Ferill 232. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 232 . mál.


306. Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um tóbaksvarnir.

    Hvenær hyggst ráðherra leggja fram nýtt frumvarp til tóbaksvarnalaga?
    Frumvarp til tóbaksvarnalaga var lagt fram á 117. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis aflaði umsagna um frumvarpið í sumar. Á fundi ríkisstjórnar 25. nóvember sl. var ákveðið að senda frumvarpið til þingflokka stjórnarflokkanna með það í huga að endurflytja það. Frumvarpið er nú til umsagnar í þingflokkum stjórnarflokkanna.

    Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að hér á landi verði orðið við tilmælum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) til aðildarríkja sinna að banna sölu á reyklausu tóbaki?
    Samkvæmt frumvarpi til tóbaksvarnalaga verður sala munntóbaks bönnuð. Ekki náðist samstaða um að leggja til að sala neftóbaks yrði einnig bönnuð. Ráðherra hyggst beita sér fyrir því við meðferð málsins á Alþingi að sala neftóbaks verði bönnuð.

    Hvernig hyggst ráðherra bregðast við aukinni tóbaksneyslu unglinga og ungs fólks?
    Krabbameinsfélag Íslands hefur með höndum stöðuga fræðslu í skólum landsins. Tóbaksvarnanefnd leggur efni til þeirrar fræðslu. Til að takmarka reykingar unglinga hefur nú náðst samvinna við kvikmyndahúsaeigendur um reyklaus bíó. Frá og með 1. desember 1994 eru reykingar bannaðar í kvikmyndahúsum.
    Nýlega beitti tóbaksvarnanefnd sér fyrir teiknimyndasamkeppni í grunnskólum til að vekja athygli nemenda á skaðsemi tóbaksreykinga.