Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 14:34:17 (2139)


[14:34]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er rétt hjá flm. að við getum orðið sammála um eitt og það er það að umræðan hefur orðið gagnleg, það hefur hún verið. En málið hefur á hinn bóginn algjörlega snúist í höndunum á Alþfl. vegna þess að umræðan hefur fyrst og fremst snúist upp í úttekt á hörmulegri frammistöðu Alþfl. í þessum málum undanfarin sjö ár. En það var einmitt rétt að það var þörf á því að fara yfir það hvernig Alþfl. hefur staðið að þessu sl. sjö ár. Það er nefnilega það sem hefur verið meginniðurstaða dagsins. Það er það að hér hefur farið fram ágæt umræða um það hvernig Alþfl. hefur í raun og veru bókstaflega algerlega vanrækt það að sinna þessu máli sl. sjö ár.
    Varðandi það að svona könnun þurfi að fara fram þá hefur nú í fyrsta lagi verið bent á að í raun liggja þessar upplýsingar allar fyrir varðandi vöruverðið. Einn af mörgum göllum tillögunnar er að hún er allt of þröng, of takmörkuð. Hún gerir ekki ráð fyrir að lífskjaramunurinn í heild sinni sé borinn saman. En vilji menn engu að síður svona til öryggis og enn einu sinni fara í verðsamanburð, gera verðkönnun annars vegar í verslunum á landsbyggðinni og hins vegar á þéttbýlissvæðunum, sem þetta snýst nú um á mannamáli, þá liggur það svo, hv. þm., að það er hlutverk Samkeppnisstofnunar og hér í Stjórnartíðindum eru lögin um Samkeppnisstofnun. Ég hef líka bent á að það vill nú svo til að Samkeppnisstofnun heyrir undir einn hæstv. ráðherra Alþfl., sem sagt hæstv. Sighvat Björgvinsson viðskrh. Það er einfaldasta mál í heimi fyrir Alþfl. að skrifa Samkeppnisstofnun bréf og biðja um að þessi úttekt sé gerð. Reyndar ætti þess ekki að þurfa því þetta er á verksviði þeirrar stofnunar svo að tillöguflutningur af þessu tagi er óþarfur þess vegna ef menn vilja ná því fram. En umræðan hefur verið ágæt og það hefur verið varpað skýru ljósi á það að sökudólgurinn núna upp á síðkastið í þessum málum sem ekkert hefur aðhafst er Alþfl.