Lok umræðu um skattamál

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 16:52:54 (2767)


[16:52]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég skal játa það að ég hafði ekki beðið um orðið. Ég átti satt að segja von á því að umræðan yrði heldur lengri og nú sýnist mér vera heldur seint í rassinn gripið og ég ekki geta svarað mörgum framkomnum spurningum því það er búið að loka mælendaskrá. ( Gripið fram í: Varstu ekki á mælendaskránni?) En ég skal --- og vona að það flýti fyrir málinu --- fara yfir umræðuna, sem ég skrifaði hjá mér mjög vandlega, með embættismönnum ráðuneytisins þannig að þeir geti svarað spurningum sem til mín var beint í nefndarstarfinu í þeirri von að það greiði fyrir þingstörfum. Ég skal játa það á mig að hafa ekki beðið um orðið af því að ég hélt að ekki væri komið að því. En ég skal undirstrika það að ég hef lagt það í vana minn í umræðum að svara yfirleitt alltaf fyrirspurnum þingmanna og ég vona að þeir sjái í gegnum fingur sér með það að þessu sinni að mér skuli hafa láðst að gera það upp á þau býti að ég fari yfir málin með mínum embættismönnum og þeir komi til nefndarinnar eins vel undir það búnir og kostur er.