Framlag til vegamála

51. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 14:08:10 (2329)


[14:08]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég er að sjálfsögðu ekkert að víkja mér undan því að segja hvað þarna stendur. Það geta allir lesið. Það hefur verið þannig á undanförnum árum, ekki eingöngu í ár eða í fyrra heldur mörg undanfarin ár, svo mörg nánast sem ég man, að svokallað vegafé hefur verið skert og runnið í ríkissjóð. Og það var hygg ég gert allt síðasta kjörtímabil svo að ég taki dæmi enda hafa vegaframkvæmdir á þessu kjörtímabili verið þær langmestu sem menn muna í Íslandssögunni, að svo mikil áhersla hefur verið lögð á vegaframkvæmdir. En það er hárrétt að það má skoða þessar skerðingar sem þarna koma fram eins og hér segir sem uppígreiðslur ef menn vilja nota það orð upp í það sérstaka átak sem varð í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og lauk á yfirstandandi ári.