Ferill 260. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 260 . mál.


1303. Frumvarp til laga



um viðauka við lög nr. 39 15. maí 1990, um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins.

(Eftir 2. umr., 11. maí.)



1. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. laganna skal ekki inna af hendi greiðslur til Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins vegna útflutnings frá gildistöku laga þessara. Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. laganna skal ekki inna af hendi greiðslur af verðjöfnunarreikningum sjóðsins vegna útflutnings frá sama tíma. Sjávarútvegsráðherra getur með reglugerð ákveðið að inn- og útgreiðslur hefjist að nýju þegar leyfilegur árlegur heildarafli af þorski fer yfir 250.000 lestir.

2. gr.


    Þær innstæður, sem standa inni á reikningum á nafni einstakra framleiðenda í Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins, skulu greiddar til viðkomandi framleiðanda sem fyrst eftir gildistöku laga þessara. Aðrar eignir sjóðsins skulu renna til reksturs Hafrannsóknastofnunarinnar utan 10 millj. kr. sem skulu renna til Félags rækju- og hörpudiskframleiðenda.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.