Vörugjald af olíu

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 15:54:23 (4022)


[15:54]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég fagna þessu frv. og lýsi mig í megindráttum hlynntan því. Ég hef lengi verið áhugamaður um að breyting af þessu tagi næði fram að ganga, þ.e. að innheimta þungaskatts færðist yfir í þetta form að gjaldið yrði lagt á við sölu olíu í stað þess að leggja það á sem fastagjald eða kílómetragjald. Ég er þeirrar skoðunar að takist sæmilega til með útfærslu á þessari framkvæmd eigi að vera hægt að tryggja mjög skilvirkari innheimtu á gjaldinu og í raun og veru réttlátari þar sem báðar hinar aðferðirnar eru í raun ósanngjarnar í vissum tilvikum og ekki að öllu leyti heppilegur mælikvarði á það hvernig byrðum af gjaldtöku af þessu tagi sé dreift. Ég held að það eigi að geta orðið til góðs að færa þennan gjaldstofn yfir á eldsneytið eins og er með bensín. Því ætti að fylgja hvatning til þess að nýta þessa orku vel og nota hagkvæmar og sparneytnar bifreiðar til aksturs að þessu leyti eins og öðru og margt fleira kemur þar til.
    Ég vil enn fremur lýsa því yfir að ég held að sú útfærsla sem hér er lögð til sé í grófum dráttum sú skynsamlegasta. Það hefur margt verið skoðað í þessum efnum á undanförnum árum og hæstv. ráðherra fór yfir það að nokkru leyti í framsöguræðu sinni, þ.e. hugmyndir um að byggja upp tvöfalt dreifikerfi fyrir dísilolíu og selja hana annars vegar með álögðum skatti og hins vegar án og þá annan flokkinn litaðan en hinn ólitaðan. Tæknilega er þetta að mörgu leyti mjög þróuð aðferð og auðvelt að útfæra hana þannig að í henni felist möguleikar til þess að hafa eftirlit þannig að óyggjandi sé hvort fært sé þarna á milli. En það er alveg ljóst að hún er dýr, henni yrði samfara mikil fjárfesting bæði hjá einkaaðilum, olíudreifingaraðilum og öðrum. Ég sannfærðist um þegar ég skoðaði þessi mál fyrir nokkrum árum og enn frekar nú að það væri of dýrt og ástæðulaust að leggja út í slíkt nema sýnt væri fram á að engin önnur aðferð væri nothæf í þessum efnum. Ég held að flestum þyki nóg um að vera með meira og minna þrefalt eða fjórfalt bensín- og olíudreifingarkerfi uppbyggt í landinu þó að það yrði ekki tvöfaldað með því að öll félögin þyrftu hvert fyrir sig að byggja upp dreifikerfi sem annars vegar væri fyrir litaða dísilolíu eða hins vegar ólitaða. Sama ætti auðvitað við um fjölmarga notendur því að ýmsir þeirra kæmust ekki hjá því að nota hvoru tveggja.
    Ég held að sú aðferð að byggja á álagningu gjaldsins á olíusöluna en endurgreiða það svo í þeim tilvikum þar sem menn eiga ekki að bera skattinn, eða ekki nema að hluta til, með þeirri undantekningu þó að gjaldið sé fellt niður gagnvart flotanum, sé skynsamlegasta leiðin og sú sem er í skástu samræmi við aðstæður í landinu. Ég held að það sé rétt að niðurfellingu gagnvart útgerðinni eða flotanum sé að ræða vegna þess að væru menn þar að byggja á endurgreiðslukerfi rúlluðu þar í gegn mjög háar fjárhæðir auk þess sem tæknilega er það orðið svo að sú olía sem þar er notuð er ekki nema að litlu leyti sambærileg við það sem notað er í landi.
    Út af fyrir sig mætti hugsa sér að einhvers konar löggildingarkerfi yrði sett á laggirnar til eftirlits með þeim þætti málsins en satt best að segja hef ég ekki miklar áhyggjur af því að veruleg hætta sé

