Ferill 453. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 453 . mál.


911. Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um sölu jarða til ríkisins samkvæmt búvörusamningi.

    Hvað hafa margir bændur, sem selt hafa frá sér framleiðslurétt í framhaldi af gerð núverandi búvörusamnings, óskað eftir því að ríkið keypti af þeim jarðirnar?
     Tvær umsóknir hafa borist á þeim forsendum sem um er spurt, báðar á árinu 1992. Annar umsækjenda hafði fjórum árum áður leigt fullvirðisrétt jarðarinnar til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, hætt búskap og flutt af jörðinni. Hann seldi síðan ríkissjóði framleiðsluréttinn haustið 1991 samkvæmt tilboði þar um. Það var mat ráðuneytisins að ekki væri rétt að verða við umsókninni og kaupa jörðina fyrr en betur lægi fyrir hvort og hversu margir bændur mundu leita eftir að Jarðasjóður keypti jarðir þeirra. Yrðu umsóknir margar bar nauðsyn til að móta verklagsreglur um notkun þeirra fjármuna sem Jarðasjóði yrðu tryggðir samkvæmt ákvæðum búvörusamningsins frá 11. mars 1991. Hinn umsækjandinn vildi selja Jarðasjóði tvær eyðijarðir sem hann hafði nýtt með ábýlisjörð sinni, en þar hyggst hann búa áfram, og því voru tæpast rök til þess að Jarðasjóður keypti eyðijarðirnar sem voru án fullvirðisréttar, a.m.k. ekki fyrr en betur lægi fyrir hvaða fjármuni sjóðurinn hefði til ráðstöfunar. Ekki kom til þess að verklagsreglur væru settar, enda hafa ekki til þessa borist fleiri umsóknir um jarðakaup á nefndum grundvelli.

    Hefur ríkið orðið við öllum slíkum óskum?
    Eins og rakið er hér að ofan hefur Jarðasjóður ríkisins ekki keypt jarðir bænda sem afsalað hafa sér framleiðslurétti þeirra. Heimild er til slíks í lögum um Jarðasjóð, nr. 34/1992, sbr. ákvæði 2. tölul. 2. gr. laganna.

    Hefur jarðasjóður fengið til þessara verkefna þá fjármuni sem gert var ráð fyrir samkvæmt viðauka við búvörusamning?
    Á fjárlögum áranna 1992 og 1993 voru Jarðasjóði ætlaðar 75 millj. kr. hvort ár til kaupa á jörðum bænda. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1992 er að finna eftirfarandi skýringar á fjárveitingum til Jarðasjóðs: „Til Jarðasjóðs er veitt 100 millj. kr. á árinu 1992 samanborið við 25 millj. kr. í fjárlögum 1991. Þessi hækkun skýrist af sérstöku viðbótarframlagi í samræmi við nýgerðan búvörusamning, en því er ætlað að auðvelda bændum sem bregða búi að selja jarðir sínar. Gert er ráð fyrir að fjármagna framlagið að fullu með sölu ríkisjarða, en söluandvirði þeirra er fært á tekjuhlið frumvarpsins.“ Hliðstæð skýring er í greinargerð með frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1993. Það tekjumarkmið, sem þarna var sett, hefur ekki náðst, en hins vegar er ljóst af fyrrgreindum upplýsingum að eftirspurn eftir jarðakaupum, á þeim forsendum sem um ræðir, hefur verið svo lítil að ekki hefur reynt á sjóðinn í því sambandi.