Forkaupsréttarákvæði fiskveiðistjórnarlaga

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 14:05:52 (3788)


[14:05]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég geri ekki ráð fyrir að hv. 5. þm. Suðurl. hafi gert ráð fyrir því að hann yrði tekinn alvarlega. Ég framkvæmi auðvitað lögin eins og Alþingi hefur samþykkt þau og eins og þeir hv. þm. Framsfl. aðrir en hv. 5. þm. Suðurl. hafa skýrt þau í þessari umræðu og þau eru býsna skýr. (Gripið fram í.) Ég hef líka sagt að ég er tilbúinn til þess að ræða við aðra menn í þinginu, til að mynda formann allshn., um það að breyta öðrum lögum, hlutafélaglögunum ef það er áhugi fyrir því að setja frekari takmarkanir fyrir stofnun hlutafélaga. En ég vil spyrja hv. þm., þó ég viti að hann geti ekki svarað því nú þá getur hann gert það síðar en bið hann að taka það til hugleiðingar til að mynda vegna hagsmuna Vestmannaeyinga. Þar hafa menn í samráði við önnur fyrirtæki í Þorlákshöfn til að mynda stofnað sameiginleg fyrirtæki til þess að treysta fiskveiðar og fiskvinnslu. Vill hann setja inn í fiskveiðistjórnarlögin eða hlutafjárlögin ákvæði sem takmarkar slíka samvinnu milli byggðarlaga? Gera öðru byggðarlaginu þá kleift að hindra það að slíkir samningar geti farið fram? ( GÁ: Útúrsnúningar.) Þetta verður hv. þm. að hugleiða áður en allar takmarkanirnar eru settar.
    Aðalatriðið er og það er stóri vandi hv. þm. (Gripið fram í.) í þessari umræðu að hann vill bæði eiga kökuna og éta hana. Hann fagnar því að framsalsákvæðin skuli vera með þeim hætti sem raun ber vitni þegar þau leiða til þess að þeir sem hann er í umboði fyrir hafa aukið aflaheimildir sínar ( GÁ: Segðu hvað þú ætlar að gera . . .  ) en hann vill vera á móti þeim í þeim tilvikum þar sem aðrir njóta sama réttar. Þingmaður sem er í slíkum vanda með sjálfan sig ( GÁ: Talaðu um sjálfan . . .  .) hann á að hugsa svolítið meira áður en hann stendur upp í ræðustól á Alþingi.