Ferill 4. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 4 . mál.


263. Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Svavars Gestssonar um starfslokasamninga.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hve margir svokallaðir starfslokasamningar hafa verið gerðir á vegum ráðuneytanna í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar?
    Um hvaða laun og önnur kjör hefur verið samið í þessum samningum í hverju tilviki?
    Á hvaða forsendum hafa þessir samningar verið gerðir, almennt og í hverju tilviki?


    Forsætisráðuneytið hefur leitað til ráðuneytanna um svör við framangreindum spurningum og fara þau hér á eftir. Sá skilningur er lagður í orðið starfslokasamningur að þar sé um að ræða samninga við ríkisstarfsmenn sem hætta störfum áður en 67 ára aldri er náð sem fela í sér greiðslur til lengri tíma en hefðbundins þriggja mánaða uppsagnarfrests. Þá er ekki litið á það sem starfslokasamning þegar gerðar eru breytingar á starfsskyldum starfsmanna innan ráðuneyta, en þeir starfa þar áfram og lúta sömu skyldum og almennt gilda um ríkisstarfsmenn.

Forsætisráðuneyti.
    Aðalskrifstofa forsætisráðuneytisins hefur gert einn starfslokasamning í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Gerður var starfslokasamningur við fyrrverandi skrifstofustjóra í forsætisráðuneyti er fól í sér að honum voru greidd biðlaun í 12 mánuði ásamt yfirvinnu frá 1. febrúar 1992. Að auki voru honum greiddar samtals 3.675 þús. kr. með fimm jafnháum greiðslum, en af þeim greiðslum var dregin staðgreiðsla tekjuskatts, 1.464 þús. kr. Almenn forsenda samningsgerðarinnar af hálfu ráðuneytisins var að starfslok væru óhjákvæmileg og hafði það frumkvæði að samningsgerðinni. Gengið var frá samningnum í samráði við starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis og Ríkisendurskoðun.
    Byggðastofnun hefur gert þrjá starfslokasamninga á því tímabili sem um er spurt. Í tilviki A var samið um að greidd yrðu biðlaun í 12 mánuði til 31. desember 1993 og voru þau hin sömu og starfsmaðurinn naut á meðan hann var í fullu starfi. Í tilviki B var samið um að greidd yrðu biðlaun í sex mánuði til 30. júní 1993 og voru þau hin sömu og starfsmaðurinn naut áður. Í tilviki C var samið um að greidd yrðu biðlaun í 12 mánuði og voru þau hin sömu og starfsmaðurnn naut áður. Í starfslokasamningnum er jafnframt kveðið á um að viðkomandi starfsmaður ynni að verkefnum fyrir stofnunina samkvæmt nánara samkomulagi við stjórnarformann og forstjóra.
    Framangreindir starfslokasamingar voru gerðir vegna þess að stöður, sem viðkomandi starfsmenn gegndu, voru lagðar niður, en stofnunin hefur unnið að því að fækka störfum á aðalskrifstofu í Reykjavík um leið og starfsmönnum á landsbyggðinni hefur fjölgað.

Utanríkisráðuneyti.
    Á vegum utanríkisráðuneytis hafa verið gerðir tveir starfslokasamningar í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Annars vegar var gerður samningur við starfsmann tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli sem fól í sér að greiddar voru 30 klst. í dagvinnu á mánuði frá 16. mars 1993 til 17. ágúst 1994 er eftirlaunaaldri var náð. Hins vegar er um að ræða samning við starfsmann lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli sem felur í sér greiðslu 32 klst. í dagvinnu á mánuði frá 1. maí 1994 til septembermánaðar 1997 er eftirlaunaaldri verður náð. Samkvæmt upplýsingum utanríkisráðuneytis voru samningar þessir gerðir til að komast hjá annars óhjákvæmilegum uppsögnum yngri starfsmanna.

Menntamálaráðuneyti.
    Aðalskrifstofa menntamálaráðuneytis hefur gert einn starfslokasamning í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Fyrrverandi ráðuneytisstjóri hélt óskertum launum til ársloka 1993 samkvæmt samkomulagi um að hann ynni ákveðin verkefni í þágu ráðuneytisins á þeim tíma. Var þar einkum um að ræða vinnu við að semja og yfirfara lagafrumvörp. Lét hann af embætti að eigin ósk.

Landbúnaðarráðuneyti.
    Enginn starfslokasamningur hefur verið gerður af hálfu aðalskrifstofu landbúnaðarráðuneytis í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Skógrækt ríkisins gerði einn samning við starfsmann um lausn frá föstu starfi þar sem jafnframt er kveðið á um að viðkomandi einstaklingur inni af hendi ákveðna vinnu fyrir stofnunina og njóti greiðslna fyrir það. Féllst landbúnaðarráðuneytið á að greiða starfsmanninum eingreiðslu, 600 þús. kr., til að bæta honum upp réttindamissi miðað við óbreytt vinnufyrirkomulag.

