Ferill 352. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 352 . mál.


574. Fyrirspurn



til fjármálaráðherra um úboðsstefnu ríkisins.

Frá Hermanni Níelssyni.



     1 .     Er að vænta breytinga á útboðsstefnu ríkisins, t.d. á sviði vegagerðar, viðhalds eigna og nýbygginga?
     2 .     Hver er afstaða ráðherra til „meðaltalsaðferðar“ við útreikning tilboða?
     3 .     Hvert er mat ráðherrans á afleiðingum útboðsstefnu sem gerir ráð fyrir að taka ávallt lægsta tilboði — jafnvel þótt verktakar segist geta unnið útboðsverk á 50% lægra verði en verkfræðingar í þjónustu ríkisins reikna út að sé kostnaðarverð?
     4 .     Ætlar ráðherrann að beita sér fyrir því að kannaðar verði afleiðingar af útboðsstefnu ríkisins með tilliti til gjaldþrots fyrirtækja og einstaklinga, ásamt atvinnumissi starfsmanna og tekjutapi ríkisins í framhaldi af því?


Skriflegt svar óskast.

Greinargerð.


    „Meðaltalsaðferð“ sem spurt er um í 2. lið og nota má við útreikning tilboða í hvers kyns mannvirkjagerð er þannig:
     1 .     Hönnuðir mannvirkja reikni ekki kostnaðaráætlanir heldur aðrir aðilar sem til þess hafa fengið opinbert leyfi.
     2 .     Öll tilboð í verk sem reiknast lægri eða hærri en fyrir fram ákveðið hlutfall af kostnaðaráætlun falli úr útboðinu og komi ekki til greina (dæmi: 20%).
     3 .     Upphæðir þeirra tilboða sem eftir standa eru lagðar saman ásamt upphæð kostnaðaráætlunar og deilt í með fjölda (bjóðendur og kostnaðaráætlun).
     4 .     Því tilboði, sem stendur næst þeirri útreiknuðu tölu sem þannig fæst og er lægra, skal tekið.