Iðnþróunarsjóður

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 17:41:08 (4607)


[17:41]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég saknaði þess að hæstv. ráðherra veitti einhverja úrlausn varðandi þriðju fyrirspurnina, að því er varðar EES-samninginn sem og ákvarðanir Eftirlitsstofnunar EFTA um málsmeðferð og efni reglna á sviði ríkisaðstoðar frá 19. jan. 1994. Auðvitað getur þingnefnd skoðað þetta, en það hefði verið æskilegt að megininntakið kæmi fram í greinargerð með frv. sem þarna er um að ræða og setur starfsemi sjóðsins takmörk vegna þessara tilvitnuðu ákvæða.
    Varðandi síðan spurninguna um gildistíma laga þá vil ég ítreka það sjónarmið að mér finnst í rauninni ekki boðlegt að fara að setja svo stuttan gildistíma þessarar löggjafar með greinilegri vísan til ríkisstjórnarsamþykktar frá 17. febr. sl. því að þar er auðvitað ljóst samhengi á milli þar sem um er að ræða mjög stórt mál sem er spurningin um sameiningu fjárfestingarlánasjóða atvinnulífsins. Og hvers vegna ætti að fara að binda hendur komandi ríkisstjórnar að því er varðar þetta, að þurfa að fara að brjóta upp löggjöf um Iðnlánasjóð eða breyta henni þegar ætti að vera hægurinn hjá að sníða löggjöfina a.m.k. það skýra að þetta geti gengið um eitthvert árabil, sem og hitt að auðvelt er að fella lög úr gildi og ganga frá þeim í tengslum við þá skipan mála sem hér eru hugmyndir um og ég ætla ekki að ræða út af fyrir sig frekar.