Forgangsröð kennslu erlendra tungumála

10. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 15:44:44 (442)

[15:44]
     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Það er kannski ekki meginmálið hvort danska er mál eitt eða tvö miðað við ensku en þó er mér nær að fylgja því að danskan hafi þann forgang sem hún hefur haft um langan tíma með tilliti til menningar okkar Íslendinga. Þó er fyrst og fremst grundvallaratriði að styrkja dönskukennsluna, gera hana líflegri og skemmtilegri, hún hefur verið leiðinleg í áratugi á Íslandi og það er almannarómur og það er kannski það sem vegur þyngst í því að hún stendur ekki vel í okkar máli. Jafnvel Íslendingar leyfa sér að tala ensku við frændur okkar í Færeyjum þar sem við getum talað íslensku á annað borð svo að þetta sýnir nú kannski á hvaða stigi við erum þessum efnum. Það er kannski ekki undarlegt að það sé erfitt því að lenskan er sú í fjölmiðlum, í kvikmyndum, í tónlist, jafnvel hjá reyndustu fjölmiðlum Íslendinga að sinna þar enskri tungu umfram allt annað, fremur íslenskri meira að segja. Og það segir söguna.
    Ég vil rétt í lokin, virðulegi forseti, stinga upp á því að menn leggi á það áherslu að leita ráða hjá dönskum, mestu markaðsmönnum í heimi, um það hvernig megi markaðssetja dönskukennslu á Íslandi.