Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 13:36:41 (262)


[13:36]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Kannski er ein meginástæðan fyrir því að þessari umræðu var frestað í gær sú að ekki var mættur í þingsalinn hæstv. heilbr.- og trmrh. og nú sé ég þegar umræðan hefst að hann er ekki enn mættur.
    ( Forseti (SalÞ) : Forseti vill láta þess getið að hæstv. heilbrrh. mun verða á þessum fundi og væntanlega er hann rétt ókominn í hús eða er á leiðinni.)
    Það er ágætt að vita það, ég þakka forseta. Ég mun þá byrja á öðrum þætti í ræðu minni sem snýr að vaxtamálum sem einnig voru talsvert til umfjöllunar í gær. Þegar hæstv. heilbr.- og trmrh. kemur mun ég reyna að beina orðum mínum til hans þó svo að það sé rétt að vaxtamálin skipta hann örlitlu máli þar sem hann er viðskrh.
    ( Forseti (SalÞ) : Hæstv. heilbr.- og trmrh. er kominn í hús, hv. þm.)
    Það er aldeilis fínt. Ég þakka hæstv. forseta fyrir það.
    Það voru merkilegar upplýsingar sem komu fram í gær hjá hæstv. fjmrh. þar sem hann gat þess að vextir á skammtímapappírum færu hækkandi. En þegar menn lesa í gegnum fjárlagafrv. er alveg ljóst að þar er gert ráð fyrir því að vextir fari lækkandi á árinu 1995. Og enn þá fróðlegra var það þegar hæstv. fjmrh. sagði að þrátt fyrir að vextir væru á uppleið á skammtímaríkispappírum þá gætu bankarnir og ættu að lækka sína vexti. Hvernig í ósköpunum fer þetta nú saman, hæstv. fjmrh., ef menn eru í raun og veru að tala um að það sé einhver samkeppni um þá fjármuni sem eru á markaðinum hverju sinni? Fyrir utan það að bankarnir hafa ekki treyst sér til raunverulegrar vaxtalækkunar og vextir hafa í raun alls ekki lækkað í bankakerfinu þar sem bankarnir hafa brugðist við kröfum ríkisstjórnarinnar um handaflsaðgerðir til lækkunar vaxta með því að hækka þjónustugjöldin. Þegar upp er staðið og þjónustugjöldin og vextirnir eru metnir saman og það skoðað hvað það er sem skuldararnir eru að greiða þá er ekki um neina vaxtalækkun að ræða heldur hið gagnstæða, að vextir eru sennilega örlítið hærri en áður.
    Fyrir utan þann mikla áhuga sem hæstv. fjmrh. hefur sýnt markaðstengingu ríkisverðbréfa, hvort sem það eru húsnæðisbréf, ríkisvíxlarnir eða ríkisskuldabréfin, þar sem hann segir að markaðurinn hafi náð til þess að lækka vextina þá er það síður en svo. Það eru handaflsaðgerðir stjórnvalda sem hafa orðið til þess að vextir á þessum pappírum hafa gengið niður. Seðlabankinn hefur keypt ríkistryggða pappíra, húsbréf, ríkisskuldabréf og ríkisvíxla fyrir 23 milljarða kr. Þetta hefur auðvitað leitt til þess að það hefur dregið úr framboðinu á markaðinum þannig að handaflsaðgerðir fyrir tilstuðlan Seðlabankans hafa orðið til þess að vextirnir hafa lækkað. Nú treystir Seðlabankinn sér hins vegar ekki lengur til þess að halda þessum kaupum áfram, hann getur það ekki. Það bendir því allt því miður til þess, og það er sennilega rétt sem hæstv. fjmrh. sagði í sjónvarpsviðtalinu í gær og sem Sigurður Stefánsson hagfræðingur lætur hafa eftir sér á ráðstefnu þeirri sem hann flutti erindi á fyrir Íslandsbanka, að vextir á skammtímapappírum fari hækkandi hér á næstu mánuðum.
