Ferill 252. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – . mál.


1196. Svar 252.



menntamálaráðherra við fyrirspurn Svanhildar Árnadóttur um Háskólann á Akureyri.

    Fyrirspurnin er svohljóðandi:
    Hvað líður áætlun um frekari uppbyggingu og eflingu Háskólans á Akureyri og annarra rannsókna- og fræðslustofnana á svæðinu sem miðstöðvar rannsókna- og fræðslustarfsemi á sviði sjávarútvegs?
    Hverjar eru megináherslur sem lagðar eru í áætlanagerðinni?
    Á hvern hátt hefur verið staðið að vinnunni og hvernig miðar henni?
    Hvaða stofnanir eru það sem til skoðunar eru?


    Í fyrsta lagi hefur ríkisstjórnin stuðlað að því að í tengslum við Háskólann á Akureyri og sjávarútvegsdeild hans efldist fræðsla í sjávarútvegsgreinum, rannsóknir í sjávarútvegsgreinum og þróunarstörf í sjávarútvegsfyrirtækjum á Eyjafjarðarsvæðinu. Ný lög um Háskólann á Akureyri voru samþykkt á Alþingi í maí 1992 og á grundvelli þeirra heimilaði menntamálaráðherra að háskólinn kæmi á fót rannsóknastofnun og eru rannsóknir á sviði sjávarútvegs á meðal helstu viðfangsefna hennar.
    Í svari við fyrirspurn um þetta sama efni 10. desember 1992 lýsti ráðherra mikilvægustu þáttum í starfi sjávarútvegsdeildar Háskólans á Akureyri og helstu þáttum sem þá hafði verið unnið að en sjávarútvegsdeildin tók til starfa í janúar 1990. Svo sem mönnum er kunnugt er ekkert sambærilegt nám í boði hérlendis en mun styttra og sérhæfðara nám í útgerðartækni er í boði við Tækniskóla Íslands. Má því segja að sjávarútvegsdeildin sé vísir að miðstöð fyrir fræðslu í sjávarútvegsgreinum á háskólastigi hér á landi. Nám í sjávarútvegsdeild tekur fjögur ár og lýkur með BS-prófi í sjávarútvegsfræði. Megináhersla deildarinnar er þverfagleg samþætting raun-, viðskipta- og tæknigreina, m.a. með sérstakar þarfir atvinnuvegarins í huga.
    Markmið sjávarútvegsdeildar er að mennta einstaklinga í öllum undirstöðuatriðum íslensks sjávarútvegs og þjálfa þá í að beita faglegum vinnubrögðum við stefnumörkun, ákvarðanatöku og stjórnun í greininni. Sjávarútvegsfræðingar frá Háskólanum á Akureyri eiga að vera faglega færir um að gegna stjórnunarstörfum á flestum sviðum sjávarútvegs. Fyrstu sjávarútvegsfræðingarnir voru útskrifaðir nú í janúar 1994 og eru miklar vonir bundnar við störf þeirra tengd sjávarútvegi hér á landi. Þeir höfðu allir fengið vinnu þegar útskrifað var.
    Við stofnun deildarinnar voru gerðir samstarfssamningar við rannsóknastofnanir sjávarútvegsins. Starfsemi Hafrannsóknastofnunar og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins á Akureyri er samofin sjávarútvegsdeildinni, bæði húsnæði og starfsfólk er samnýtt að hluta. Samkomulag var gert um að tiltekinn fjöldi sérfræðinga við rannsóknastofnanir sjávarútvegsins hefði kennsluskyldu við háskólann og má segja að það fyirkomulag sé um margt til fyrirmyndar um samstarf háskóla, rannsóknastofnana atvinnulífs og fyrirtækja.
    Sem dæmi um rannsóknarverkefni sem hafin eru á vegum sjávarútvegsdeildar og samstarfsstofnana má nefna: Rannsókn á vistfræði Eyjafjarðar, rannsókn á ungviði þorskfiska í Eyjafirði og rannsókn á tegundum, útbreiðslu og þéttleika þara í Eyjafirði.
