguaksturs. Löggildingarstofan hefur eftirlit með notkun og meðferð gjaldmæla.
    

9. gr.


    1. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Samgönguráðuneytið setur reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.
    

10. gr.


    2. og 3. mgr. 14. gr. laganna falla brott:
    

11. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í samgönguráðuneytinu. Tilgangur þess er að gera nauðsynlegar breytingar á lögunum til samræmis við niðurstöðu mannréttindadómstóls Evrópu vegna kæru Sigurðar Á. Sigurjónssonar leigubifreiðastjóra á hendur íslenska ríkinu. Dómurinn taldi ákvæði laga um leigubifreiðar nr. 77/1989, sem skylda leigubifreiðastjóra til að vera í einu og sama félagi þar sem takmörkun er í gildi, brjóta gegn mannréttindasáttmála Evrópu.
    Markmið frumvarpsins er því að fella úr gildi lögbundna skylduaðild fólksbifreiðastjóra, vörubifreiðastjóra og sendibifreiðastjóra að stéttarfélögum sínum og bregðast við þeim aðstæðum sem af þessari breytingu getur leitt.
    

I. Aðdragandi að setningu laga um leigubifreiðar, nr. 77/1989.


    Við meðferð frumvarps til laga um leigubifreiðar á Alþingi árið 1989 gerði samgöngunefnd neðri deildar Alþingis sérstaka athugun á ákvæði 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins sem fjallaði um félagsskyldu þeirra bifreiðastjóra sem nytu takmörkunar. Í greinargerð með þessu ákvæði frumvarpsins segir:
    „Með 1. mgr. er því slegið föstu að allir bifreiðastjórar, sem njóta takmörkunar, skuli vera í sama stéttarfélagi á sínu svæði. Þetta á að sjálfsögðu við hverja stétt fyrir sig, þ.e. fólksbifreiðastjóra, vörubifreiðastjóra og sendibifreiðastjóra. Þetta kemur annars vegar í veg fyrir að sama stéttin klofni í tvö eða fleiri stéttarfélög á sama svæði og hins vegar að einstakir bifreiðastjórar, sem takmörkunar njóta, geti staðið utan félags. Stéttarfélag á frumkvæði að því að takmörkun verði komið á, atbeina þess þarf til að framkvæma hana, og félagið hefur á hendi nauðsynlegt fyrirsvar fyrir stéttina gagnvart hinu opinbera. Því er óhjákvæmilegt að skylda alla bifreiðastjóra, sem njóta þessa skipulags, til að vera félagsmenn í einu og sama stéttarfélagi á viðkomandi svæði, enda er hagsmunum þeirra sjálfra best borgið með þessum hætti. Ljóst er af nýgengnum dómi Hæstaréttar að reglugerðarákvæði dugir ekki til að skylda bifreiðastjóra til félagsaðildar. Þar þarf lagaákvæði að koma til svo örugglega sé um hnútana búið.“
    Samgöngunefndin leitaði álits lögfræðinga um efni þessarar greinar. Niðurstaða nefndarinnar var að leggja ekki til breytingar á þessu ákvæði frá þeim texta sem upphaflega var í frumvarpinu. Sú niðurstaða byggði m.a. á nýgengnum dómi Hæstaréttar frá 15. desember 1988 og að nokkur dæmi af svipuðum toga eru í íslenskri löggjöf og má í því sambandi benda á 101. gr. vatnalaga, nr. 15/1923, um vatnafélög, 44. gr. lax- og silungsveiðilaga, nr. 76/1970, um veiðifélög, og 7. gr. laga um málflytjendur, nr. 61/1942, um Lögmannafélag Íslands.
    Í dómi Hæstiréttar Íslands frá 15. desember 1988 var litið svo á að 73. gr. stjórnarskrárinnar hefði aðeins verið „ætlað að tryggja félagsstofnunina sem slíka en ekki rétt manna til að standa utan félaga“. Í umræddum dómi kemur fram sú skýring Hæstaréttar á 73. gr. stjórnarskrár að ákvæðið verndi ekki svokallað neikvætt félagafrelsi, þ.e. rétt manna til að neita að vera í eða ganga í félag. Telur Hæstiréttur að umrætt ákvæði stjórnarskrár fari hvorki í bága við alþjóðasamninga um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sem samþykktir voru á 21. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna né ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu frá 1950. Í dóminum segir:
    „Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á, að ósamræmi sé milli 73. gr. stjórnarskrárinnar og þeirra ákvæða alþjóðasamþykkta, er hann vísar til og rakin eru í héraðsdómi, og myndi enda ekki sjálfkrafa hagga settum stjórnarskrárákvæðum. Verður ekki fallist á þá skoðun áfrýjanda, að efni standi nú til að skýra þessa grein stjórnarskrárinnar svo, að hún mæli fyrir um rétt manna til að neita að ganga í félag eða að vera í félagi. Af þessu stjórnarskrárákvæði verður heldur ekki dregin sú ályktun, að óheimilt sé að gera félagsaðild að skilyrði atvinnuleyfis.“
    