    Þetta er ekkert annað en það sem stjórnarandstaðan hélt fram þegar handaflsaðgerðir ríkisstjórnarinnar til vaxtalækkunar gengu eftir með því að 9.000 millj. kr. úr Seðlabankanum var dælt út í hagkerfið til þess að létta á þrýstingnum sem þar var fyrir og þá fóru vextir lækkandi. Síðan hafa þessar handaflsaðgerðir verið notaðar til þess að halda þessu vaxtastigi með því að beita Seðlabankanum til kaupa á ríkispappírum á markaði. Það er því enginn markaður sem þarna er um að ræða annar en sá markaður sem ríkið stendur raunverulega fyrir sjálft og lætur þetta sjálfkrafa ganga fyrir sig með þeim hætti að Seðlabankinn kaupir þá fjármuni sem þangað koma út.
    Þar sem tíminn er takmarkaður til þessarar umræðu ætla ég örlítið í ræðu minni að snúa mér að heilbrigðis- og tryggingamálunum þar sem hæstv. heilbr.- og trmrh. er mættur til leiks. Ég hygg að þeir sem hér munu tala og þeir sem hafa verið að bera fram spurningar við hæstv. heilbr.- og trmrh. fagni því að hann skuli vera kominn í þingsalinn þar sem hæstv. fjmrh. gat í mörgum tilfellum alls ekki svarað þeim spurningum sem voru lagðar fyrir hæstv. fjmrh. og snúa að heilbrigðis- og tryggingamálunum í fjárlagafrv.
    Það kemur fram í fjárlagafrv. að áformaður sparnaður í heilbrigðis- og tryggingamálum á árinu 1995 eigi að vera með þeim aðgerðum sem grípa á til 1 milljarður og 910 þús. millj. Hvernig þessi sparnaður er nákvæmlega útreiknaður er hins vegar erfitt að átta sig á í fjárlagafrv. því það er ekkert sagt um það hversu mikið útgjöld heilbr.- og trmrn. á árinu 1994 munu fara fram úr fjárlagafrv. sem slíku. Ef það er rétt sem hefur verið haldið fram að það gætu orðið allt að því 2 milljarðar kr. þá er ekki um neinn raunsparnað í þessum málaflokki að ræða í fjárlagafrv. því sem hér liggur fyrir.

    Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að aðgerðir til fjármögnunar rekstrarútgjalda til lækkunar nemi samtals 600 millj. kr. Gert er ráð fyrir að 175 millj. verði teknar úr Framkvæmdasjóði aldraðra til lækkunar rekstrarútgjalda og þær notaðar til þess að greiða daggjöld á hjúkrunarheimilum. Þessar 175 millj. kr. sem þarna er um getið eru fyrst og fremst fjármunir sem ætlaðir eru til reksturs einnar stofnunar og því vil ég spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. þar sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir að 251 millj. kr. af fjármunum Framkvæmdasjóðs aldraðra fari til þess að reka þessar stofnanir: Hversu hátt hlutfall er það af heildarfjármunum sjóðsins?
    Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. heilbrrh.: Hvað er áætlað að heildarútgjöld heilbr.- og trmrn. árið 1994 verði mörg hundruð milljónir eða milljarðar umfram það sem fjárlög gera ráð fyrir?
    Í lífeyristryggingum er gert ráð fyrir því að útgjöldin lækki um 850 millj. 600 millj. kr. á að ná með því að aftengja sjálfvirka hækkun bótagreiðslna lífeyristrygginga vegna ófyrirséðra launabreytinga og miða þær þess í stað við forsendur fjárlaga hverju sinni. Því vil ég spyrja hæstv. heilbrrh. hvort fyrirhugað sé að leggja fram á Alþingi frv. til laga um breytingu á almannatryggingalögum sem gerir ráð fyrir því að breyta 65. gr. þeirra laga sem nú hljóðar svo, með leyfi forseta, 1. málsl.: ,,Nú verður breyting á vikukaupi í almennri verkamannavinnu og skal ráðherra þá innan sex mánaða breyta upphæðum bóta samkvæmt lögum þessum og greiðslum samkvæmt 59. gr. í samræmi við það.``
    Er meiningin að afnema þetta ákvæði almannatryggingalaganna? Um þetta var einnig spurt í gær við umræðuna. Ef svo er þá eru menn að stíga hér skref sem breytir í grundvallaratriðum þeirri hugsun sem er í almannatryggingalögunum. Að þeir einstaklingar sem njóta bóta almannatrygginga geti verið vissir um að bæturnar hækki í samræmi við laun í almennri verkamannavinnu. Nú hefur það ekki gerst í seinni tíð að menn hafi dregið það í sex mánuði, eins og lögin gera ráð fyrir, að þessar bótahækkanir gangi fram. Það hefur yfirleitt alltaf verið gert strax. Og menn hafa í raun á síðustu árum verið að færa fram þann tíma sem bótaþegar fá útgreiðsluna. Við þessu atriði er auðvitað mjög mikilvægt að fá svar.