á misnotkun á þeim enda, þ.e. að dísilolía af skipum og bátum verði notuð til annarra óskyldra nota en ætlunin er. Hitt er auðvitað miklu erfiðara að útfæra reglur sem eru sæmilega heldar gagnvart því að aðilar í atvinnurekstri, svo sem í iðnaði og landbúnaði og öðru slíku og eiga ekki að bera þennan skatt að ekki geti orðið um einhver brögð af því að ræða að orka frá þeim aðilum lendi til notkunar á tæki sem ættu að bera skattinn. En þá verða menn auðvitað fyrst og fremst að glíma við það að setja þar reglur sem séu sæmilega heldar og sanngjarnar í þessu efni og menn geta í öllu falli huggað sig við það að fyrirkomulagið eins og það er í dag er síður en svo gallalaust þannig að menn eru ekki að hverfa frá neinu sem mikil eftirsjá er í í þeim efnum. Þrátt fyrir tækniframfarir og endurteknar tilraunir til þess að betrumbæta innheimtu þungaskatts hafa menn í raun jafnoft orðið fyrir vonbrigðum því menn hafa jafnoft fundið upp einhverjar aðferðir til þess að komast dálítið á svig við það kerfi að sagt er. Allt er það svo sem meira og minna ósannað en það hlýtur að mega, hæstv. forseti, fara svona með það hér sem er almannarómur að á því séu talsverð brögð.
    Ég er því ekki feiminn við að leggja það til að menn helli sér í þá vinnu, m.a. vegna þess að mér er mætavel kunnugt um að það fyrirkomulag sem ríkir í þeim efnum í dag er meingallað.
    Ég held að skattlagning í gegnum olíuna verði líka að breyttu breytanda sanngjarnari á ýmsan hátt. Því verður varla á móti mælt að a.m.k. hvað ökutækin snertir þá er eðlilegt að menn greiði nokkurn veginn skatt í samræmi við notkun sína á vegunum og ökutækin eru jú þar. Eldsneytisnotkunin hlýtur að endurspegla að miklu leyti aksturinn þó auðvitað sé til í dæminu að einhverjir aðilar fari illa út úr því vegna þess að þeir nota talsverða orku án þess að um mjög mikinn akstur sé að ræða, þ.e. að tækin gangi í kyrrstöðu o.s.frv. Mismunandi vélastærðir og annað spila þar að sjálfsögðu inn í en það verður aldrei róið fyrir hverja vík í þessum efnum og ekkert kerfi mun finnast sem ekki hefur í sér fólgna einhverja slíka ágalla. Komi það í ljós að svona skattlagning verði bersýnilega ósanngjörn fyrir einhvern notandahóp má líka alltaf hugsa sér að hægt sé að finna einhverja leiðréttingarformúlu sem væntanlega yrði að vera í formi endurgreiðslna til slíkra hópa. Hvort sem það væru einhverjir sérhæfðir notendur ökutækja, þungaflutningatækja eða annað því um líkt, eða vinnuvélaeigenda eða annarra slíkra aðila.
    Varðandi endurgreiðslureglur almennt séð þá tel ég að það sé fyrst og fremst mikilvægt að hafa þar að leiðarljósi að í þeim felist hvati til þess að nýta orkuna vel. Hverjar þær reglur sem settar verða um þetta mega ekki verka á þann veg að þær ýti undir sóun á þessari orku. Það er alveg sérstakt markmið og keppikefli að mínu mati að hafa það að leiðarljósi. Það er rétt og skylt af ýmsum ástæðum, þjóðhagslegum og umhverfisverndarsjónarmiðum o.s.frv.
    Á hinn bóginn þurfa reglurnar að mínu mati samt að vera þannig að þær séu ívilnandi eða hvetjandi til notkunar á dísilolíu. Það er að mínu mati til skammar hversu óhagstætt það hefur verið að reka dísilbifreiðar á Íslandi í gamla kerfinu og bæri náttúrlega að stefna að því að sú notkun stórykist á næstu árum á kostnað bensínvéla og koma þar ýmsir hlutir til. Hæstv. ráðherra nefndi hér suma eins og orkusparnað og umhverfissjónarmið. Það mætti nefna margt fleira. Það er gangöryggi, viðhald og fleira sem þar kemur til sögunnar og ég held að mæli allt frekar með aukinni notkun á þeirri hlið.
    Að þessu leyti til er smíði þessara uppgjörs- og endurgreiðslureglna talsvert vandaverk og ég vona að menn leggi í það þá vinnu sem nauðsynleg er til að gera það sem best úr garði í fyrstu umferð. Síðan verður náttúrlega reynslan og framkvæmdin að einhverju leyti að skera úr um hvernig til tekst og menn verða að ganga að því með opnum huga að sjálfsagt finnast ekki einhlítar reglur um þetta í fyrstu tilraun og að einhverju leyti verður sjálfsagt óhjákvæmilegt að laga þetta til í ljósi þess hvernig til tekst og hvernig reynslan af þeim verður. En það er einfaldlega verkefni sem ég held að menn eigi að skella sér í og hella sér út í með uppbrettar ermar og vera ekki neitt kjarklausir gagnvart því þó þeir rekist þar á einhverja erfiðleika sem þurfi að leysa og eru til þess að leysa þá.
    Hæstv. forseti. Ég er jákvæður í garð þessa frv. og segi að ég vildi gjarnan sjá að okkur ynnist tími til að koma því í gegn á þessu þingi og hrinda þessari breytingu í framkvæmd. Ég held að hún sé löngu tímabær og þörf. En það verður þó að metast út frá því hversu þroskað málið er og hvort það sé komið á brúklegt form og menn nægjanlega vel undirbúnir sem um framkvæmdina eiga að véla til þess að hægt sé að láta þetta ganga í gildi með skaplegum hætti á þessu ári. Ef ekki þá er í sjálfu sér engin sérstök ástæða til að afgreiða lagafrv. hér því það má eins vinna í því áfram samtímis því að framkvæmdin er undirbúin.