Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 12:33:36 (4949)


[12:33]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 15. þm. Reykv. spurði úr pontu lögmætra spurninga. Hann spurði að því hvort leikurinn frá 1989 og 1990 yrði leikinn hér aftur. Hver var sá leikur, hv. þm.? Hann var fólginn í því að tveir þingmenn stjórnarandstöðunnar, Svavar Gestsson og Ólafur Ragnar Grímsson, tóku undir kröfur kennara um mikla launahækkun og bættu um betur. Þeir gerðust ráðherrar skömmu seinna, menntmrh. og fjmrh. Þá sneru þeir dæminu við, vildu ekki semja við kennara, köstuðu framhaldsskólakennurum út í sex vikna verkfall, gerðu tímamótasamning við kennara og sviku hann með bráðabirgðalögum. Ég get fullvissað þingmanninn um það að þessi hörmulegi atburður mun ekki endurtaka sig nú, fyrst hann spurði spurningarinnar.