Forgangsröð kennslu erlendra tungumála

10. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 15:40:43 (439)



[15:40]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Áður hefur verið rætt á hv. Alþingi um forgang tungumála í kennslu í grunnskóla og þá lýsti ég mig andvíga því að breyta þeirri forgangsröð að danskan sé þar fyrsta erlenda tungumálið sem kennt er og ég hef ekki skipt um skoðum hvað þar snertir.
    Ég vil taka svo mikið upp í mig að segja að mér finnst það hluti af okkar menningu að byrja á því að læra norrænt tungumál og frá því megi ekki hverfa. Hitt er annað mál að það er áhyggjuefni hversu illa það gengur að kenna nemendum dönsku og ég er alveg sannfærð um það að hluti af skýringunni á því er sá að grunnskólakennarar sem sinna dönskukennslunni hafa ekki fagmenntun í dönsku. Ég tek undir að það þurfi að skoða það hvað veldur því að þetta ástand mála er ekki betra en raun ber vitni en ég ítreka það að ég tel að ekki eigi að breyta þessari forgangsröð.