Ferill 625. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 625 . mál.


1220. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 36/1974, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, ásamt síðari breytingu.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)



1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
    1. mgr. orðast svo:
                  Á landsvæði því, er um getur í 2. gr., er hvers konar mannvirkjagerð og jarðrask óheimilt nema til komi leyfi umhverfisráðherra að fenginni umsögn Náttúruverndarráðs.
    Á eftir 1. mgr. bætist við ný málsgrein:
                  Kísilgúrnám á botni Mývatns er óheimilt. Þó er heimilt að vinna kísilgúr úr botni á tilteknu svæði í Ytriflóa til ársloka 2010. Svæði þetta er skilgreint nánar í námaleyfi til Kísiliðjunnar hf. útgefnu af iðnaðarráðherra 7. apríl 1993.
    4. mgr. orðast svo:
                  Þá eru heimilar án sérstaks leyfis byggingar samkvæmt staðfestu skipulagi, enda hafi Náttúruverndarráð fallist á skipulagsáætlun þá sem um er að ræða.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Mývatns- og Laxársvæðið í Suður-Þingeyjarsýslu er verndað með lögum nr. 36 frá árinu 1974. Auk þess njóta Mývatn og Laxá alþjóðlegrar verndar samkvæmt samþykkt um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf (Ramsar-samþykktin) sem Ísland varð aðili að 2. desember 1977.
    Mývatn og Laxá eru án efa auðugasta vatnakerfi landsins og eiga sér enga hliðstæðu á norðurhveli jarðar. Fegurð landslags við vatnið og ána er við brugðið og í Mývatnssveit eru fjölbreyttari jarðmyndanir en víðast annars staðar. Það er þó lífríki þessa svæðis sem gerir það einstætt og þá sérstaklega fuglalífið.
    Í Mývatnssveit eru fjölbreytilegir landkostir sem hafa löngum verið undirstaða athafnasams mannlífs. Nýting þessara landkosta krefst varúðar eigi ekki að skaða sérstætt lífríki og landslag. Tilgangur laga nr. 36/1974 um Mývatn- og Laxársvæðið er að stuðla að verndun og er Náttúruverndarráði m.a. falið með lögunum að ákvarða hversu langt teljist óhætt að ganga í hvers konar atvinnustarfsemi á svæðinu þannig að verndun jarðsögulegra minja, landslags, dýralífs og gróðurs sé tryggð.
    Þegar lögin um verndun Mývatns og Laxár tóku gildi hafði Kísiliðjan hf. starfað í rúm sex ár samkvæmt lögum nr. 80/1966. Með bréfi dags. 13. ágúst 1966 veitti iðnaðarráðherra Kísiliðjunni námaleyfi til 20 ára. Nýtt leyfi var gefið út 10. desember 1986 og gildir til ársins 2001 með ákvæðum um endurskoðun eftir fimm ár á þeim takmörkum sem vinnslunni voru sett í vatninu. Áður höfðu orðið töluverð átök um námaleyfið á milli þeirra sem vildu tryggja áframhaldandi rekstur verksmiðjunnar og annarra sem töldu að kísilgúrnám á botni vatnsins hefði skaðleg áhrif á lífríki þess. Niðurstaða þeirrar deilu varð málamiðlun sem fólst m.a. í því að námavinnslan var takmörkuð við ákveðið svæði í Ytriflóa fyrstu fimm árin. Jafnframt var skipuð nefnd sérfræðinga, sem var endurskipuð í janúar 1989, til „að gefa sérfræðilegt mat á því hver áhrif séu af starfrækslu Kísiliðjunnar á lífríki Mývatns og hverjar verði líklegar afleiðingar áframhaldandi starfsemi hennar fyrir lífríki vatnsins, verði starfsleyfi Kísiliðjunnar framlengt og vinnslusvæði hennar stækkað“.
    Sérfræðinganefnd þessi skilaði áliti í júlí 1991. Á grundvelli þeirra niðurstaðna, sem þar eru fram settar, taldi nefndin fjóra kosti koma til greina hvað varðar framhald kísilgúrnáms í Mývatni án þess þó að taka afstöðu til þeirra:
    Að loka Kísiliðjunni hið fyrsta og taka þannig enga áhættu varðandi frekari áhrif hennar á lífríki Mývatns.
