Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 16:53:37 (4029)

[16:53]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Því miður verður ekki hægt að svara öllu því sem kom fram í ræðu hv. þm. en mér sýnist að hérna sé verið að reyna að koma í veg fyrir það að mál fari til nefndar. Það er í fyrsta lagi vegna þess að það er beðið um tvöfaldan tíma í tveimur málum sem eru nákvæmlega á sama meiði þannig að í raun og veru er umferðin fjórföld, það er fjórfaldur tími má segja. Þriðja frv. sem er nákvæmlega sama efnis á svo eftir að ræðast líka. Ætli þar verði ekki tvöfaldur tími þannig að hérna er auðvitað verið að beita tæknilegum bolabrögðum til þess að koma í veg fyrir að málið fari til nefndar.
    Í öðru lagi vil ég taka fram að það að nefna unglingadrykkju í þessu sambandi hélt ég að væri fyrir neðan virðingu hv. þm. Það vita allir og þeir sem þekkja til þess vandamáls að þar er fyrst og fremst á ferðinni brugg en ekki áfengi sem selt er í Áfengisverslun ríkisins sem veldur mestum usla. Það er engin breyting að eiga sér stað í áfengisstefnu Íslendinga því að smásalan breytist ekkert og gjaldið verði það hátt að það verður ekki um verðbreytingar að ræða.
    Þá vil ég geta þess að þrátt fyrir fyrirvara sem gerðir voru á sínum tíma við EES þá hefur dómur fallið út af finnsku einokuninni. Svíar hafa breytt hjá sér og Norðmenn eru líklega að breyta líka þannig að það eru að verða breytingar hjá þeim þjóðum sem við höfum sótt fyrirmynd til, stórkostlegar breytingar í þessum efnum án þess að nokkur héraðsbrestur sé þar. Forstjóri Áfengisverslunarinnar hefur tekið þátt í þessu starfi þannig að það er ekkert verið að fara á bak við starfsmenn eða stjórnendur þar og loks við ég segja að dómsmrh. mun að sjálfsögðu koma til leiks þegar hann mælir fyrir sínu frv. Það eru til svo íhaldssöm sjónarmið í þessum efnum og það verða margir hissa þegar maður minnist á að það eru örfá ár síðan að afnuminn var einkaréttur ríkisins af verslun með eldspýtur á sama tíma og menn gátu hvar sem er kveikt kveikjara hér á landi. Og því miður, eins og hér hefur heyrst, virðulegi forseti, þá eru fulltrúar þess tíma enn þá að tala á hinu háa Alþingi.