II. Mannréttindasáttmáli Evrópu.


    Mannréttindasáttmáli Evrópu var gerður á vegum Evrópuráðsins og undirritaður af aðildarríkjum þess árið 1950. Ísland undirritaði árið 1953 fullgildingarskjal varðandi sáttmálann og hefur síðan fullgilt viðauka 1–8. Á grundvelli sáttmálans voru sett á stofn mannréttindanefnd Evrópu og mannréttindadómstóll Evrópu. Nefndin getur tekið við erindum m.a. frá einstaklingum sem halda því fram að samningsaðili hafi brotið á þeim réttindi sem verndar njóta samkvæmt samningnum. Takist ekki sátt í máli semur nefndin skýrslu um málið og lætur álit í ljós hvort um sé að ræða brot á skyldum samningsaðila. Einstaklingur getur ekki lagt mál fyrir dómstólinn heldur aðeins nefndin og samningsríki. Mannréttindanefndin annast flutning mála fyrir dómstólnum sem hún skýtur þangað.
    Þann 25. júní 1992 gekk dómur á hendur íslenska ríkinu fyrir mannréttindadómstólnum þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að það hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt samningnum vegna kæru Þorgeirs Þorgeirssonar rithöfundar. Í framhaldi af því skipaði dómsmálaráðherra nefnd til að gera tillögur um viðbrögð við dómnum. Í starfi sínu komst nefndin að þeirri niðurstöðu að rétt væri að leggja til að sáttmálinn yrði lögtekinn hér á landi en sú niðurstaða var einkum byggð á því að lögfesting sáttmálans yrði til að auka réttaröryggi. Frumvarp þess efnis var lagt fram á Alþingi sl. haust en hefur ekki verið afgreitt.
    