    Að framlengja eins og kostur er dælingu í Ytriflóa, þó þannig að áhrif á uppeldissvæði og fæðuöflunarsvæði varpfugla verði sem minnst og ekki verði verulegur setflutningur úr Syðriflóa í Ytriflóa.
    Að leyfa takmarkaða vinnslu í Syðriflóa á svonefndum Bolum, en rannsaka jafnframt áhrif þeirrar vinnslu á lífríki vatnsins. Ef rannsóknir sýndu að slík áhrif yrðu óviðunandi mætti stöðva vinnsluna en leyfa í hennar stað aftur vinnslu í takmarkaðan tíma í Ytriflóa.
    Að leyfa áframhaldandi dælingu kísilgúrs í Mývatni án nokkurra takmarkana.
    Í skýrslu sérfræðinganefndarinnar er athygli sérstaklega beint að setflutningum í vatninu, áhrifum kísilgúrnámsins á þá og hugsanlegri röskun á lífríki vatnsins vegna þeirra.
    Iðnaðarráðherra skipaði í ársbyrjun 1992, í samráði við umhverfisráðherra, ráðgjafahóp til að gera tillögu um rannsóknaáætlun er taki til breytinga á setflutningum sem orsakast af námavinnslu Kísiliðjunnar og meti áhrif þeirra á lífkerfi vatnsins. Jafnframt var hópnum falið að skilgreina nánar þá kosti sem um er að velja hvað varðar takmarkanir á kísilgúrnámi verksmiðjunnar meðan á rannsókn stendur. Ráðgjafahópurinn skilaði áliti í mars 1992 þar sem m.a. var lagt til að efnistaka Kísiliðjunnar hf. úr botni Mývatns verði áfram á sama svæði og áður í Ytriflóa meðan frekari rannsóknir verða gerðar á setflutningum, en námaleyfið yrði síðan endurskoðað í ársbyrjun 1993 þegar niðurstöður þeirra rannsókna lægju fyrir.
    Iðnaðarráðherra breytti námaleyfinu í samræmi við tillögu ráðgjafahópsins 1. apríl 1992 og umhverfisráðherra skipaði starfshóp 6. maí 1992 til að annast rannsóknirnar. Í þriggja ára rannsóknaáætlun, sem hópurinn vann eftir, voru fram settar eftirfarandi fjórar meginspurningar:
    Hvernig er setflutningum háttað í Mývatni miðað við núverandi ástand?
    Hvernig er líklegt að setflutningum hafi verið háttað fyrir námavinnslu og landris?
    Hvernig er líklegt að setflutningar breytist við áframhaldandi kísilgúrnám miðað við mismunandi staðsetningu námasvæða?
    Hver eru líkleg áhrif breytinga á setflutningum á lífríkið?
    Gert var ráð fyrir að á fyrsta ári rannsóknanna fengjust svör við fyrstu þremur spurningunum sem allar sneru beint að flutningi setefna í vatninu en áhersla yrði lögð á lífríkisþáttinn síðari tvö ár rannsóknanna.
    Verkefnishópurinn skilaði greinargerð 26. mars 1993 um niðurstöður rannsókna ársins 1992. Rannsóknirnar beindust annars vegar að mælingum á straumum og setflutningum í vatninu og vindi við vatnið og hins vegar að gerð reiknilíkans til að líkja eftir straumum og setflutningum í vatninu. Líkanið var síðan notað til þess að meta hvernig setflutningum er háttað í Mývatni miðað við núverandi ástand og hvernig því var háttað fyrir námavinnslu Kísiliðjunnar hf. og landris samhliða Kröflueldum. Líkanið var einnig notað til þess að áætla breytingar á setflutningum í vatninu miðað við mismunandi staðsetningu nýrra námasvæða fyrir verksmiðjuna. Helstu niðurstöður þessara rannsókna eru:
    Setflutningar í Mývatni ráðast fyrst og fremst af vindknúðum straumum í vatninu, einkum suðvestlægum vindum. Setflutningar verða mun meiri þegar vindhraði fer yfir 5 vindstig en áður hefur verið talið og samsvarar það magn sem á ferðinni er nýmyndun sets í mörg ár.
    Ytriflói er tiltölulega einangraður frá syðri hluta vatnsins hvað varðar strauma og setflutninga. Óverulegar breytingar hafa átt sér stað hvað varðar setflutninga frá Ytriflóa til Syðriflóa við þá röskun sem orðið hefur vegna námavinnslu Kísiliðjunnar og landriss vegna eldsumbrota.
