Yfirtökutilboð

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 16:24:41 (4511)


[16:24]
     Fyrirspyrjandi (Matthías Bjarnason) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir upplýsingarnar svo langt sem þær náðu. Út af því sem hann minntist á Evrópuráðið þarf Evrópa ekki á þvingaðri samræmingu lagareglna að halda heldur á heilbrigðri samkeppni milli ríkisstjórna. Refskák yfirtökufélaga þarfnast ekki Evrópureglna heldur skýrra reglna einstakra landa sem farið er eftir svo fjárfestar viti hvað þeir eru að kaupa og verðleggi hlutabréfin í samræmi við það. Góðar lagareglur munu nægja til að laða hluthafa, sem eru í minni hluta, til kaupa á hlutabréfum jafnframt því að það tryggir möguleika á yfirtöku til að halda stjórnendum hlutafélaganna við efnið. Þrír meginþættir skipta hér máli. Upplýsingar um hlutafé, upplýsingar um tilboð og sanngjörn meðferð á hluthöfum þeirra félaga sem fyrirhugað er að yfirtaka. Því síðastnefnda ætti að vera hægt að ná, ekki með því að tilboðsgjafar komi með endanleg tilboð heldur að þeir kaupi hlutfallslega jafnmikið af öllum hluthöfum sem vilja selja. Hvert land verður samt sem áður að móta sínar vinnureglur í samræmi við hefð í eigin fjármálaheimi.
    Hæstv. ráðherra sagði að margir efist um gildi þessara reglna og tillagna sem tillagan fól í sér. Ég segi: Er ekki þessi tillaga samþykkt Alþingis Íslendinga? Ef Alþingi Íslendinga samþykkir að þetta eða hitt skuli gert þá á framkvæmdarvaldið að verða við því sem Alþingi Íslendinga samþykkir en ekki hvað einhverjir menn úti um borg og bý segja um þetta atriði eða hitt.
    Þetta finnst mér vera höfuðatriðið. Það sem gert hefur verið nær ekki nema að mjög takmörkuðu leyti og það óréttlæti heldur áfram að minni hlutinn er lítilsvirtur í fjölmörgum hlutafélögum í landinu.