Flutningur tónlistar og leikhúsverka í sjónvarpi

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 16:11:26 (3943)


[16:11]
     Fyrirspyrjandi (Stefán Guðmundsson) :
    Virðulegi forseti. Í sjálfu sér kemur mér ekki mikið á óvart í svari hæstv. ráðherra þó að ég hefði vissulega vænst þess að meiri bjartsýni kæmi fram í máli hans. Ég verð að segja það sérstaklega að hvað líður öðrum lið þessarar fyrirspurnar finnst mér gæta þar mikillar íhaldssemi sem veldur mér ætíð vonbrigðum þegar talað er í þeirri tóntegund. Ég hef leitast við að afla mér upplýsinga um málið og meðflm. minn á þáltill. var upphaflega Þórhildur Þorleifsdóttir, sú merka leikhúskona sem gerþekkir þessi mál, og við veltum þessum málum mjög lengi fyrir okkur og komumst að því að hér væri ekki um stórkostleg vandamál að ræða. Víða erlendis er þetta gert og þykja stórviðburðir þegar sjónvarpað er beint frá frumsýningum mikilla og góðra leikhúsverka.
    En ég verð þó að vona að hæstv. ráðherra reyni að hamra járnið aðeins lengur. Ég get trúað því að hann gefist ekki upp við það. Mér er ljóst að eitt af því sem þarf að taka til umræðu eru auðvitað kjaramál þeirra aðila sem þarna er verið að tala um. Það er eitt af því. En ég vil að lokum, virðulegi forseti, segja hæstv. ráðherra að við íbúar landsbyggðarinnar bíðum mjög eftir því að ráðherra gangi fram í þessu máli miðað við þá samþykkt sem hér var gerð. Verum minnug þess að ríkisfjölmiðlarnir eru eins og segir í útvarpslögum, Ríkisútvarpið er sameign þjóðarinnar allrar og Ríkisútvarpinu ber þess vegna ákveðnar skyldur gagnvart þegnum landsins alls. Það bið ég hæstv. menntmrh. að hafa í huga þegar hann ræðir við forstöðumenn þessara stofnana.