    Frekari námavinnsla í Ytriflóa mun ekki hafa teljandi áhrif á Syðriflóa, a.m.k. ekki í tengslum við strauma og setflutninga. Jafnframt eru vinnslumöguleikar í Ytriflóa talsvert meiri en áður hefur verið talið.
    Námavinnsla á svokölluðum Bolum í Syðriflóa mundi samkvæmt líkaninu hafa veruleg áhrif á setflutninga og strauma í Syðriflóa á Bolum. Settap í gryfjum á Bolum yrði mun meira en nýmyndun sets á Bolum. Að mati verkefnishópsins hefði langvarandi námavinnsla á Bolum í för með sér verulegar breytingar á lífsskilyrðum í Mývatni. Sú námavinnsla, sem helst er talin möguleg sunnan Teigasunds, er vinnsla grunnra gryfja til suðurs frá Neslandatanga eða djúpra gryfja með lítið flatarmál á norðanverðum Bolum eða sambland af báðum þessum kostum.
    Þessar niðurstöður veittu skýrari svör en búist var við, sérstaklega hvað varðar þá áhættu sem tekin yrði með því að heimila námavinnslu í Mývatni sunnan Teigasunds. Ljóst þykir að námavinnsla í Syðriflóa getur haft í för með sér verulegar breytingar á lífsskilyrðum í Mývatni.
    Iðnaðarráðherra gaf út nýtt námaleyfi fyrir Kísiliðjuna hf. í samráði við umhverfisráðherra 7. apríl 1993. Við leyfisveitinguna var tekið mið af niðurstöðum rannsókna og þeim félagslegu og fjárhagslegu hagsmunum sem í húfi eru fyrir íbúa svæðisins og þjóðfélagið í heild. Ákveðið var að kísilgúrnám af botni Mývatns verði bundið við afmarkað svæði í Ytriflóa en námaleyfið jafnframt framlengt til ársloka 2010 í því skyni að eyða óvissu um framtíð fyrirtækisins. Þau svæði, sem ekki verður heimilt að vinna kísilgúr úr í Ytriflóa, eru þýðingarmikil fyrir afkomu fugla- og fiskstofna Mývatns og Laxár. Þar eru t.d. riðstöðvar urriða og svæði sem eru íslaus að vetrum og því athvarf fyrir þær endur sem hafa vetursetu á Mývatni og Laxá. Þessar vakir eru einnig þýðingarmiklar fyrst á vorin þegar aðrar andategundir koma til Mývatns af vetrarstöðvum sínum í Evrópu. Á þeim svæðum í Ytriflóa, þar sem óheimilt verður að vinna kísilgúr, eru einnig mikilvægar uppeldisstöðvar fyrir andarunga og helstu fæðuöflunarsvæði gráanda. Þarna er einnig verulegur hluti flórgoðastofnsins á Íslandi sem þýðir að verði lífsskilyrði hans á þessu svæði skert að ráði er hætta á að stofninn minnki verulega eða hverfi.
    Sú ákvörðun, sem tekin var með útgáfu nýs námaleyfis, að heimila kísilgúrnám í Mývatni til ársins 2010 en takmarka vinnsluna við tiltekið svæði í vatninu á að tryggja að ekki verði um verulega röskun á lífríki vatnsins að ræða vegna kísilgúrnáms í framtíðinni. Mat þetta er byggt á þeirri vitneskju sem liggur fyrir um dýr og gróður og um eðli og umfang strauma og setflutninga í vatninu. Það er skoðun umhverfisráðuneytis og iðnaðarráðuneytis að með ákvörðun þessari hafi náðst ásættanleg lausn þar sem í senn er tekið tillit til umhverfisverndar og atvinnusjónarmiða.
    Frumvarp þetta um breytingu á lögum um verndun Mývatns og Laxár er flutt með hliðsjón af þessari sameiginlegu niðurstöðu umhverfis- og iðnaðarráðuneytis.
    Eðlilegt þykir að gera einnig þá breytingu á lögunum að umhverfisráðherra veiti leyfi skv. 3. gr. í stað Náttúruverndarráðs. Breyting þessi er liður í endurskoðun á hlutverki Náttúruverndarráðs og stjórn náttúruverndarmála sem leiðir af stofnun umhverfisráðuneytis. Náttúruverndarráð fjallaði um frumvarp þetta á fundi sínum 6. apríl 1993 og samþykkti að mæla eindregið með að frumvarpið verði að lögum.