Álagning vatnsgjalds og aukavatnsgjalds

44. fundur
Mánudaginn 28. nóvember 1994, kl. 17:18:29 (2003)

[17:18]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Sú fsp. sem hér er lögð fram er þríþætt:
  ,,1. Hver er lagastoð þess ákvæðis í 9. gr. reglugerðar um vatnsveitur sveitarfélaga að sveitarstjórn sé heimilt að ákveða vatnsgjald miðað við rúmmál húseigna?``
    Í 2. mgr. 7. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga segir að upphæð vatnsgjalds skuli ákveðin af sveitarstjórn og má upphæðin nema allt að 0,3 hundraðshlutum af álagningarstofni skv. 1. mgr. 7. gr.
    Við samningu reglugerðar fyrir vatnsveitur sveitarfélaga var farin sú leið að heimila sveitarstjórn að ákveða hámark og lágmark vatnsgjalds miðað við rúmmál húseigna enda verði álagningin aldrei hærri en sem nemur fyrrgreindu hámarki í 2. mgr. 7. gr. laganna.
    Talið var að ákvæði reglugerðarinnar rúmaðist innan ramma laganna þar sem gerður er fyrirvari um að álagningin megi aldrei vera hærri en sem nemur hinu lögbundna hámarki. Sveitarstjórnir hafa því heimild til að ákveða það álagningarhlutfall sem best á við í viðkomandi sveitarfélagi. Eina takmörkunin er fyrirgreint lögbundið hámark.
    Virðulegi forseti. Annar liður spurningarinnar er:
    ,,Hver eru rök ráðherra fyrir því að lög um vatnsveitur sveitarfélaga heimili frávik frá hámarki aukavatnsgjalds í undantekningartilvikum á þann veg að hámark megi vera hærra en almennt gildir og hvers vegna gildir það frávik ekki til þess að ákveða lægra hámark í undantekningartilvikum?``
    Tímans vegna vel ég að koma með svar mitt nú og málshefjandi hafi þá tækifæri til að koma með sitt andsvar við því þar sem honum gafst ekki tími til að mæla fyrir fyrirspurnum sínum í hið fyrra skipti er hann talaði.
    Svar við þessum hluta fsp. er að rétt er að benda sérstaklega á að í lögum og reglugerð fyrir vatnsveitur sveitarfélaga er einungis tilgreint hámark þeirra gjalda sem heimilt er að leggja á og innheimta af fasteignaeigendum.
    Í 2. mgr. 8. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga segir að ráðherra ákveði hámark aukavatnsgjalds í reglugerð. Hámark þetta kemur fram í 10. gr. reglugerðar nr. 421/1992.
    Í 2. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar kemur fram að í undantekningartilvikum þegar stofnkostnaður og/eða rekstrarkostnaður vatnsveitu er óvenjulega hár getur ráðherra veitt sveitarstjórn heimild til að ákveða hærra aukavatnsgjald en segir í 1. mgr.
    Í slíkum undantekningartilvikum þarf sveitarstjórn að óska eftir því við ráðherra að hámarkið verði hækkað og þarf hún að sýna fram á það með rökstuðningi að stofnkostnaður og/eða rekstrarkostnaður vatnsveitunnar sé óvenjulega hár miðað við það sem almennt gerist. Rökin fyrir þeirri heimild sem fram kemur í 2. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar eru þau helst að sveitarstjórnum sé auðveldað að afla tekna til að standa undir þeim kostnaði sem hlýst af því að reka vatnsveitu. Ekki er talin þörf á að kveða í reglugerðinni á um lægra hámark því sveitarstjórnir hafa svigrúm samanber einnig ákvæði 5. mgr. 6. gr. sveitarstjórnarlaga um sjálfsforræði sveitarstjórna á gjaldskrám fyrirtækja í þeirra eigu til að lækka gjaldskrár sínar en ekkert sérstakt lágmark gjaldanna er tilgreint í lögum eða reglugerð fyrir vatnsveitu sveitarfélaga.
    Virðulegi forseti. Ég kýs að svara þriðja lið spurningarinnar í síðari umferð.