III. Dómur mannréttindadómstóls Evrópu.


    Þann 15. maí 1992 úrskurðaði mannréttindanefndin í nefndu máli og komst að þeirri niðurstöðu með 17 atkvæðum gegn 1 að félagsskylda kæranda að Bifreiðastjórafélaginu Frama fæli í sér brot gegn 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
    Með bréfi dags. 16. júlí 1992 tilkynnti nefndin dómsmálaráðuneytinu að hún hefði skotið málinu til dómstólsins og fór málflutningur fyrir dómstólnum fram í febrúar 1993.
    Þann 30. júní sl. var kveðinn upp dómur hjá mannréttindadómstól Evrópu vegna kæru Sigurðar Á. Sigurjónssonar leigubílstjóra á hendur íslenska ríkinu. Dómstóllinn telur að ákvæði laga um leigubifreiðar, nr. 77/1989, sem skylda leigubifreiðastjóra á svæðum þar sem takmörkun er í gildi til að vera í félagi leigubifreiðastjóra, brjóti í bága við ákvæði 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um félagafrelsi þar sem ákvæðið verndar einnig rétt manna til að vera utan félags. Í forsendum dómsins kemur eftirfarandi fram:
    Í 1. mgr. 11. gr. sáttmálans segir að menn hafi rétt til að mynda félög, þar á meðal stéttarfélög til verndar hagsmunum sínum. Í ákvæðinu felst einnig réttur til að vera ekki í félagi, þ.e. svokallað neikvætt félagafrelsi og því fari ákvæði laga um leigubifreiðar, nr. 77/1989, sem kveða á um að til að fá eða halda atvinnuleyfi þurfi aðild að Frama, félagi leigubifreiðastjóra, gegn 1. mgr. 11. gr. sáttmálans. Jafnframt er vísað til ýmissa sáttmála og samþykkta alþjóðastofnana er vernda neikvæða félagafrelsið.
    Í 2. mgr. 11. gr. sáttmálans er kveðið á um að réttur þessi skuli ekki háður öðrum takmörkunum en lög mæli fyrir um og nauðsyn beri til í lýðfrjálsu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla til að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilbrigði eða siðgæði eða réttindum eða frelsi annarra. Dómurinn telur að skylduaðild að Frama hafi verið komið á með lögum og ætlunin hafi verið að vernda réttindi annarra bílstjóra en dregið verði í efa hvort nauðsyn hafi borið til að kveða á um skylduaðild þegar borið sé saman annars vegar réttindamissir og þvingun kæranda og hins vegar hagsmunir tengdum hlutverki Frama við framkvæmd og eftirlit með leiguakstri.

IV. Helstu breytingar með frumvarpinu.


—    Gerðar eru nauðsynlegar breytingar í framhaldi af dómi mannréttindadómstóls Evrópu og afnumin skylda bifreiðastjóra til að vera í einu og sama stéttarfélagi á þeim svæðum þar sem heimiluð hefur verið takmörkun á fjölda bifreiða sem nota á til leiguaksturs.
—    Í stað þess að takmörkun á fjölda vörubifreiða og sendibifreiða á einstökum félagssvæðum sé framkvæmd af félögunum sjálfum verður hún framkvæmd af sérstökum umsjónarnefndum. Miðað er við að sett verði á fót ein umsjónarnefnd vörubifreiða fyrir landið allt og að umsjónarnefnd sendibifreiða verði á hverju svæði þar sem takmörkun hefur verið heimiluð.
—    Gert er ráð fyrir að ráðherra sé heimilt að fella takmörkun úr gildi ef meira en 1 / 4 hluti atvinnuleyfishafa á viðkomandi félagssvæði ganga úr stéttarfélaginu sem óskaði takmörkunar, sbr. 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins.
    

