Hlutafélög

63. fundur
Mánudaginn 19. desember 1994, kl. 21:20:20 (2913)



[21:20]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég held að eðlilegt væri fyrst að gera grein fyrir brtt. á þskj. 431, sem er flutt af efh.- og viðskn. og þá væntanlega í því umboði að breytingarnar áttu að koma fram við 2. umr. málsins en hafa sennilega ekki náð inn á breytingartillöguþingskjalið og eru þess vegna endurfluttar í nafni efh.- og viðskn. Ýmislegt gerist hratt þessa dagana. Mig rekur ekki minni til að það hafi verið tekið sérstaklega fyrir í nefndinni að þessi brtt. yrði flutt í hennar nafni. En gott og vel. Ég hygg að svo megi líta á að það hefði átt að gerast við 2. umr. Það er alveg nauðsynlegt að sú breyting sé gerð því að orðalag 35. gr. frv. eins og það er á þskj. 417 eftir 2. umr. gengur eiginlega ekki upp nema gerð sé á því þessi breyting að ljóst sé að afbrotið er í tengslum við viðkomandi atvinnurekstur og þá gagnvart ákvæðum þeirra laga sem þar eru talin upp, þ.e. hegningarlaga, laga um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld.
    Varðandi brtt. á þskj. 427 frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Kristínu Ástgeirsdóttur get ég að verulegu leyti tekið undir það sem hér hefur verið sagt áður af tveimur síðustu hv. ræðumönnum. Ég held að ekki sé deilt um það lengur í efh.- og viðskn. eftir nokkuð ítarlega skoðun á því máli að lögfesting hinna upphaflegu ákvæða frv. hefði orkað mjög tvímælis sökum þess hvernig allir hefðu þá verið í raun settir í sama dilk sem hefðu tengst gjaldþrotum sem orðið hefðu vegna algerlega óumflýjanlegra aðstæðna sem upp hefðu komið og án þess að nokkurt saknæmt eða refsivert athæfi tengdist þeim atburðum og hinir sem ætlunin er að reyna að ná til og gerast sekir um undanskot eða alvarlegri brot í tengslum við slíkt. Í því sambandi er auðvitað alveg ljóst að sú leið að tengja takmörkunina við afbrot sem menn hafa fengið dóm fyrir er algerlega örugg. Í því tilviki verður ekki um það deilt af því að það á ekki að deila við dómarann að viðkomandi aðilar hafa gerst brotlegir og þar af leiðandi eðlilegt að beita takmörkun í þeim tilvikum. Með þeirri orðalagsbreytingu sem flutt er á þskj. 431 er gengið ágætlega frá því. Það er ljóst að hvers konar brot gegn öllum þeim lögum sem talin yrðu þá upp í 50. gr. hlutafélagalaganna og menn hafa hlotið dóm fyrir kalla á það að menn sæti takmörkunum sem stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar í félögum. Það hvort til viðbótar sé rétt að fella undir þessa möguleika ---
    ( Forseti (SalÞ): Ekki skraf í salnum.
    Það er nú heimilislegt, hæstv. forseti, að það sé skrafað hér og þar á kvöldfundi. Ég geri engar athugasemdir við það, t.d. þó fjmrh. sem er mjög órólegur þessa dagana haldi ræðu í hliðarsal. ( Fjmrh.: Hann er að reyna að koma á friði og spekt.) Það er nú eitthvað nýtt ef fjmrh. er að reyna að koma á friði og spekt. Ég hef aðallega orðið var við hann í sambandi við annað á þessum degi en hann sé mikið að reyna að stilla til friðar eða auðvelda afgreiðslu mála.
    Satt er það, hæstv. forseti, að kannski er betra að einn tali í einu. Það sem ég ætlaði að segja var að það má um það deila hvort rétt sé að taka sektarákvæðin þarna undir og láta þá í raun sama gilda um annars vegar þá sem hafa verið dæmdir fyrir jafnvel alvarleg brot, t.d. á bókhaldslögum eða öðru slíku, og hina sem sætt hafa minni háttar sektum við lúkningu mála hjá yfirskattanefnd. Nú er auðvitað alveg ljóst að það getur verið býsna langt á milli, annars vegar mála sem leidd eru til lykta með einfaldri sektarmeðferð á yfirskattanefnd og um er að ræða lúkningu á minni háttar máli og hins vegar alvarlegri brot þar sem fram kemur ákæra og menn eru dæmdir. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að í ljósi þess að þetta var ekki mikið skoðað í nefndinni og var ekki fyrr en undir lok umfjöllunar um þessi mál sem sá flötur kom upp að e.t.v. mætti taka þarna sektarhópinn með ef svo má að orði komast. Ég vona að allir hv. þingmenn skilji þetta einfalda atriði, treysti ég mér í raun ekki til þess að standa að því að flytja þá eða samþykkja þá brtt. Ég tel mig einfaldlega ekki hafa neinar upplýsingar um það hvers eðlis öll þau fjölmörgu brot sem þar kunna að vera á ferðinni eru og hvort það eru nógu traustar forsendur til þess að láta þessi mál öll sæta þarna sömu meðferð. Ég hefði a.m.k. gjarnan viljað sjá meiri upplýsingar um það þá og fá sérfræðileg álit á því hvort rétt sé að hafa þau mál með sem eru hjá ríkisskattanefnd og eru leidd til lykta með sektum, þ.e. verða aldrei opinber mál og því mun ég sitja hjá við atkvæðagreiðslu um þessa brtt. Ég er ekki heldur tilbúinn til að greiða atkvæði gegn henni því að það má vel vera að á þessu sé alveg stætt en mér finnst vanta betri rökstuðning fyrir því eða forsendur fyrir því að afgreiða það. Kannski kemur það hér fram í máli flutningsmanna ef þeir eiga eftir að rökstyðja tillögu sína betur.
    Að lokum vil ég svo láta koma fram sem hefur kannski að einhverju leyti gleymst, kom þó að einhverju leyti fram við 2. umr., þ.e. að nefndin ræddi það talsvert að vinna áfram að málinu og þar var m.a. nefnt frv. nokkurra hv. þm. Framsfl. sem liggur fyrir þinginu um að fara aðra leið að þessu sama marki, þ.e. setja lög sem heimila að menn séu dæmdir í tímabundið atvinnurekstrarbann. Að mörgu leyti má til sanns vegar færa að það sé geðþekkari nálgun að þessu sama vandamáli að stemma stigu við því að menn leiki lausum hala og stofni ítrekað til atvinnurekstrar og skilji eftir sig ljóta slóð. Þá er hægt að beita slíkum aðferðum að dæma þá sérstaklega í atvinnurekstrarbann með vísan til eðlis þeirra afbrota sem þeir hafa framið. En í öllu falli er ekki um það að deila að það er til bóta svo langt sem það nær að taka ákvæði af þessu tagi inn í hlutafélagalög og lög um einkahlutafélög. Það lýsir vilja löggjafans til þess að stemma stigu við slíku atferli. Sjálfsagt má deila hvernig það sé nákvæmlega best gert en ég held að breytingin sem var gerð við 2. umr. með þeirri orðalagsbreytingu sem er á þskj. 431 sé veruleg viðleitni í rétta átt og eftir atvikum áfangi sem sé alveg hægt að una við og þá megi vinna áfram að því að betrumbæta þetta enn ef mönnum sýnist þörf á því.