    Í öðru lagi skal nefnt varðandi 1. og 2. spurningu að megináherslur í vinnunni byggja á stefnu ríkisstjórnarinnar í vísindamálum sem unnið var að frá því í nóvember 1992 þar til hún var samþykkt í ríkisstjórn 21. september sl. Í greinargerð með vísindastefnunni (bls. 23 og 26) er lögð sérstök áhersla á að við eflingu rannsóknar- og þróunarstarfsemi úti á landi skipti frumkvæði heimamanna sköpum. Menntamálaráðuneytið hefur haft þetta að leiðarljósi í samskiptum sínum við Háskólann á Akureyri. Ráðherra hefur oft lýst því yfir að hann vilji auka sjálfstæði háskóla í landinu og að virða beri hið akademíska frelsi í hvívetna. Þessu frelsi fylgir sú ábyrgð að háskólar hafi frumkvæði og faglega forustu í málefnum á sínu sviði. Það er von ráðherra að Háskólinn á Akureyri sé þeim vanda vel vaxinn að gegna forustuhlutverki við eflingu Eyjafjarðarsvæðisins sem miðstöðvar í fræðslu og rannsóknum á sviði sjávarútvegs hér á landi.
    Þróunarnefnd Háskólans á Akureyri, sem skipuð var í maí 1991, skilaði skýrslu í júní 1992. Um haustið sama ár skrifaði rektor Háskólans á Akureyri bréf þar sem hann leitaði eftir áliti ráðherra á skýrslunni. Ráðherra svaraði með bréfi, dags. 12. nóvember 1992, þar sem lögð var áhersla á frumkvæði Háskólans á Akureyri og þess óskað að skólinn hefði forgöngu um að vinna úr þeim tillögum sem fram höfðu komið í skýrslu þróunarnefndar. Jafnframt var tekið fram að fulltrúar ráðuneytisins væru að sjálfsgöðu reiðubúnir til frekari viðræðna um áframhaldið.
    Í þeim kafla í skýrslu þróunarnefndar er fjallar um sjávarútvegsdeildina er m.a. vikið að menntun í matvælafræði og vaxandi þörfum fyrir matvælafræðinga við matvælaframleiðslu og eftirlit matvæla. Óvíst er að hráefnisöflun okkar á þessu sviði geti aukist á næstunni og því mikilvægt að þekking okkar á úrvinnslu sjávarfangs aukist og verðmætasköpun greinarinnar um leið. Ráðherra er kunnugt um að innan sjávarútvegsdeildar Háskólans á Akureyri hafa upp á síðkastið verið mótaðar hugmyndir um þróun menntunar og rannsókna á þessu sviði og væntir hann mikils af tillögum deildarinnar í þeim efnum. Einnig væntir hann þess að deildin móti tillögur um aukna fræðslu og rannsóknir á sviði fiskeldis á grundvelli góðrar samvinnu sem skapast hefur milli háskólans, rannsóknastofnana sjávarútvegsins og Fiskeldis Eyjafjarðar.
    Auk þess frumkvæðis sem Háskólanum á Akureyri hefur verið falið hefur menntamálaráðherra í samráði við sjávarútvegsráðherra skipað nefnd til að endurskoða í heild fyrirkomulag fræðslu í sjávarútvegi hér á landi. Í henni eiga sæti Jón Ásbergsson, Útflutningsráði, Stefán Baldursson, menntamálaráðuneytinu, Ágúst H. Elíasson, Samtökum fiskvinnslustöðva, Pétur Bjarnason, Félagi rækju- og hörpudiskframleiðenda, Helgi Kristjánsson skipstjóri og Björn Grétar Sveinsson, Verkamannasambandi Íslands. Þeim tilmælum hefur verið beint til nefndarinnar að í störfum sínum hafi hún hliðsjón af þeim vilja Alþingis að á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu verði rannsókna- og fræðslustarfsemi á sviði sjávarútvegs efld enn frekar.
    Ráðherra hefur ekki í hyggju að skipa fleiri nefndir til að sinna þessum málum en vill endurtaka að menntamálaráðuneytið mun að sjálfsögðu bregðast við þeim tillögum er væntanlegar eru.
    Í þriðja lagi þykir eðlilegt að auk þeirra fyrirtækja og félaga er sýna málinu áhuga tengist opinberar mennta- og rannsóknastofnanir á Eyjafjarðarsvæðinu þeirri vinnu sem vikið hefur verið að hér að framan. Má í þessu sambandi nefna Háskólann á Akureyri, Verkmenntaskólann á Akureyri, Dalvíkurskóla, Hafrannsóknastofnun og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.