Samgönguráðuneyti.
    Aðalskrifstofa samgönguráðuneytis hefur átt aðild að tveimur starfslokasamningum í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Gerður var samningur við fyrrverandi ráðuneytisstjóra er tók gildi 1. september 1994. Samningurinn gildir til 21. desember 1998 og felur í sér að starfsmaðurinn skrifi sögu ferða- og samgöngumála á Íslandi. Jafnframt verður hann áfram formaður hafnaráðs og siglingaráðs. Samkomulagið gerir ráð fyrir að auk fastra launa (samkvæmt launaflokki 155-8) verði starfsmanninum greitt ígildi 122 eininga nefndarlauna á mánuði og afnot af eigin bíl sem nemur 4.000 km akstri á ári, auk fastagjalds fyrir afnot af síma. Hann hefur aðstöðu á skrifstofu ráðuneytisins til að vinna verk sín. Fyrrverandi ráðuneytisstjóri gekkst undir erfiða aðgerð í maí 1993 vegna veikinda. Starf ráðuneytisstjóra er erilsamt og krefst óskerts starfsþreks og af þeim ástæðum var gerður við hann samningur um framangreind verkefni, en miklar upplýsingar liggja fyrir í ráðuneytinu varðandi ferða- og samgöngumál á Íslandi sem nauðsynlegt er að flokka og koma skipulagi á.
    Fyrrverandi flugmálastjóri óskaði lausnar frá starfi 1. júní 1992. Vegna samninga um Evrópska efnahagssvæðið og mikilla breytinga á alþjóðarétti varðandi loftferðir og stjórn flugmála var talið nauðsynlegt að íslensk lög þar að lútandi yrðu tekin til endurskoðunar og samræmd alþjóðasamningum. Því var gert samkomulag við fyrrverandi flugmálastjóra, er hann lét af starfi, um að hann annaðist endurskoðun ýmissa laga um flugmál, þar á meðal laga um loftferðir. Samkomulagið tók gildi 1. júní 1992 og gilti til 1. júlí 1994. Lauk starfsmaðurinn starfi sínu með því að skila fullgerðu frumvarpi til laga um loftferðir sem lagt hefur verið fyrir Alþingi. Samið var um að greiðsla fyrir þessi störf væru laun flugmálastjóra að viðbættum 40 yfirvinnustundum á mánuði.
    Þá voru gerðir þrír starfslokasamningar á vegum undirstofnana samgönguráðuneytisins. Vita- og hafnamálastofnun gerði tvo starfslokasamninga. Annar fól í sér að fyrrverandi starfsmanni voru greidd full laun í 12 mánuði í samræmi við þjónustualdur hjá ríkinu, auk tillags í lífeyrissjóð. Hinn samningurinn fól í sér greiðslu fullra launa til fyrrverandi starfsmanns í sex mánuði í samræmi við þjónustualdur hjá ríkinu. Störfin voru lögð niður vegna minnkaðs umfangs og breytinga á starfsemi stofnunarinnar.
    Loks gerði Flugmálastjórn einn starfslokasamning á umræddu tímabili. Samningurinn fól í sér að viðkomandi starfsmanni voru greiddar 1,8 m.kr. vegna starfsslitanna.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.
    Í svari heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis segir að ráðuneytið hafi engan starfslokasamning gert í tíð núverandi ríkisstjórnar. Þar segir einnig að við starfslok fyrrverandi tryggingayfirlæknis 31. desember 1993 hafi verið fallist á að Tryggingastofnun ríkisins greiddi honum uppsafnað ótekið námsleyfi og fékk hann það í sex mánuði frá 1. janúar 1994.
    Með bréfi, dags. 26. október, staðfesti heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið að það hefur ekki fengið til staðfestingar eða samþykktar neina starfslokasamninga undirstofnana sinna í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar.

Félagsmálaráðuneyti.
    Engir starfslokasamningar hafa verið gerðir á vegum aðalskrifstofu félagsmálaráðuneytis. Húsnæðismálastofnun hefur gert 12 starfslokasamninga, sbr. skilgreiningu í inngangi að svari þessu, og fengu starfsmennirnir greidd biðlaun í sex mánuði hver samkvæmt réttindum hvers og eins. Störf þeirra voru lögð niður.

Umhverfisráðuneyti.
    Gerður hefur verið einn starfslokasamningur í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Fyrrverandi ráðuneytisstjóri átti samkvæmt samningnum að láta af störfum 1. ágúst 1992 en átti að njóta óbreyttra starfskjara til 1. janúar 1993. Ráðherra hugðist samkvæmt samningnum fela starfsmanninum sérverkefni á sviði umhverfismála sem svaraði til tíu vikna vinnu á ári til 1. janúar 1995. Samningur þessi var ekki uppfylltur þar sem viðkomandi einstaklingur lést áður en til þess kom. Starfsmaðurinn hafði óskað lausnar frá stöðu sinni fyrir aldurs sakir.

    Engir starfslokasamningar hafa verið gerðir á vegum sjávarútvegsráðuneytis , iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta, dóms- og kirkjumálaráðuneytis, Hagstofu Íslands og fjármálaráðuneytis samkvæmt þeirri skilgreiningu sem að framan greinir.
Neðanmálsgrein: 1
1  Sjávarútvegsráðuneyti staðfestir í svari sínu að veittar upplýsingar eigi einvörðungu við um stofnanir sem fram koma í A-hluta ríkisreiknings.