Framkvæmd jafnréttisáætlunar

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 16:22:30 (924)


[16:22]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Vegna þeirrar fsp. sem hér hefur verið borin fram hef ég óskað eftir upplýsingum frá Rannsóknarlögreglu ríkisins. Í bréfi rannsóknarlögreglustjóra kemur fram að á því tímabili sem hér er spurt um hefur enginn rannsóknarlögreglumaður verið skipaður í stöðu. Fram kemur að það skýrist annars vegar af því að enginn rannsóknarlögreglumaður sem skipaður hefur verið í stöðu hefur hætt störfum á síðustu árum nema vegna reglna um aldurshámark og hins vegar af því að fjölgun stöðuheimilda rannsóknarlögreglumanna hefur nánast engin verið. Um hefur verið að ræða tímabundna ráðningu vegna leyfa frá störfum en engar skipanir í stöðu rannsóknarlögreglumanna hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins hafa átt sér stað á því tímabili sem um er spurt.
    Varðandi þróun þessara mála hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins kemur fram í svari rannsóknarlögreglustjóra að í júní 1988 voru tvær konur starfandi við embættið og önnur þeirra rannsóknarlögreglumaður. Þetta tekur til alls starfsfólks fyrir utan starfsfólk í mötuneyti og við ræstingar. Ári síðar voru tvær konur og önnur þeirra rannsóknarlögreglumaður. Í júní 1990 voru fimm konur og tvær í stöðum rannsóknarlögreglumanna. Í júní 1991 voru fimm konur og tvær í stöðum rannsóknarlögreglumanna. Í maí 1992 unnu sex konur við embættið og tvær í stöðum rannsóknarlögreglumanna. Og ári síðar sex konur og tvær í stöðum rannsóknarlögreglumanna og í maí á þessu ári voru sjö konur og tvær í stöðum rannsóknarlögreglumanna og ein í stöðu löglærðs fulltrúa og þar með rannsóknari, sbr. lög nr. 19/1991.