V. Brottfall leyfis vegna aldurs.


    Undanfarin ár hefur átt sér stað umræða um hvort og við hvaða aldursmark atvinnuleyfi til leigubifreiðaaksturs eigi að falla brott. Það fyrirkomulag sem nú ríkir og byggir á útgáfu atvinnuleyfa hefur staðið frá árinu 1955 og er fjöldi atvinnuleyfa á höfuðborgarsvæðinu bundinn við 570 atvinnuleyfi. Miðað er við að hver einstaklingur hafi eitt atvinnuleyfi og aki sjálfur eigin bifreið. Segja má að hver og einn leyfishafi hafi einhvers konar einkaleyfi til að bjóða upp á þessa þjónustu. Samhliða þessu einkaleyfi eða starfsvernd hefur löggjafinn talið sér rétt og skylt að gæta einnig hagsmuna og réttar þeirra sem þjónustuna nota þannig að þjónustan verði eftir sem áður góð og örugg, jafnframt því að tryggja eðlilega endurnýjun í stéttinni.
    Almenningur á þá kröfu að þeir sem slíkt einkaleyfi hafa séu góðir, hæfir og fullfrískir ökumenn og geti þjónustað viðskiptavininn, t.d. borið ferðatöskur og annan farangur. Í ljósi þessa og fjölda kvartana á sínum tíma gerði ráðuneytið það að tillögu sinni að kveða á um 75 ára aldurshámark leyfishafa til leigubifreiðaaksturs í frumvarpi til laga um leigubifreiðar sem lagt var fram á Alþingi vorið 1989. Í meðferð frumvarpsins á Alþingi var hámarksaldurinn lækkaður í 71 ár, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um leigubifreiðar, nr. 77/1989.
    Með lögum um leigubifreiðar, nr. 77/1989, sem tóku gildi 1. júlí 1989, var í fyrsta sinn kveðið á um í lögum að atvinnuleyfi til leigubifreiðaaksturs félli niður við ákveðinn hámarksaldur leyfishafa. Ákvæði þessa efnis hafði áður verið í 16. gr. reglugerðar nr. 293/1985 um takmörkun leigubifreiða í Reykjavík en skv. 19. gr. hennar var gildistöku ákvæðisins um aldurshámark frestað um þrjú ár frá gildistöku reglugerðarinnar og kom það fyrst til framkvæmda 1. júlí 1988. Þá áttu leyfishafar sem orðnir voru 75 ára að leggja inn atvinnuleyfi sín.
    Þrír leigubifreiðastjórar, sem gert var að leggja inn atvinnuleyfi sín í samræmi við þessa reglu, töldu ákvæðið ekki hafa lagastoð og báru fram kvörtun við umboðsmann Alþingis. Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu í áliti sínu að ofannefnt ákvæði reglugerðar um hámarksaldur hafi ekki átt sér viðhlítandi lagastoð þannig að því verði beitt gagnvart leyfishöfum sem höfðu leyfi við gildistöku ákvæðisins. Jafnframt sagði umboðsmaður í áliti sínu: „ . . .  ég tel ástæðu til að lög um leigubifreiðaakstur verði tekin til rækilegrar endurskoðunar í heild. Í þeirri endurskoðun verði meðal annars fjallað um það hvaða skilyrðum menn verði að fullnægja til að geta fengið og haldið leyfum til leigubifreiðaaksturs og um nýtingu slíkra atvinnuleyfa“. Í framhaldi af niðurstöðu umboðsmanns Alþingis var hafist handa við heildarendurskoðun laga um leigubifreiðar. Frumvarp þess efnis var lagt fram í ársbyrjun 1989 og varð að lögum 1. júní 1989 sem tóku gildi 1. júlí 1989.
    Einn leigubifreiðastjóri, sem gert var að leggja inn atvinnuleyfi sitt í samræmi við ákvæði laga um leigubifreiðar, nr. 77/1989, höfðaði mál á hendur samgönguráðherra og byggði á því að með því að svipta sig atvinnuleyfinu vegna aldurs á grundvelli laga og reglugerða um leigubifreiðar sé brotinn á honum réttur sem honum beri samkvæmt stjórnskipulegri jafnræðisreglu. Hann taldi sig beittan ójafnræði eða misrétti sem fælist annars vegar í því að bifreiðastjórar sendi-, vöru- og langferðabifreiða séu ekki háðir sams konar ákvæðum um aldurshámark og hins vegar ekki heldur þeir bifreiðastjórar sem stunda leiguakstur á fólksbifreiðum á þeim svæðum þar sem fjöldi leigubifreiða til fólksflutninga hefur ekki verið takmarkaður. Hæstiréttur Íslands kvað upp dóm sinn í málinu 3. júní 1993. Í forsendum dómsins er staðfest það mat héraðsdómara að til grundvallar ákvæði 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/1989 um aldursmark bifreiðastjóra leigubifreiða til fólksflutninga liggi almenn og hlutlæg sjónarmið og gætt hafi verið jafnræðis við setningu laganna þar sem þau ná til allra sem eins eru settir. Brytu lögin því ekki jafnræðisreglu íslensks stjórnskipunarréttar.
    Í frumvarpi þessu eru ekki gerðar breytingar á gildandi ákvæðum laganna um aldurshámark leyfishafa en skv. 1. mgr. 9. gr. laganna fellur atvinnuleyfið úr gildi við lok 70 ára aldurs leyfishafa.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Eina breytingin sem hér er gerð er að í stað bæjarstjórnar kemur sveitarstjórn. Með þessu er greinin samræmd 2. gr. frumvarpsins.
    

