Hvalveiðar

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 16:00:53 (913)

[16:00]
     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Árið 1982 tók Alþjóðahvalveiðiráðið ákvörðun um tímabundna stöðvun hvalveiða. Íslendingar voru að sönnu á móti ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins, en því miður báru menn ekki gæfu til þess á Alþingi á þeim tíma að mótmæla þeirri ákvörðun og því fór sem fór. Norðmenn gerðu hins vegar á sínum tíma alvarlega athugasemd og mótmæltu hvalveiðibanninu og hafa þess vegna allt aðra aðstöðu en við varðandi þessi mál. Það hefur verið vakin athygli á að þeir hafa starfað innan Alþjóðahvalveiðiráðsins en halda engu að síður áfram hvalveiðum.
    Ég tel rétt í þessu sambandi að vekja á því athygli að hvalveiðar Norðmanna á undanförnum árum hafa farið fram í trássi við vilja Alþjóðahvalveiðiráðsins og þrátt fyrir stöðugar samþykktir Alþjóðahvalveiðiráðsins gegn þessum veiðum sem þeir hafa margoft ályktað um.
    Allt frá því að þessi ákvörðun um tímabundna stöðvun hvalveiða var tekin á árinu 1982 hafa farið fram hér innan lands stöðugar umræður um þessi mál og mjög margir orðið til þess að hvetja til þess að hefja hér hvalveiðar að nýju. Það er enginn vafi á því að meðal íslensku þjóðarinnar er mjög mikill vilji til þess að hvalveiðar hefjist aftur, enda er hér mjög mikið í húfi.
    Ég hlýt að vekja enn og aftur athygli á því gífurlega tapi sem þeir sem stunduðu hvalveiðar og unnu við úrvinnslu í hvalaafurðum hafa orðið fyrir vegna þessarar ákvörðunar. Það liggur fyrir að á árunum 1975 og fram yfir 1980 þá nam útflutningsverðmæti hvalveiðanna u.þ.b. einum milljarði kr. árlega. Á þessum tíma unnu fjölmargir við þessi störf, þetta voru verðmæt störf fyrir íslenska þjóðarbúið og mjög mikilvæg, sérstaklega mikilvæg fyrir einstakar byggðir landsins. Það er alveg ljóst að þeir sem stunduðu

þessar veiðar og urðu fyrir því að lífsgrundvellinum var kippt undan þeim með því að hvalveiðarnar voru stöðvaðar, hafa ekki fengið sinn skaða bættan og hafa hlotið mjög skarðan hlut vegna þessa máls.
    Ég vil vekja athygli á því að nefnd sem skipuð var fulltrúum allra stjórnmálaflokka komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sem dagsett er 2. maí 1994 að hefja beri hvalveiðar með takmörkuðum hætti sem fyrst. Í áliti nefndarinnar segir, með leyfi forseta: ,,Eðlilegt er að Íslendingar hefji á ný hvalveiðar í atvinnuskyni, þó þannig að farið sé að öllu með gát. Gætt sé heildarhagsmuna Íslands með tilliti til stöðu landsins á alþjóðavettvangi, markaða fyrir hvalaafurðir og áhrifa hvalveiða á aðra útflutningsmarkaði landsmanna.``
    Enn fremur segir:
    ,,Ástand sumra hvalastofna við Ísland er með þeim hætti að ekkert mælir vistfræðilega gegn hóflegri nýtingu þeirra. Nefndin telur þó skynsamlegt að leyfa aðeins í fyrstu takmarkaðar veiðar á hrefnu og miða í upphafi við sölu afurðanna innan lands jafnframt því sem möguleikar á sölu hrefnuafurða erlendis séu kannaðir.``
    Ég spyr því hæstv. sjútvrh.:
    Hyggst ríkisstjórnin leggja til að hvalveiðar verði hafnar að nýju á grundvelli skýrslu hvalveiðinefndar sem sjávarútvegsráðherra skipaði haustið 1993 og skilaði áliti snemma á þessu ári?