    Í öðru lagi er sagt að af þessum 850 millj. eigi að lækka útgjöld lífeyristrygginga um 250 millj. Þar af eru 200 millj. kr. vegna endurskoðunar á svokölluðum heimildarbótum í kjölfar upptöku húsaleigubóta og umfangsmikilla breytinga sem gerðar hafa verið á sjúkratryggingum vegna þeirra sem hafa háan lyfja- og lækniskostnað.
    Þarna eru 200 millj. og þetta á að réttlæta með húsaleigubótunum. Staðreyndin er hins vegar sú að þessi húsnæðiskostnaður sem menn hafa verið að fá greiddan frá almannatryggingum er ekki tengdur því hvort einstaklingurinn hefur háan kostnað vegna húsaleigu eða vegna þess að húsnæðiskostnaðurinn er mikill. Ef viðkomandi einstaklingur sem nýtur bóta almannatrygginga á þá húseign sem hann er í og er með háan húsnæðiskostnað þá fær hann engar húsaleigubætur. Því spyr ég hæstv. heilbr.- og trmrh.: Með hvaða hætti er það hugsað að þessi framkvæmd gangi eftir, að þessar 200 millj. kr. verði sparaðar á þessum heimildabótum?
    Í þriðja lagi finnst mér rétt að hæstv. heilbr.- og trmrh. svari því hvernig eigi að ná þeim 50 millj. kr. sparnaði sem gert er ráð fyrir að lækka lífeyristryggingarnar um með almennri endurskoðun bótakerfisins. Nú er afskaplega gaman hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. þegar hann er kominn í þingsalinn að nýju og mér þykir ágætt að hann skuli ætla að greiða fyrir umræðum með því að hafa tekið niður þær spurningar sem upp hafa verið bornar og svara þeim þannig að við hv. þm. í stjórnarandstöðunni sem viljum greiða fyrir þingstörfunum þurfum að koma aftur upp af því að svörin verði það greið og skýr hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. við því sem við erum að fara fram á að fá skýr svör við af því að hæstv. heilbr.- og trmrh. gat ekki starfa sinna vegna verið í þingsalnum í gær, þá þurfti að draga þessa umræðu fram á annan dag fjárlagaumræðunnar við 1. umr., þá er það fínt ef hann getur greitt svo fyrir þingstörfum á eftir að menn þurfi ekki nema sáralítinn tíma til þess að fá svör þeim spurningum sem bæði er verið að bera upp núna og voru bornar upp af öðrum þingmönnum í gær.
    Í málaflokki sjúkratrygginga er gert ráð fyrir að spara 420 millj. Sparnaður í lyfjum á að vera 200 millj. kr. Nú stefnir í það að lyfjakostnaðurinn á árinu 1994 samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá Ríkisendurskoðun verði a.m.k. 2,9 milljarðar. Það er veruleg hækkun frá því sem fjárlagafrv. gerði ráð fyrir og er þá auðvitað inni í þessum tveimur milljörðum sem talað er um að útgjöld heilbr.- og trrn. fari umfram fjárlög á þessu ári. Nú liggja þær upplýsingar líka fyrir frá Ríkisendurskoðun að með öllum þeim miklu aðgerðum, reglugerðarbreytingum, lagabreytingum og öðru slíku sem hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur farið út í, að lyfjakostnaður á föstu verðlagi Tryggingastofnunar ríkisins hefur síður en svo lækkað. Hann hefur hækkað. Árið 1991 þegar gripið var til allra þeirra aðgerða, þá var lyfjareikningur Tryggingastofnunar 2,7 milljarðar, 2,9 milljarðar 1992, 2,7 sem eru þó bráðabirgðatölur 1993. Fjárlög 1994 gera ráð fyrir 2,6 milljörðum, en það stefnir í tæpa 3 milljarða samkvæmt þessum upplýsingum. Það sem hefur gerst er að lyfjakostnaðurinn hefur hækkað hjá Tryggingastofnun ríkisins þrátt fyrir allar þessar aðgerðir en um leið hefur kostnaðarhlutur sjúklinganna hækkað um 100 millj. kr., úr 18% árið 1991 í 32% á þessu ári, þannig að heildarlyfjaútgjöld ríkisins hafa stórlega hækkað á þessum tíma.
