Forgangsröð kennslu erlendra tungumála

10. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 15:43:09 (441)

[15:43]
     Sigríður A. Þórðardóttir :
    Virðulegi forseti. Mig langar að leggja fáein orð í belg og ég vil þá leggja sérstaka áherslu á það að þessi tillaga nefndarinnar um að enska verði fyrsta mál tengist annarri tillögu sem er mjög veigamikil í skýrslu nefndarinnar og tillögum hennar bæði um grunnskólann og framhaldsskólann, þ.e. skilgreiningu kjarnagreina. Kjarnagreinar skuli vera íslenska, stærðfræði og enska og þær greinar gangi í gegnum grunnskólann og framhaldsskólann, þ.e. þær greinar sem ber að leggja sérstaka áherslu á að nemendur öðlist djúpa þekkingu í. Þetta vil ég sérstaklega taka fram.
    Ekki er gert ráð fyrir því að dregið sé úr dönskukennslu. Danska verður áfram samkvæmt tillögunum skyldunámsgrein og jafnmiklum tíma verður varið til dönskunnar og verið hefur til þessa. Að síðustu vil ég leggja sérstaka áherslu á það að við viljum efla dönskukennsluna, gera hana markvissari og skilvirkari, t.d. með því að tryggja að fagmenntaðir kennarar í dönsku sinni dönskukennslu í grunnskólum.