Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 14:15:36 (3868)


[14:15]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það eru a.m.k. tvö ár síðan ég lýsti þeim skoðunum mínum, bæði á fundi Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda, að ég teldi forsendur búvörusamningsins brostnar eins og þær voru hugsaðar af þeim sem undirrituðu samninginn á öndverðu ári 1991 og hef boðið bændum að við færum að ræða um það hvort ekki sé rétt að taka upp aðra framleiðslustýringu en verið hefur og sveigjanlegri. Það er því síður en svo að ég hafi ekki vikið að þessum málum.
    Ég vil líka segja við hv. þm., því hann er kunnugur atvinnustefnu Framsfl., Framsfl. var hér í ríkisstjórn samfleytt í 20 ár frá 1971 til 1991 og hv. þm. er að tala um heildstæða stefnu í atvinnumálum. Hún leiddi til þeirra hörmunga sem við sjáum sauðfjárræktina nú í og í þessum búvörusamningi var um það samið, eins og hv. þm. er kunnugt, að það yrðu sérstök uppkaup ríkisins á framleiðslukvótum til haustsins 1991. Það væri rétt að hv. þm. gerði grein fyrir því hvernig á því stóð að atvinnuástandið var með þeim hætti þetta sumar að menn treystu því ekki að þeir gætu fengið atvinnu annars staðar. Hverjir höfðu farið með landbúnaðarmálin lengst af þetta tímabil? Hvernig eru sjávarútvegsmálin? Við sjáum hvernig komið er fyrir þorskstofninum, við erum báðir kunnugir fyrir norðan. Við vitum hvernig þorskstofninn hefur dregist saman. Var það hin heilsteypta stefna formanns Framsfl., Halldórs Ásgrímssonar, sem leiddi til þess hruns sem við horfum nú á í sambandi við þorskstofninn?
    Svo vil ég spyrja hv. þm. af því hann talar um að búvöruframleiðslan sé sveigð til ákveðinna landshluta. Ég hef spurt þá að því á stéttarsambandsþingi hvort þeir geti hugsað sér þvílíkt. Og ég vil spyrja hann af því hann talar um að það eigi að miða við landkosti hvort hann hafi einhverjar ákveðnar hugmyndir um það hvernig á að snúa sér í þeim efnum, t.d. í okkar eigin kjördæmi, Norðurlandskjördæmi eystra, hvaða skoðun hann hafi á framleiðslustýringu í því kjördæmi út frá þessum forsendum sem hann var að lýsa hér.