Niðurfelling virðisaukaskatts af barnafatnaði

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 18:03:53 (965)


[18:03]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Almennt er álitið að eitt skatthlutfall án undanþága sé æskilegt til að koma í veg fyrir hugsanleg undanskot undan skatti. Jafnframt hefur verið bent á að undanþágur í virðisaukaskattskerfinu séu ekki virkustu tekjujöfnunaraðferðir sem hægt sé að grípa til. Þetta sem ég hér hef sagt eru hin almennu skattalegu sjónarmið sem flestir eru sammála um. Hitt er svo annað mál að stundum þarf að taka tillit til annarra viðhorfa en þeirra sem henta skattkerfinu einu út af fyrir sig. Það gerðist t.d. um sl. áramót í tengslum við kjarasamninga þegar svokallaður matarskattur var lækkaður.
    Ég vil láta koma fram hér að framkvæmd á þeirri breytingu tókst mjög vel eins og mælingar sýna.

    Fordæmi þess að barnafatnaður sé undanþeginn virðisaukaskatti er aðeins að finna í Bretlandi af Evrópulöndum. Þó virðisaukaskattur sé ekki að fullu samræmdur í Evrópulöndunum hafa þessar þjóðir sett sér sameiginleg markmið um ákveðna lágmarkssamræmingu virðisaukaskattskerfanna. Felst það m.a. í því að afmarka það svið vöru og þjónustu sem lægri skattar eru lagðir á en almennt gerist. Barnafatnaður er ekki meðal þeirra vörutegunda sem tilheyra því vörusviði.
    Eins og ég hef áður sagt er það óumdeilt að fjölgun skattþrepa getur flækt skattaframkvæmd og eykur að öðru jöfnu að áliti skattasérfræðinga líkur á undanskotum frá skatti. Með því að láta undanþágur ná til barnafatnaðar yrði tveggja þrepa skatti komið á fyrir fjölmargar verslanir sem ekki búa við slíkt í dag. Áhrif slíkrar breytingar yrðu nokkur, bæði hvað varðar kostnað við framkvæmd, þörf á auknu eftirliti og vegna hugsanlegra undanskota frá skatti.
    Í þessu sambandi er einnig rétt að benda á að mjög erfitt er að skilgreina og afmarka hvað sé barnafatnaður. Reyndar kemur það fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem þessu breska dæmi er lýst. Ég ætla ekki að lýsa því sérstaklega nema tækifæri gefist til. En á því eru framkvæmdarlegir örðugleikar eins og flestir hljóta að sjá því í sumum tilvikum er erfitt að skilgreina nákvæmlega hvað sé barnafatnaður og vísa ég þar til erfiðleikanna sem komið hafa upp í Bretlandi.
    Hvað lækkun virðisaukaskatts af barnafatnað varðar eiga röksemdir um skilvirkari leiðir sérstaklega vel við þar en í skattkerfi okkar eru þegar til millifærsluleiðir sem beinast einkum að þeim hópi fjölskyldna þar sem börn eru. Með því að nota barnabætur og barnabótaauka eins og er hér á landi geta stjórnvöld stýrt ívilnunum og náð meiri tekjudreifingaráhrifum með minni tilkostnaði en með lækkun virðisaukaskatts.
    Lækkun virðisaukaskatts á einstakar vörutegundir eins og barnafatnað er dýr og flókin í framkvæmd, eftirlit er torvelt og skattsvik gætu orðið nokkur. Ég vil taka það fram að það er talið mun flóknara að eiga við barnafötin en t.d. matvælin vegna þess að barnaföt eru í mörgum tilvikum seld í sömu verslun og annar fatnaður til að mynda.
    Það er mjög erfitt að svara síðari spurningunni því að verslun með barnafatnað er ekki sérgreind í þeim skýrslum eða upplýsingakerfum sem tiltæk eru og það mundi kosta verulega fjármuni og tíma að svara henni nákvæmlega. En miðað við neyslukönnun má áætla að fata- og skókaup á hvert barn innan 10 ára aldurs sé 30--40 þús. kr. á ári. Fjöldi þessara barna sem er þá innan við 10 ára aldur gæti verið 40 þús. Skatttekjur gætu þá verið 6--8 þús. kr. á barn. Ef maður margfaldar það með 40 þús. kr. kemur út tala á bilinu 250--300 eða 300--350 millj. kr. Þetta er tala sem ég gef upp með mjög miklum fyrirvörum því í raun og veru eru engar sérgreindar upplýsingar til. Vonast ég til að þetta a.m.k. gefi einhverjar hugmyndir um tilkostnaðinn. Mín meginniðurstaða er sú að ekki sé heppilegt að lækka eða falla frá virðisaukaskatti á barnafatnaði.