Um 2. gr.


    Það hefur verið meginefni laga um leigubifreiðar að fjalla um heimildir til að takmarka fjölda leigubifreiða á félagssvæðum viðkomandi stéttarfélaga bifreiðastjóra en þetta á við um fólksbifreiðar, vörubifreiðar og sendibifreiðar. Þróun mála hefur orðið misjöfn eftir því um hvaða flokk bifreiða er að ræða.
     Vöru- og sendibifreiðar:
    Vörubifreiðastjórar hafa í flestum tilvikum notið takmörkunar og skv. 7. gr. reglugerðar nr. 121/1990 um vörubifreiðar og sendibifreiðar, sem notaðar eru til leiguaksturs og takmarkanir á fjölda þeirra, hefur takmörkun verið ákveðin á félagssvæðum 28 vörubifreiðastjórafélaga.
    Sendibifreiðastjórar hafa í mjög fáum tilvikum notið takmörkunar þar sem stéttarfélög þeirra hafa yfirleitt ekki óskað eftir takmörkun. Þó njóta þrjú félög sendibifreiðastjóra takmörkunar en það er á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og Vestmannaeyjum, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 121/1990.
    Í takmörkun á fjölda vörubifreiða og sendibifreiða felst að öllum utanfélagsmönnum hefur verið bannað að taka að sér eða stunda leiguakstur á vörum, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga um leigubifreiðar, nr. 77/1989. Takmörkunin hefur verið framkvæmd með þeim hætti að í reglugerð er ákveðin hámarkstala vörubifreiða og sendibifreiða á viðkomandi félagssvæði. Nýir félagar hafa síðan verið teknir inn í stað þeirra sem hætta störfum og félagið auglýst eftir umsóknum um félagsréttindi til að fylla töluna á ný, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 121/1990. Það eru því félögin sjálf sem ráðið hafa hverjir bætast við í stéttina og öðlast rétt til að stunda leiguakstur á þess sviði. Sú starfsvernd sem vörubifreiðastjórar hafa notið á grundvelli þessara laga og reglna hefur aðeins verið bundin við leiguakstur á vörubílum af hefðbundinni gerð og tekur ekki til verktakastarfsemi á sviði flutninga.
    Í frumvarpi þessu er miðað við að sama fyrirkomulag verði áfram í málefnum vöru- og sendibifreiðastjóra. Hins vegar verður framkvæmd takmörkunar ekki lengur á hendi viðkomandi stéttarfélags þar sem bifreiðastjórum er hér eftir heimilt að stofna ný félög eða standa utan félaga. Miðað er við að taka upp sama hátt og við takmörkun á fjölda fólksbifreiða og að skipaðar verði sérstakar umsjónarnefndir sem annist útgáfu atvinnuleyfa, sbr. 3. gr. frumvarpsins.
    Í þeim tilvikum er félag sækir um takmörkun á fjölda bifreiða eftir að breytingar samkvæmt frumvarpi þessu er gengnar í garð verður það félag að hafa innan sinna vébanda að minnsta kosti 3 / 4 hluta þeirra bifreiðastjóra á viðkomandi sviði sem stunda leiguakstur á félagssvæðinu á eigin bifreiðum.
    Í 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að ráðherra sé heimilt að fella takmörkun úr gildi ef meira en 1 / 4 hluti atvinnuleyfishafa á viðkomandi félagssvæði ganga úr stéttarfélaginu sem óskaði takmörkunar.
     Fólksbifreiðar:
    Fjöldi fólksbifreiða er nú takmarkaður á fimm stöðum á landinu, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Akureyri, Ísafirði og Selfossi. Takmörkun er framkvæmd með útgáfu atvinnuleyfa til einstakra leigubifreiðastjóra sem sérstakar umsjónarnefndir annast. Þetta atvinnuleyfakerfi hefur nú staðið í áratugi og er orðið mjög fast í sessi. Til þess að koma þessu takmörkunarkerfi á þurfti í upphafi að liggja fyrir beiðni frá viðkomandi stéttarfélagi síðan þurfti atbeina félagsins til þess að halda kerfinu við. Jafnframt var til þess ætlast að allir atvinnuleyfishafar á viðkomandi félagssvæði væru meðlimir félagsins og að lokum var félagsaðildin lögbundin. Með því átti meðal annars að tryggja að félagið væri í fyrirsvari fyrir alla stéttina.
    Eftir brottfall skylduaðildar er engin trygging fyrir því að meiri hluti atvinnuleyfishafa verði félagsmenn í stéttarfélaginu sem bað um takmörkunina og annast hefur framkvæmd hennar að hluta. Til þess að halda takmörkunarkerfi við á tilteknu svæði, breyta því eða fella það niður er óhjákvæmilegt að þekkja vilja stéttarinnar sem á hlut að máli. Það verður ekki gert nema að verulegur hluti atvinnuleyfishafa á svæðinu séu félagar í stéttarfélaginu. Því er lagt til í frumvarpinu, auk afnáms skylduaðildar, að heimilt sé að fella takmörkun á fjölda bifreiða úr gildi ef meira en fjórðungur atvinnuleyfishafa kýs að standa utan félagsins sem óskaði takmörkunar.
    

