Samstarfsörðugleikar innan lögreglunnar í Kópavogi

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 15:50:19 (1096)


[15:50]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Í fréttum síðustu daga hefur verið sagt frá erfiðleikum hjá lögreglunni í Kópavogi.

Það er ljóst að slíkt mál verður ekki leyst á Alþingi og þjónar því ekki tilgangi að ræða um það efnislega. En úr því að málið er komið til umræðu er það eina sem mér virðist vera hægt að gera að hvetja hæstv. dómsmrh. að beita sér fyrir að leysa þennan vanda sem fyrst.
    Það er ljóst að það andrúmsloft sem ríkir á þessum vinnustað er óviðunandi. Slíkt andrúmsloft er ekki aðeins óviðunandi innan lögreglu í Kópavogi heldur væri það á hvaða vinnustað sem er. Þetta ástand eins og því er lýst skaðar ekki aðeins löggæslu í Kópavogi heldur á landinu öllu. Það er að sjálfsögðu ekki auðvelt að leysa mál sem eru komin í slíkan hnút eins og þetta en þeim mun mikilvægara að það sé gert. Því vil ég taka undir óskir til hæstv. dómsmrh. um að beita sér fyrir því að það dragist ekki miklu lengur að viðunandi lausn fáist á þessu máli.