    Um það var samið í fyrravor milli stjórnarandstöðu og ríkisstjórnar í umræðum um breytingar á lyfjalögum að ekki kæmu til framkvæmda þau ákvæði lyfjalaganna er sneru að lyfjadreifingunni, verðlagningunni og lyfsölunni fyrr en 1. nóv. 1995. Í framhaldi af því var skipuð nefnd til þess að fylgjast með hvaða áhrif þær breyttu reglur sem verða á lyfjamarkaðnum með tilkomu EES-samningsins mundu hafa á

lyfjaverð og lyfjanotkun. Þennan tíma fram til 1. nóv. 1995 átti að nota til þess að menn gætu áttað sig á því hvaða áhrif þessar breyttu reglur hefðu.
    Nú hefur hæstv. heilbr.- og trmrh. látið það fara frá sér og þessi nefnd hefur boðað til fundar nk. þriðjudag þar sem þess er krafist að frá þessu samkomulagi verði fallið og þessi ákvæði lyfjalaganna taki gildi um næstu áramót. Með öðrum orðum, það á ekki að láta á það reyna hvort og hvaða áhrif EES-ákvæðin hafi eins og samið var um hér við afgreiðslu málsins. Það hefur reyndar komið fram í umræðunni hjá einum hv. þm. stjórnarliðsins að þetta ákvæði sé a.m.k. ekki stutt af hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur og því spyr ég hæstv. heilbr.- og trmrh.: Er samkomulag milli stjórnarflokkanna að þetta frv. verði lagt hér fyrir?
    Af þessum 420 millj. kr. er gert ráð fyrir 100 millj. kr. sparnaði í sérfræðilæknishjálp. Með hvaða hætti, hæstv. heilbr.- og trmrh., á að ná þessum sparnaði? Á að gera það með því að hækka þátttöku einstaklinganna í sérfræðilæknishjálpinni eða á að gera skipulagsbreytingar á því fyrirkomulagi sem nú er við lýði? Annars staðar í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að auka álögur á þá sem þurfa að sækja þjónustu göngudeildanna um 100 millj. kr. til þess að samræma og bæta samkeppnisstöðu þeirra sem sækja annars vegar sérfræðilæknishjálpina út í bæ og hins vegar þeirra sem þurfa á þjónustu göngudeildanna að halda. Ef á að hækka prósentuna í því sem sjúklingarnir eiga að borga fyrir þjónustu hjá sérfræðilæknum sem starfandi eru á eigin stofu úti í bæ þá þarf sennilega meira en þessar 100 millj. ef jafna á samkeppnisstöðuna eins og þetta er orðað í auknar álögur á þá sem sækja þjónustu göngudeildanna.
    50 millj. af þessum 420 í sjúkratryggingunum er áætlað að ná með því að spara í sjúkraþjálfun. Það finnst mér nú í stóra upphæð ráðist því að það kemur ekki fram í fjárlagafrv. nákvæmlega hver sú upphæð er sem fer í sjúkraþjálfunina en mér þykir það vera hins vegar, ef ég man rétt, mjög hátt hlutfall af því sem þar er í heildarkostnað.
    Tími minn er nú því miður senn á þrotum og það væri ágætt ef hæstv. heilbrrh., sem ég býst fastlega við að hafi náð öllum þessum spurningum niður, gæti gefið óyggjandi svör við öllu því sem spurt hefur verið um en mikilvægast af því öllu þykir mér þó það ákvæði er snýr að lífeyristryggingunum og spurningin er sú: Er fyrirhugað að breyta í grundvallaratriðum þeirri hugsun sem er í almannatryggingalögunum um að einstaklingar, þeir sem njóta bóta almannatrygginga, eigi rétt á því að fá sömu hækkanir og fólk í almennri verkamannavinnu?