Um 3. gr.


    Hér er lagt til að ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 77/1989 verði felld brott en það kveður á um skyldu bifreiðastjóra í sömu grein til að vera í einu og sama stéttarfélagi. Þessi skylda hefur aðeins náð til bifreiðastjóra í hverjum flokki bifreiða á þeim svæðum þar sem takmörkun er í gildi. Í gildi er takmörkun á félagssvæðum fimm fólksbifreiðastjórafélaga, 28 vörubifreiðastjórafélaga og þriggja sendibifreiðastjórafélaga. Bifreiðastjórum á þeim svæðum þar sem takmörkun á fjölda bifreiða, sem notaðar eru til leiguaksturs, verður áfram í gildi er heimilt hér eftir að ganga úr félaginu sem bað um takmörkun og vera utan félags eða stofna nýtt félag.
    Framkvæmd takmörkunar á fjölda bifreiða verður hér eftir með sama hætti hjá öllum leigubifreiðum. Gefin verða út atvinnuleyfi til leiguaksturs á vörubifreiðum og sendibifreiðum og til að annast útgáfu þeirra verður skipuð umsjónarnefnd vörubifreiða og sendibifreiða á sama hátt og verið hefur við framkvæmd takmörkunar á fjölda fólksbifreiða, sbr. 10. gr. laganna.
    Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins skal skipa umsjónarnefnd sendibifreiða á þeim svæðum þar sem takmörkun hefur verið ákveðin. Skipan hennar og starfssvið skal vera með sama hætti og umsjónarnefndar fólksbifreiða skv. 10. gr. laganna. Nefndin er skipuð þremur mönnum, þar af skal einn tilnefndur af stéttarfélagi eða stéttarfélögum sendibifreiðastjóra sameiginlega.
    Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins skal skipa eina umsjónarnefnd vörubifreiða fyrir landið allt sem annast m.a. útgáfu atvinnuleyfa á þeim svæðum þar sem takmörkun hefur verið ákveðin. Nefndin skal vera þriggja manna, einn frá Landssambandi vörubifreiðastjóra, einn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og formann hennar skipar ráðherra án tilnefningar. Starfssvið hennar er að öðru leyti með sama hætti og umsjónarnefndar fólksbifreiða skv. 10. gr. laganna.
    

