Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 17:05:14 (3437)

[17:05]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Herra forseti. Það er hárrétt mat hjá hv. 5. þm. Reykv., Inga Birni Albertssyni, að landbrh. hefur vald á þessu máli. Hann getur bara lesið tillöguna, hún er auðskiljanleg og ég trúi ekki öðru ef hann gefur sér tíma til þess en hann skilji hvað er verið að fara. Hv. þm. sagðist ekki geta sætt sig við þessa tillögu. Ef svo er ekki móti minni von þá verður hann annaðhvort að sitja hjá eða greiða atkvæði gegn. Svo langt gengur það. Það liggur sem sagt ákvörðun fyrir að landbrh. fer með þetta mál og það er ekki hæstv. utanrrh. sérstaklega að túlka þessa tillögu. Það er höfunda tillögunnar að túlka hana. Hann getur spurt formann utanrmn., Björn Bjarnason, hv. 3. þm. Reykv., félaga sinn og flokksbróður, ef hann er í vandræðum með túlkun á þessari tillögu. En þó að hæstv. utanrrh. þurfi ekki að túlka tillöguna þá þarf hann að skilja hana og á það vil ég leggja áherslu. Það gilda sömu reglur um innflutning og gilda í dag þar til íslenskum lögum hefur verið breytt. Það er tekið skýrt fram í tillögunni.
    Ég verð að játa að mér þykir slæmt að hv. 5. þm. Reykv. sættir sig ekki við þetta og heildsalinn hefur tekið yfirhöndina yfir hans venjulegu heilbrigðu skynsemi.