Ferill 217. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 217 . mál.


1176. Nefndarálit



um frv. til l. um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1992.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarp til laga um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1992 til athugunar.
    Fyrir nefndina hafa komið fulltrúar fjármálaráðuneytis og Ríkisendurskoðunar sem gerðu grein fyrir uppsetningu og helstu efnisatriðum reikningsins.
    Í skýringum með reikningsskilareglum reikningsins er bent á að frá og með uppgjöri ríkissjóðs 1989 hafi reikningsskilin færst nær almennum reikningsskilavenjum á markaði með því að færa til bókar allar skuldbindingar og kröfur á A-hluta ríkissjóðs óháð því hvort þær eru gjaldfallnar eða ekki. Ábyrgðum ríkissjóðs er hins vegar hagað með ýmsum hætti og verður því að taka á margvíslegum álitaefnum þegar ákvarða skal reikningsfærslu slíkra ábyrgða.
    Á árinu 1991 var fært til gjalda í ríkisreikningi framlag að fjárhæð 1.633 millj. kr. til Framkvæmdasjóðs Íslands. Fyrrnefnd fjárhæð samsvaraði neikvæðu eigin fé sjóðsins í lok árs 1991. Á árinu 1992 varð hins vegar sú breyting á starfsemi Framkvæmdasjóðs með lögum nr. 3/1992 að hann telst nú með stofnunum í B-hluta ríkisreiknings en var áður utan ríkisreiknings. Samkvæmt endurskoðuðu uppgjöri sjóðsins er eigið fé hans neikvætt um 830 millj. kr. í lok árs 1992. Það er óumdeilt að ríkissjóður ber fulla ábyrgð á þessum skuldbindingum. Hins vegar gildir það sama um Framkvæmdasjóð og nokkra aðra aðila í B-hluta ríkisreiknings að eigið fé þeirra er neikvætt, t.d. Atvinnutryggingarsjóð þar sem eigið fé er neikvætt um 1.713 millj. kr. og Orkusjóð með 26 millj. kr. neikvætt eigið fé.
    Samkomulag varð um það milli fjármálaráðuneytis og Ríkisendurskoðunar að þar til fyrir liggi samræmdar reglur um bókhaldsmeðferð skuldbindinga og ábyrgða ríkisins hjá B-hlutaaðilum verði neikvætt eigið fé umræddra sjóða ekki fært í ríkisreikning að svo stöddu.
    Að lokinni athugun nefndarinnar á frumvarpinu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 3. maí 1994.



Sigbjörn Gunnarsson,

Sturla Böðvarsson.

Gunnlaugur Stefánsson.


form., frsm.



Árni M. Mathiesen.

Árni Johnsen.

Einar K. Guðfinnsson.