Um 4. gr.


    Þessi grein er samhljóða núgildandi 6. gr. að öðru leyti en því að afnumið er skilyrðið um að vera fullgildur félagi í hlutaðeigandi stéttarfélagi þá er takmörkun hefst. Slíkt skilyrði á sér ekki lengur lagastoð þar sem ákvæði 1. mgr. 5. gr. laganna um félagsskyldu er afnumið með 3. gr. frumvarpsins.
    

Um 5. gr.


    Í 8. gr. laga um leigubifreiðar, nr. 77/1989, eru talin upp þau skilyrði sem fullnægja þarf til að geta öðlast atvinnuleyfi. Eitt þessara skilyrða er að vera félagsmaður í hlutaðeigandi stéttarfélagi fólksbifreiðastjóra eða hafa sótt um inngöngu í það, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 8. gr.
    Hér er lagt til að þetta skilyrði verði afnumið, enda er í 3. gr. frumvarpsins afnumin skylda til að vera í félagi fólksbifreiðastjóra þar sem takmörkun er í gildi.
    

Um 6. gr.


    Gert er ráð fyrir að umsjónarnefnd fólksbifreiða setji reglur um undanþágurnar en stéttarfélög fólksbifreiðastjóra annist framkvæmd þeirra. Jafnframt hafa bifreiðastöðvar eftirlit með að reglum þessum sé fylgt, sbr. 3. gr. laganna.
    

Um 7. gr.


    Frumvarpið gerir ráð fyrir því að fleiri en eitt félag geti verið starfandi á svæðum þar sem takmörkun á fjölda fólksbifreiða hefur verið heimiluð. Hér er miðað við að þegar svo háttar tilnefni félögin einn nefndarmanna sameiginlega. Takist ekki samkomulag þeirra í milli skipar ráðherra fulltrúa þeirra án tilnefningar. Þessi háttur hefur verið hafður á Suðurnesjum en þar hafa um nokkur ár verið starfandi tvö félög, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 77/1989.
    

Um 8. gr.


    Samkvæmt 11. gr. laga um leigubifreiðar, nr. 77/1989, eiga lögreglustjórar, hver í sínu umdæmi, að hafa eftirlit með notkun og meðferð gjaldmæla. Eftir að lög um leigubifreiðar, nr. 77/1989, tóku gildi hafa verið sett lög um vog, mál og faggildingu, nr. 100/1992, en skv. 5. gr. þeirra er skylt að löggilda öll mælitæki sem notuð eru hér á landi til að mæla stærðir sem hafa áhrif á verð eða afgjald í hvers konar viðskiptum með vöru og þjónustu og skatt- og gjaldstofna. Það er Löggildingarstofan sem löggildir mælitæki, hefur eftirlit með mælitækjum, löggildir vigtarmenn og sér að öðru leyti um að lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim sé framfylgt, sbr. 15. gr. laga nr. 100/1992.
    Með 8. gr. frumvarpsins er efni 11. gr. fært til samræmis við lög um vog, mál og faggildingu nr. 100/1992 og Löggildingarstofunni fengið það hlutverk að löggilda og hafa eftirlit með notkun og meðferð gjaldmæla í fólksbifreiðum og sendibifreiðum sem notaðar eru til leiguaksturs.

Um 9. gr.


