Forgangsröð kennslu erlendra tungumála

10. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 15:39:40 (438)


[15:39]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég held að aðalatriðið í þessu máli sé að hrapa ekki að neinu og vandinn sé sá að á bak við þá tillögu sem hér er verið að vitna til hafa ekki átt sér stað ítarlegar rannsóknir. Ég tel að nauðsynlegt sé að þær fari fram, m.a. á stöðu dönskunnar og að líka eigi að kanna hvort og þá hvernig væri hægt að bæta stöðu dönskukennslunnar frá því sem nú er. Áætlun um slíkt ætti að liggja fyrir áður en menn tækju ákvarðanir um það að breyta verulega frá því sem nú er. Ég tel að ákvörðun sem er rökstudd eins og nefndin gerir feli í sér undanhald og ég tel að ekki sé skynsamlegt fyrir skólastarf í landinu að yfirvöld menntamála gefist upp fyrir tíðaranda án þess að almennur vandaður og fræðilegur rökstuðningur liggur fyrir.