Flugmálaáætlun 1994--1997

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 18:05:20 (4616)


[18:05]
     Kristinn H. Gunnarsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Vegna þess sem fram kom hjá hæstv. samgrh. er óhjákvæmilegt að taka það fram, því að hann virðist ekki hafa hlýtt á athugasemd mína, að ég var ekki að gera athugasemd við störf forseta. Ég var að skýra frá fundarhaldi í þingnefnd og gera athugasemdir við það og óskaði eftir viðbrögðum forseta við því. Ég þakka forseta fyrir undirtektir hans við fyrirspurn minni en ítreka það að ég mun ganga eftir frekari svörum en unnt er að veita nú. Þegar fundur hefst að nýju að loknu kvöldmatarhléi mun ég ganga eftir því við forseta að fá svör við því hver verði viðbrögð forseta gagnvart þeim fundi sem haldinn var í trássi við 20. gr. þingskapa sem eru eins og allir vita fullmektug lög og menn eiga að fara að lögum, líka sjálfstæðismenn þó að þeim hætti stundum til að vera a.m.k. á jaðrinum í framkvæmd sinni. Og veit ég að hæstv. samgrh. kannast mætavel við það.
    Ég vil svo einnig biðja hæstv. forseta að kanna það í leiðinni, til þess að unnt verði að upplýsa það eftir kvöldmatarhlé, hvort forseti hafi veitt leyfi fyrir þessu fundarhaldi. Ef ekki þá er málið ljóst hvað forseta varðar en hafi verið sótt um leyfi forseta og það veitt þá er nauðsynlegt að fá upplýst hvort forseta hafi verið gerð grein fyrir því að nefndarmaður gerði athugasemd við að fundur yrði haldinn.
    Þetta tel ég nauðsynlegt að verði upplýst síðar á þingfundinum og ég vænti þess að forseti gangi í það að afla svara við spurningunum og skýra frá þeim viðbrögðum sem forseti hyggst grípa til varðandi þennan umrædda fund en ég ítreka að mér er mjög misboðið að formaður nefndarinnar skuli hafa haldið fund í trássi við afstöðu mína og sem mótast af því að mér var skylt að vera við þingstörf og var reyndar kvaddur í þingsalinn að boði forseta.