    Í 1. mgr. 12. gr. laga um leigubifreiðar, nr. 77/1989, er við það miðað að samgönguráðuneyti setji tvær reglugerðir á grundvelli laganna, annars vegar um fólksbifreiðar og hins vegar um vörubifreiðar og sendibifreiðar. Áður voru settar reglugerðir fyrir hvert félagssvæði fyrir sig í hverjum flokki bifreiða.
    Með 8. gr. reglugerðar nr. 308/1989 um fólksbifreiðar, sem notaðar eru til leiguaksturs og takmarkanir á fjölda þeirra, var kveðið á um takmörkun á fjölda fólksbifreiða á félagssvæðum fimm bifreiðastjórafélaga, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Akureyri, Ísafirði og Selfossi. Reglugerðin leysti af hólmi 21 reglugerð sem gilti fyrir hvert svæði og felld var niður takmörkun á fjölda leigubifreiða á Akranesi, Sauðárkróki, Seyðisfirði, Neskaupstað, Hveragerði, Vestmannaeyjum og Grindavík. Ástæðan fyrir því að takmörkun var ekki heimiluð á þessum svæðum var að ráðuneytið setti sér þá starfsreglu að heimila ekki takmörkun nema fjöldi bifreiða væri a.m.k. sjö.
    Með 7. og 8. gr. reglugerð nr. 307/1989, ásamt síðari breytingum, um vörubifreiðar og sendibifreiðar, sem notaðar eru til leiguaksturs og takmarkanir á fjölda þeirra var kveðið á um takmörkun á fjölda vörubifreiða á félagssvæðum 28 vörubifreiðastjórafélaga og þriggja sendibifreiðastjórafélaga. Reglugerðin leysti af hólmi 38 reglugerðir sem giltu fyrir hvert svæði vöru- og sendibifreiðastjórafélaga.
    Með hliðsjón af því að í 3. gr. frumvarpsins er miðað við að takmörkun verði framkvæmd með svipuðum hætti í hverjum flokki bifreiða fyrir sig og þykja ekki efni til að hafa sérstaka reglugerð um vörubifreiðar og sendibifreiðar sem notaðar eru til leiguaksturs heldur verði heimilt að gefa út eina reglugerð fyrir allar leigubifreiðar.
    

Um 10. gr.


    Hér er lagt til að felldar verði niður tvær málsgreinar í 14. gr. þar sem þær eiga ekki lengur við.
    Í 2. mgr. 14. gr. segir að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 5. gr., sem fjallar skyldu til að vera í einu og sama félagi þar sem takmörkun er í gildi, sé ráðherra heimilt að veita undanþágu frá ákvæðinu þar sem önnur tilhögun hefur tíðkast. Ákvæði þetta var sett vegna þess að á Suðurnesjum, en þar var takmörkun í gildi, hafði verið stofnað nýtt félag og því starfandi tvö félög á svæðinu. Í 3. gr. frumvarpsins er 1. mgr. 5. gr. laganna, sem fjallar um félagsskyldu, felld niður og þjónar þessi undanþáguheimild því ekki neinum tilgangi lengur.
    Í 3. mgr. 14. gr. segir að þrátt fyrir ákvæði 5. tölul. 8. gr. skuli launþegar í leigubifreiðastjórastétt hafa forgang við veitingu atvinnuleyfa næstu þrjú ár frá gildistöku laganna. Lög um leigubifreiðar, nr. 77/1989, tóku gildi 1. júlí 1989 og rann forgangsréttur launþeganna því út 1. júlí 1992 og er því eðlilegt að fella ákvæðið brott úr lögum.
    

Um 11. gr.


    Greinin þarfnast ekki nánari skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
    

Umsögn um frumvarp til laga


um breytingu á lögum um leigubifreiðar.


    Með frumvarpinu eru stofnaðar tvær nefndir, umsjónarnefnd sendibifreiða og umsjónarnefnd vörubifreiða. Tilgangur þeirra er að annast framkvæmd fjöldatakmarkana á sendibifreiðum og vörubifreiðum á sama hátt og umsjónarnefnd fólksbifreiða hefur annast framkvæmd fjöldatakmarkana á fólksbifreiðum.
    Kostnaður við umsjónarnefnd fólksbifreiða er um 1 1 / 2 m.kr. á ári. Því má gera ráð fyrir að frumvarp þetta feli í sér um 3 m.kr. kostnaðarauka fyrir ríkissjóð á ári hverju.