Flutningur ríkisstofnana út á land

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 14:01:04 (1058)


[14:01]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé orðið vandlifað fyrir ráðherra sem vill beita sér fyrir flutningi ríkisstofnana út á landsbyggðina ef hann á að sæta því eins og hæstv. umhvrh. að það komi tillaga frá landsbyggðarþingmönnum um að af því tilefni skuli sett rannsóknarnefnd honum til höfuðs í þinginu. Það virðist því ekki vera að mikill áhugi sé á því hjá landsbyggðarþingmönnum að menn vinni að þessu farsæla máli. Ég get alveg tekið undir það með hv. þm. að það sé rétt og eðlilegt að skoða flutning stofnana út á landsbyggðina. Ég get líka staðfest að fyrrv. iðnrh. tók upp viðræður við Akureyrarkaupstað um hugsanlegt samstarf og samvinnu um eitt sameiginlegt orkufyrirtæki með Rafmagnsveitum ríkisins. Það mál hefur verið til umfjöllunar en ekkert sérstakt nýtt gerst í því. Það er verið að skoða ýmsar leiðir í sambandi við starfsemi Rariks sem ég ætla ekki að fara nánar út í á þessum fundi því að ég sé ekki líkur á því að það gerist mikið í þeim málum á næstu mánuðum.